Esjuáskorun á rúmlega 24 tímum
25. júlí 2019
Þorvaldur Þórsson

Esjuáskorun
á rúmlega 24 tímum


Mynd 1. Glaðbeittir í byrjun ferðar.

  Allt frá því að ég heyrði af Esjuáskoruninni, sem gengur út á að heimsækja 38 GPS punkta á öllum Esju fjallgarðinum, langaði mig að gera þetta í einni ferð. Allan veturinn og vorið hafði verkefnið verið að þróast. Nýjum viðkomustöðum var bætt við og öðrum hent út. Þetta áttu að vera áhugaverðir staðir eins og Kerhólakambur, Kistufell, Steinn og fleiri áhugverðir staðir. Spurningin var bara hvernig væri hagkvæmast að koma við á öllum þessum stöðum? Á endanum samanstóð verkefnið af 38 viðkomustöðum sem allir voru með GPS hnit. Ég hafði í nokkuð mörgum smáferðum heimsótt eða séð tilsýndar alla þessa staði þannig að ég þurfti ekki að eyða óþarfa tíma í að leita af þessum stöðum. Ég setti ferilinn sem ég bjó til og alla GPS punktana í GPS tækið mitt og ætlaði að tracka leiðina til að staðfesta. Ég ætlaði að gera þetta þannig að það væri óvéfengjanlegt  að ég hefði gert þetta í einni ferð.

  Veður hafði verið frábært seinni hluta júlí en ég taldi mig ekki vera í nægjanlega góðu formi til að klára þetta almennilega. Konan mín og ég vorum í heimsókn hjá vinahjónum okkar Tinnu Gunnarsdóttur og Bjarna Þorbergssyni þegar þetta verkefni barst á góma og Tinna greip þetta strax á lofti og sagði „Af hverju gerið þið þetta ekki saman næstu helgi?“ Mig hafði aldrei grunað að ég fengi göngufélaga í þessa vitleysu þannig að ég sagði að ég væri til. Bjarni vildi aðeins hugsa málið og ætlaði að gefa mér svar daginn eftir. Hann hringdi í mig á mánudeginum og sagðist vera til í að gera þetta. Ég treysti Bjarna fullkomlega til að klára þetta verkefni þar sem hann hafði klárað Laugavegshlaupið þrisvar og var maður með reynslu. Ég fór að vinna í verkefninu og spurði Ásgeir höfund verkefnisins um nokkur vafaatriði og þá kom nýr staður inn sem var Miðmundadalshnúkur sem lengdi verkefnið talsvert. Það voru einnig nokkrir punktar sem höfðu dottið út í staðinn þannig að þetta var alveg ásættanlegt. Ferillinn reyndist vera í Garmin BaseCamp tæplega 71 kílómetrar en ég hafði sagt Bjarna að þetta væru 63. Ég hafði þá ekki tekið með þennan nýja viðkomustað sem var ansi langur krókur. Ég ákvað að vera ekkert að segja honum frá þessu svona fyrirfram til að eyðileggja stemminguna. Allt var tilbúið og nú var bara að vona að veður yrði þokkalegt og að líkaminn héldi alla leið.  Ég var búinn að senda Báru Ketils póst eins og ég lofaði henni en hún var upptekin í öðrum verkefnum. Það hefði verið mjög gaman að hafa hana með í ferðinni.

  Gunnar Páll sonur Bjarna skutlaði okkur upp í sumarbústaðahverfi í Kjósinni sem er staðsett rétt undir Múlanum sem gengur norðvestur úr Trönu sem var fyrsti viðkomustaður okkar í ferðinni. Við tókum allt dótið úr bílnum og Bjarni var ennþá að hugsa hvort hann ætti að taka þunga gönguskó (Mendl) eða utanvega hlaupaskóð(La Sportiva). Á endanum ákvað hann að taka léttu skóna en ég var löngu búinn að ákveða að taka almennilega gönguskó þ.e. Scarpa skó sem ég hafði átt lengi og treysti fullkomlega í verkefnið. Þeir voru talsvert þyngri en léttu gönguskórnir mínir en færið sum staðar á leiðinni er það gróft að ég þorði ekki öðru en að taka almennilega skó. Þegar allt var tilbúið og pokarnir komnir á bakið voru myndir teknar í byrjun ferðar. Við vorum báðir með göngustafir sem komu sér mjög vel í ferðinni og björguðu okkur báðum nokkrum sinnum frá falli.  Klukkan var 17:34 þegar við lögðum loks af stað.


Mynd 2. Við vörðuna uppi á Trönu.

  Við kvöddum Gunnar Pál og klofuðum yfir hlið sem var fyrir framan okkur og gengum í gegnum sumarbústaðaland og hittum þar fyrir eldri hjón sem voru að vinna í landinu sínu og töluðum aðeins við þau og voru þau svo vingjarnleg að sýna okkur bestu leiðina framundan. Konan sagði að það væri best að taka Múlann upp á Trönu en ég hafði ætlað að fara inn dalinn og upp til hægri á brún. Við ákváðum að fylgja hennar leiðbeiningu og kvöddum og gengum rösklega af stað. Fyrst var mikið af þúfum og mjúkt að ganga en þegar utan í Múlann var komið var landið svolítið fastara fyrir og auðveldara til uppgöngu. Við gengum nokkuð rösklega, en samt ekki of, upp brekkurnar og stoppuðum hvergi nema á einum stað til að fækka fötum því okkur hitnaði ansi duglega á að púla upp brattann. Ég sá að það voru nokkuð ófrýnileg ský í austri sem nálguðust óðfluga. Þegar við vorum búnir að hækkar okkur í Múlanum byrjaði aðeins að rigna. Við fórum í regnstakkana okkar en sem betur fer varð ansi lítið úr þessum skúr. Við gengum áfram alla leið á topp Trönu og voru farnir að svitna vel og fækkuðum aftur fötum þar. Nú var fyrsti toppurinn að baki, rigningin hætt og við stefndum á skarðið milli Trönu og Móskarðshnúka.


Mynd 3. Uppi á Móskarðshnúk.

    Við gengum fram á brúnina á Trönu og sáum að við þurftum talsvert að lækka okkur niður í skarðið og var landið framundan mis gott gönguland. Við gengum niður og skiptist á mosi og grjót en þegar við vorum komnir utan í nyrsta Móskarðshnúkinn þá vorum við komnir í grjótskriðu. Ég sá að það mótaði fyrir stíg í skriðunni og fylgdum við honum upp.  Þegar við komum upp fyrir brún sáum við loks upp á toppinn talsvert fyrir ofan okkur. Þar sáum við tilsýndar þrjá göngumenn. Við komum stuttu seinna upp á toppinn og þar voru fyrir þrjár konur og kannaðist ég við eina þeirra. Þær voru mjög hressar og buðust til að taka mynd af okkur  og við gerðum það sama og tókum myndir af þeim. Við spjölluðum aðeins við þær og sögðum þeim hvað við værum að fara að gera og vildu þær endilega fá Strava nafnið mitt til að sjá hvort okkur tækist að ljúka við herlegheitin. Ég sagði þeim að þetta væru sennilega rúmlega 70 kílómetrar. Bjarna sagði „Nú segir þú mér það“ og brosti. Ég vissi að hann mundi taka þessum fréttum með stöku jafnaðargeði.  Við kvöddum brátt og gengum rösklega af stað niður eftir stígnum og var ferðinni heitið á næsta topp sem var Bláhnúkur sem er utan í austurhlíðum Móskarðshnúka. Við vorum fljótir að koma niður að Bláhnúk og gengum rösklega upp síðustu metrana á toppinn og fann ég svolítið fyrir því og hugsaði „Verð ég slappur í öllum brekkunum framundan?“  Ég bandaði frá mér þessum neikvæðu hugsunum fór að hugsa annað. Við tókum myndir og ég sá að klukkan var að verða 10 að kvöldi tók mynd af höfuðborgar- svæðinu sem sást vel í kvöldbirtunni.


Mynd 4. Útsýni ofan af Bláhnúk.

   Við gengum brátt af stað og ákváðum að fara beint upp hlíðina frá Bláhnúk og koma upp í skarðið milli tveggja næstu Móskarðshnúka. Í fyrstu var auðvelt að ganga en brátt komum við í brattann þar sem lausara var og þá hægði verulega á okkur. Við gerðum eins og við vorum vanir, við gengum á hraða sem passaði okkur og hvíldum okkur ekki fyrr en við komum upp á brún. Þar tókum við mjög stutt stopp og gengum nánast strax af stað og stefndum á toppinn á Móskarðshnúk númer tvö. Það var ekki langur gangur á toppinn og stoppuðum við þar í stuttan tíma til að taka myndir. Ég hafði verið að fylgjast með skýjafari sem olli mér smá áhyggjum. Skýin höfðu lækkað talsvert og þegar litið var til vesturs þá sá ég þoku í fjöllunum vestan við Laufskörð. Ég var að vonast til þess að við þyrftum ekki að ganga í blindu því þá mundi gönguhraðinn minnka til muna. Ég sagði ekkert við Bjarna en vonaði það besta. Við gengum til baka ofan í skarðið þar sem við höfðu komið upp og þaðan beint upp á næsta topp. Það var frekar stutt brekka en allt mjög laust í henni. Þarna var áberandi stígur þannig að það einfaldaði málin talsvert. Við gengur rösklega alla leið í áttina að Laufskörðum. Rétt áður en við komum þangað þá töluðum við um að við þyrftum að fá okkur að borða í fyrsta skiptið síðan við byrjuðum. Við ákváðum að finna góðan stað eftir Laufskörðin því það var svolítill vindstrekkingur frá suðaustri og vildum við setjast niður í skjóli. Við voru fljótir að afgreiða Laufskörð því stígurinn þar er mjög góður og er nokkuð langt síðan ég hef gengið þar um. Það er komin keðja á öllum hættulegustu stöðunum og búið að gera leiðina mjög auðvelda fyrir lofhrædda.


Mynd 5. Laufskörð.

Fyrir vestan  Laufskörð  gengum við smá kafla á stígnum sem er þar en brátt fórum við að stefna til norðurs og settum stefnuna á Seltind sem var næsti viðkomustaður. Skýin virtust aftur vera aðeins að hækka sig og ég sem hélt að við yrðum þegar komnir í þoku, var mjög ánægður að sleppa við hana. Þegar landið tók að lækka í áttina að Seltindi þá ákváðum við að setjast niður og fá okkur að borða. Við stoppuðum í um það bið 10 mínútur og röðuðum í okkur mat eins og við gátum. Við vorum báðir orðnir mjög svangir fegnir að fá smá bita. Bjarni spurði mig hvar hægt væri að bæta á vatnsbirgðirnar og sagði ég honum að það væri í næsta dal Flekkudal sem væri eftir c.a. klukkutíma gang. Svo væri ekki hægt að fá neitt að drekka fyrr en í mynni Blikdals sem væri ekki fyrr en eftir langan tíma. Landlagið var núna grjót og mosi og þurftum við að passa okkur á að reka ekki  tærnar í grjót. Við gengum aftur af stað og stefndum á Seltind sem gengur til austurs ofarlega í Eyjadal og er nokkurn veginn á móti Trönu. Ég tók upp GPS tækið og gekk að vörðubroti sem er þarna en sá að ég var talsvert frá réttum punkti samkvæmt tækinu. Við gengum fram á brúnina og örlítið til hægri (suðurs) og þar fundum við punktinn og Bjarni sagði „ Það er alveg rökrétt ef maður er niðri í dal að toppurinn sé hér“. Við stoppuðum stutt og snérum við og vorum brátt farnir að hækka okkur aftur í landslagi sem samanstóð af mosa og grjóti. Næsti viðkomustaður var tæplega tvo kílómetra fyrir norðan okkur. Við gengum rösklega fram á hrygginn sem skilur að Flekkudal og Eyjadal. Færið var svipað og það hafði verið grjót og mosi alls staðar.


Mynd 6. Séð yfir á Móskarðshnúka frá Seltindi.

   Við komum brátt fram á Esjuhorn og staðfesti ég það með GPS tækinu. Við litum niður í áttina að næstu tveim viðkomustöðum sem voru Sandfjall og Miðfjall. Við þurftum að lækka okkur talsvert til að komast þangað og sá ég að á milli fjallana var staður þar sem hægt væri að ná í vatn. Það var eins konar uppspretta og var Dýjamosinn áberandi þar allt í kring. Þetta var fyrir ofan botn lítils dals sem kallast Torfdalur sem skilur að mis langa hryggi þar sem Sandfjall og Miðfjall eru. Við lækkuðu okkur fljótt niður bratta hlíð og settum stefnuna á Sandfjall og ég leit á GPS tækið og sá að toppurinn var nokkuð nærri okkur en mig hafði grunað. Toppurinn er ekki alveg úti á enda hryggjarins sem er talsverður spotti. Rétt austan við botn Torfdals er smá hæð og þar reyndist toppurinn vera. Við gengum upp á hæðina og ég staðfesti punktinn með tækinu mínu og við snérum við og settum stefnuna á næsta topp sem var ekki langt frá okkur.

   Við komum brátt að dýinu og tók Bjarni vatn þar en ég ætlaði að bíða með að taka vatn þangað til ég kæmi í botn Flekkudals. Ég hafði á fyrri ferð minni séð að þar var nóg vatn að fá úr nokkrum lækjum sem renna þar úr stórum fönnum sem eru í botni dalsins. Við gengum síðan fram á næsta hrygg en hann er miklu styttri en sá sem Sandfjall er á. Við voru nokkuð fljótir að að komast fremst á hrygginn þar sem Miðfjall er.


Mynd 7. Meðalfellsvatn og Hvalfjörður sjást vel frá Esjuhorni.

   Við ákváðum að fara ekki til baka upp á Esjuhorn heldur ganga inn Flekkudal  og halda hæð  og stytta okkur leið. Ástæðan fyrir því var sú að þarna var einn af fáum stöðum á leiðinni þar sem öruggt er að fá vatn. Við sáum þarna hvarvetna merki um að hestar gangi þarna inn dalinn og gengum eftir breiðri syllu sem lá eftir miðju fjallinu alla leið inn í botn. Það var hestaskítur út um allt og við gengum eftir eins konar slóð sem gat verið bæði kindagata eða hestagata. Það var þægilegt að ganga eftir þessum stíg sem hlykkjaðist inn dalinn. Það voru talsvert margir staðir þar sem grjótskriður höfðu runnið og kræktum við niður fyrir sumar og fórum yfir aðrar eftir því hvernig slóðinn lá. Það sem kom okkur mest á óvart voru allir þeir fjölmörgu litlu lækir sem runnu niður hlíðina.  Ég hafði haldið að einu lækirnir væru alveg í botni dalsins en það var nú öðru nær. Núna klofuðum við yfir marga litla læki og tók ég vatn í einum þeirra því ég átti ekki mikið vatn eftir. Þegar við komum alveg innst í dalinn var slóðin horfin og við gengum rösklega innan um stórgrýtið og þurftum sum staðar að hækka okkur eða lækka okkur til að komast framhjá stórgrýti. Þegar við vorum komnir alveg inn í dalbotninn voru þar fyrir tveir nokkuð stórir lækir sem ég hafði séð ofan af Skálatindi fyrr í sumar. Bjarni notaði tækifærið og byrgði sig upp af vatni. Það var farið að nálgast miðnætti og birtu tekið að bregða. Við vorum báðir sammála um að það væri mikið auðveldara að ganga þarna inn dalinn heldur en að fara aftur upp á Esjuhorn og ganga ofan á fjallgarðinum því færið þar er erfiðara. Þarna ofarlega í dalbotninum voru stórar fannir og við sáum að svona seint að sumri væru þær erfiðar því án mannbrodda væri ekkert vit að ganga á þeim. Við sáum móta fyrir ís hvarvetna utan í föninni sem var fyrir ofan okkur. Við ákváðum að fara á milli tveggja fanna sem voru þarna og halda okkur eingöngu á grjóti sem nóg var af. Við þurftum að passa okkur á grjóthruni því allt var laust. Við hækkuðum okkur og vorum brátt staddir í mjög stórgrýttri urð sem var þarna á stóru svæði. Ég vissi að núna tók við langur kafli næstum alveg að Skálatindi þar sem við þurftum að hálf hoppa ofan á stórgrýti til að flýta fyrir okkur. Það gat verið varasamt þar sem sumir stóru steinarnir eru lausir og og geta snúist til skyndilega til hliðar. Við lentum báðir í því að stíga á grjót sem snérist skyndilega og þá komu göngustafirnir sé vel. Við vorum báðir sammála um að það væri ekkert vit í að takast á við þessa göngu án göngustafa.

  Við hoppuðum í langan tíma milli stórra steinana og þurftum að einbeita okkur af því að gera ekki mistök og detta á andlitið. Það var líka farið að bregða birtu þannig að við þurftum að fara varlega. Við þurftum að hækka okkur talsvert til að komast upp úr dalbotninum eða um tæplega 200 metra.   Eftir langan tíma hoppandi milli steina í urðinni komumst við loks upp á hálsinn þar sem Skálatindur var fyrir framan okkur þá batnaði færið til muna. Við settum stefnuna á vörðu sem var fyrir framan okkur. Þegar við komum að vörðunni leit ég á GPS tækið og sá að þetta var ekki alveg rétti staðurinn. Við gengum í norður fram á brúnina og þar fann ég réttan stað nánast á blá brúninni. Við vorum báðir orðnir svangir og ákváðum að fá okkur vel að borða. Ég leit á GPS tækið og sá að næsti toppur var langt fyrir neðan okkur í norðri rétt við Meðalfellsvatnið. Þetta var Miðmundadalshnúkur sem var rúmlega 3,5 km frá okkur í beinni línu og um 550 metra lækkun. Bjarni spurði mig svolítið út í þetta og fannst þetta ansi duglegur útúrdúr. Miðað við lengd fram og til baka þá var hægt að giska á að þessi partur af leiðinni mundi taka um það bil tvo til þrjá tíma. Það var yfir hánóttina meðan verstu birtuskilyrðin væru.


Mynd 8. Tunglsljósið speglaðist í Meðalfellsvatninu um nóttina.

   Við ætluðum að skilja bakpokana eftir hér og fórum í úlpurnar okkar og settum sitt hvora vatnsflöskuna í vasann ásamt orkustykkjum. Það var ekkert vit að burðast með bakpokana alla þessa leið. Ég tók GPS punktinn nákvæmlega þar sem pokarnir voru og nefndi hann „Pokar“. Við gengum léttir niður eftir hryggnum og var orðið erfitt að greina landslagið vel sökum slæmrar birtu. Það voru hálf gerðar skriður á bröttu köflunum en auðveldara á sléttu köflunum. Við héldum áfram, að því er okkur virtist, endalaust áfram niður og fram eftir hryggnum. Á vinstri hönd var Eilífsdalur en á hægri hönd Flekkudalur. Ég vissi það af eigin raun hversu langur Eilífsdalurinn er því þar inn hafði ég mjög oft gengið þegar ég stundaði ísklifur í botni dalsins. Að lokum sáum við fyrir endann á þessu brölti niður á við og vorum við staddir á flötum litlum höfða sem gnæfði yfir Meðalfellsvatni sem var rétt fyrir neðan okkur. Við sáum ljósin við hina fjölmörgu sumarbústaði sem voru þarna og það glampaði á Meðalfellsvatnið í rökkrinu. Við tókum okkur smá tíma til að drekka vatn og borða eina orkustöng á mann og vorum sammála um að við ættum ekkert að vera að slíta okkur út í brekkunum sem voru framundan.

  Við gengum brátt af stað og eftir stutta stund ákváðum við að stoppa til að fækka fötum því þrátt fyrir næturkulið þá hitnuðum við fljótt í púlinu upp brekkurnar. Við gengum afganginn alla leið upp án þess að stoppa og héldum stöðugri og nokkuð góðri ferð alla leiðina. Þegar upp var komið þá vorum við báðir orðnir kóf sveittir. Við fundum pokana og ákváðum að skipta um nærboli því við höfðum svitnað svo mikið að það var ekkert vit að ganga í blautum fötum. Við höfðum talað um það hvort við ættum að fara í hlýrri nærboli fyrir nóttina áður en við fórum niður eftir hryggnum en vorum ánægðir að hafa ekki gert það fyrr en núna. Það var frábært að komast í þurran bol og hengja þann blauta utan á pokana okkar. Nú var klukkan orðin rúmlega þrjú að nóttu til og talsvert tekið að birta. Við gengum til baka upp eftir hálsinum í mjúkum mosa og settum stefnuna á Hátind sem var næsti toppur. 

   Þegar mosanum sleppti tóku við mjög grýttir kaflar og vorum við aftur farnir að hoppa milli grjóttoppa. Það komu einnig þægilegri kaflar sem voru nánast sléttir í drögum sem voru þarna.  Við nálguðumst áberandi hæð sem var á háhryggnum og vorum við þar í um 900 metra hæð þegar við sáum loks Hátind framundan. Það var talsverður gangur eftir áberandi hrygg að tindinum. Við sáum brátt móta fyrir stíg sem var þarna á köflum vestan í hryggnum og fylgdum honum. Við kræktum undir klettabelti sem er þarna á hryggnum og vorum við þá alveg við Hátind og komumst upp á hann stuttu seinna. Við stoppuðum ekki lengi þarna og leit ég á GPS tækið til að staðfesta. Síðan var stefnan sett á Hábunguna sem var í um þriggja kílómetra fjarlægð í beinni línu. Við þurftum hins vegar að taka á okkur góðan krók til að halda almennilega hæð.


Mynd 9. Vörðubrotið uppi á Hábungu.

  Við fylgdum stígnum eftir þangað til við vorum komnir nánast upp á háhrygginn fyrir framan okkur og beygðum til vesturs og tók þá við mjög gott og slétt gönguland í góðan tíma og nutum við þess að strunsa áfram og spjalla saman. Þegar nær dró Hábungunni fór að verða grýttara og hægði þá verulega á ferðinni. Við komum brátt á Hábungu og stoppuðum við vörðuna sem þar er.  Við stoppuðum ekki lengi þar því við vildum komast á næsta  viðkomustað sem er Eilífstindur var hann  talsvert fyrir neðan okkur í áttina að botni Eilífsdals.

   Færið niður í áttina að botni Eilífsdals var ótrúlega stórgrýtt og erfitt eins og upp af botni Flekkudals. Við lækkuðum okkur varlega og pössuðum okkur á að detta ekki því það gat verið óþægilegt. Við sáum ekki almennilega hvar tindurinn var svo ég fylgdi stefnu sem GPS tækið gaf mér. Þarna eins og á mörgum öðru stöðum gott að vera búinn að skoða landið svolítið og kynnast leiðinni því það er auðvelt villast og taka á sig óþarfa krók sem tekur tíma. Brátt sá ég móta fyrir þremur áberandi stöpum sem standa þarna út úr lóðréttri brúninni á botni dalsins. Ég hafði komið þarna áður og setti strax stefnuna á þann vestasta því á fyrri ferð minni hafði ég ekki tekið GPS stefnu á Eilífstind og endaði ranglega á austasta stapanum. Færið fór ekki að batna fyrr en við komum nánast alveg niður á flatann höfðann og þá tók við mjög þykkur mosi. Við sáum móta fyrir sporum eftir göngufólk í mosanum og fór ég að hugsa um að það væri nauðsynlegt að merkja stíg í gegnum þennan mosa svo hann skemmdist ekki allur heldur bara þar sem fólk gengi. Þegar við komum út á höfðann fengum við fiðring í magann því á báða bóga var lóðréttur hamraveggur meira en 100 metra hár og beint fyrir neðan hann tók við mjög brött hlíð. Það er talsvert glæfralegt að ganga alveg fram á tánna sem stendur þarna út en það er hægt að ná mynd af tindinum án þess að fara alveg fram á blá brúnina. Ég get nú ekki mælt með því að lofthræddir geri það heldur láti nægja að fara fram á flatann. Við stoppuðum stutt og gengum til baka og ég fór að skoða hvar næsti toppur er staðsettur sem nefnist Þórnýjartindur. Ég hafði haldið að þessi tindur væri á allt öðrum stað en GPS  hnitið á listanum góða. Ég hélt að þetta væri hæsti toppur norðan Blikdals sem er nærri botni dalsins en toppurinn átti að vera vestast í botni Blikdals fyrir ofan Þverá sem er merkt á Garmin kortinu. Þetta var þar sem styðst er á milli botns Blikdals og Eilífsdals. Ég var ákveðinn í að finna einhvern stað þarna sem ég gæti kallað topp. Við hækkuðum okkur talsvert eftir að hafa skoðað Eilífstind því af fyrri reynslu var ekki eins stórgrýtt ofarlega á brúninni eins og neðarlega. Eftir að hafa hækkað okkur gengum við í vestur átt þangað til við sáum niður í Blikdal og fórum þá niður til hægri og  þar sem var talsvert grýtt. Við lækkuðum okkur alveg niður á brún og ég leit á GPS tækið og sá að punkturinn var talsvert neðar og við lækkuðum okkur niður á næstu brún og það nægði ekki heldur. Við fórum aðeins neðar og þá fannst mér nóg komið og merkti punktinn þarna. Mér persónulega finnst þetta mjög vafasamur toppur ef topp skyldi kalla. Kannski virkar þetta sem toppur séð neðan úr dal. Núna voru um það bili 12 tímar liðnir frá því við lögðum af stað og vorum við búnir að ganga 39 kílómetra og ég hafði mælt alla leiðina á korti og reyndist hún þá um 71 km. Ég var mjög bjartsýnn að ná þessu á innan við 24 tímum eins og ég hafði stefnt að því margir kaflar á seinni helming leiðarinnar voru nokkuð greiðfærir.


Mynd 10. Eilífstindur rétt hægra megin við miðja mynd.

   Við hækkuðum okkur aftur í stórgrýtinu og vorum brátt komnir af stað út fjallgarðinn norðan við Blikdal og þar var svolítið greiðfærara þó svo að ennþá væri grýtt þarna á köflum.  Við gengum yfir áberandi hæð sem er hæsti toppur norðan Blikdals. Þegar þarna var komið við sögu var gangurinn auðveldur niður í móti alla leið niður í lítið skarð sem þarna er. Þarna kemur inn lítill dalur norður úr Blikdal sem nefnist Leynidalur. Þegar við komum framhjá skarðinu þá var sléttan fyrir framan okkur svolítið grýttari en samt var nokkuð auðveldur kafli sökum þess hversu flatt landið er þarna. Við þurftum þó að passa okkur á að lyfta fótunum í hverju skrefi svo við rækjum ekki tærnar í grjótið. Við vorum brátt komnir nálægt næsta toppi sem er Tindstaðahnúkur og gengum í norður alveg út á brún þar sem toppurinn er.  Þarna var allt farið að ganga betur og gáfum við okkur góðan tíma til að fá okkur vel að borða því við töldum að við mundum auðveldlega takast að ná þessu á undir 24 tímum. Að sjálfsögðu var ekki alger nauðsyn því að markmiðið var að njóta ferðarinnar. Að ná þessu á tilsettum tíma var svona bónus í ferðinni.  Við gengum aftur af stað og settum stefnuna á Dýjadalshnúk. Leiðin var því sem næstum flöt en grýtt á köflum en að öðru leit greiðfær. Þegar við komum fram á enda fjallgarðsins þá leit ég á GPS tækið og sá að réttur punktur var rétt hjá. Við gengum fram á brúnina og niður í áttina að tindi sem var aðeins neðar. Samkvæmt GPS tækinu virtist réttur toppur vera á tindinum rétt fyrir neðan hátoppinn. Þarna vottaði fyrir stíg sem við gengum eftir. Við lækkuðum okkur og gengum fram á tindinn og litum niður fyrir okkur og ég mundi eftir að hafa komið hér upp snemma í vor á snjó. Framundan var mjög brattur kafli og Bjarni spurði hvort þetta væri fært og ég sagðist hafa gengið hér áður upp og þetta væri vel fært. Við gengum af stað og þræddum öðru hverju stíg þar sem hann sást utan í brattri hlíðinni.


Mynd 11. Útsýni ofan af Dýjadalshnúk. Meðalhnúkur nær og Lokufjall-Hnefi fjær.

   Við komumst niður úr mesta brattanum stórslysalaust og gengum áfram rösklega niður á við. Færið var mjög þægilegt og miðaði okkur vel áfram. Þarna var mikið af mosa og mjúku grasi með berum melum þess á milli. Melahnúkur var næsti áfangastaður og það var ekkert annað en flöt gróðursnauð klettótt hæð. Við stoppuðum ekkert þar en ég staðfesti toppinn með GPS tækinu á fullri ferð. Við stefndum á næsta topp sem var Lokufjall – Hnefi. Þegar þangað var komið fengum við okkur stutta hressingu og sátum þarna og horfðum niður yfir Hvalfjörðinn. Veður var algerlega frábært. Algert logn og nokkuð heitt og sá í bláan himininn. Við ræddum um það hvar best væri að fara þvert yfir Blikdalinn og vorum sammála um að fara yfir ánna rétt fyrir ofan gljúfur sem var neðst í Blikdalnum. Ég sagði Bjarna að við þyrftum fyrst að fara alla leið niður á Skarðshorn við Tíðarskarð sem var nokkuð langt fyrir neðan okkur.


Mynd 13. Hleðslan uppi á Lokufjalli.

   Við héldum áfram að lækka okkur niður eftir hryggnum og gengum þangað til við komum alla leið niður að smá gili sem aðskildi Skarðshornið frá hryggnum sem við höfðum gengið niður eftir. Við lækkuðum okkur niður í gilið og aftur upp á Skarðhorn. Þar var fyrir steinhleðsla á toppnum sem við héldum að gæti verið vélbyssuhreiður frá seinna stríðinu. Við höfum ekki hugmynd um hvort það væri rétt tilgáta. Við snérum við og gengum aftur ofan í gilið og þræddum það út til suðurs og þaðan á ská niður í botn Blikdals. Við vorum frekar fljótir niður að gljúfrinu og gengum upp með gilbrúninni og leituðum af stað þar sem hægt var að ganga niður að ánni og fara yfir gilið. Við voru fljótir að finna hentugan stað og lækkuðum okkur niður að ánni og gekk ég yfir hana á steinum því ég var í það góðum skóm að ég blotnaði ekki. Bjarni var í sínum utanvega hlaupaskóm ákvað að fara úr skónum og vaða yfir ánna. Hann gerði það meðan ég bætti á mig vatni því ég var algerlega orðin vatnslaus.  Bjarni tók líka vatn og sagði ég honum að ekkert vatn væri að fá fyrr en við kæmum undir Kistufellið. Ég ákvað að drekka eina koffein drykkinn sem ég var með til að vera hressari í langri uppgöngu á Kerhólakamb. Bjarni hafði verið með tvo slíka drykki sem hann drakk um nóttina. Við ákváðum að taka hækkuninni frekar rólega þannig að við yrðum ekki í neinum vandræðum í lokin. Við borðuðum sitt hvort orkustykkið í blíðunni og drukkum nóg af vatni með.


Mynd 14. Vaðið yfir Blikdalsá.

    Við lögðum af stað og gengum upp bratta hlíðina og vorum brátt komnir upp úr sjálfu gilinu og þá minnkaði brattinn til muna. Við settum stefnuna á hrygginn fyrir neðan Arnarhamar. Við gengum til að byrja með frekar hægt en svo (eins og vanalega) jókst hraðinn umtalsvert. Hraðinn var samt ekki meiri en svo að við stoppuðum nánast ekkert fyrr en við stóðum á flötum toppnum á Arnarhamri. Þarna var landið frábært til göngu  svo okkur miðaði vel áfram. Við fækkuðum fötum og Bjarni talaði við konuna sína í síma. Við drukkum vel af vökva því við vorum farnir að svitna ansi mikið. Næsti viðkomustaður Smáþúfur voru stutt fyrir ofan okkur.  Við lögðum aftur af stað og þurftum aðeins að lækka okkur áður en við byrjuðum að hækka okkur aftur og vorum fljótir upp að Smáþúfum. Smáþúfur eru tveir hólar sem standa þarna á hryggnum og gerðum við okkur ferð á þá báða. Eftir það héldum við áfram og var hryggurinn nánast flatur á löngum kafla tíma og framundan var gil sem við þurftum að sneiða framhjá til þess að komast hjá því að lækka okkur ofan í gilið. Þetta kallast Vallárdalur en fyrir mér er þetta líkara gili en dal. Við þveruðum dalbotninn og þurftum aðeins að lækka okkur og settum stefnuna til hægri sem er til vesturs og stefndum á hábrúnir Vesturbrúna sem gnæfa yfir Kjalarnesinu.


Mynd 14. Laugagnípa nær og Naggur fjær.

  Fram undan var nokkur brött brekka sem við gengum rösklega upp og áður en við vissum vorum við komnir upp. Ég sagði Bjarna að við yrðum að taka á okkur krók til að fara á næstu tvo viðkomustaðina sem eru Naggur og Laugargnípa. Þetta eru tveir áberandi toppar sem liggja á hryggnum sem afmarka Vesturbrúnirnar til suðurs. Við gengum eftir brúninni sem hlykkjaðist hægra megin við okkur og héldum okkur vel frá sjálfri brúninni. Þegar við vorum komnir að fyrir ofan hrygginn sem topparnir liggja á stoppaði ég og sagði að hér væri best að taka af okkur pokana til að létta okkur. Ég tók GPS punkt á staðnum og brátt fórum við að lækka okkur eftir áberandi hrygg sem er þarna. Þarna mótaði fyrir stíg á köflum. Þegar við komum aðeins neðar sáum við niður yfir klettabrúnina þar sem Vesturbrúnirnar opnuðust fyrir neðan okkur og tókum andköf. Útsýnið var ótrúlega fallegt þarna og ég  tók fullt af myndum. Það var sérkennilegt að sjá hversu áberandi græni liturinn er í klettunum en það er vegna þess hversu vel gróður vex í þeim sennilega vegna áburðar frá fuglaskít. Við komum brátt niður í smá skarð þar sem við byrjuðum að hækka okkur upp á efri toppinn sem er Laugargnípa. Við vorum fljótir á toppinn og ég tók fleiri myndir þar og við dáðumst af útsýninu. Við byrjuðum aftur að lækka okkur í brattri hlíðinni og stuttu seinna vorum við farnir að hækka okkur upp á Nagg. Þar tók ég enn meira af myndum og við stoppuðum til að njóta andataksins og dást af frábæru útsýninu.


Mynd 15. Trékrossinn (sverðið) í vörðunni uppi á Kambshorni.

   Við snérum síðan til baka og fórum sömu leið niður af Nagg og við höfðum komið upp og brátt vorum við farnir að púla aftur upp hrygginn sem gekk mjög vel því við vorum ekki með pokana. Það munaði talsvert um þá þó þeir væru ekki þungir. Við vorum fljótir að finna pokana aftur og stoppuðum í góðan tíma til að fá okkur hressingu. Við héldum að stað og stefndum á hrygginn undir Kambshorni og taldi ég það bestu leiðina upp í stað þess að klöngrast í stórgrýtinu þar við hliðina þar sem hinn áberandi snjóskafl er á hverju ári fyrri part sumars. Þegar við komum utan í brattan hrygginn sáum við að þetta var rétt lesið í landið hjá okkur því þarna mótaði fyrir göngustíg. Við fylgdum göngustígnum alla leið á toppinn þar sem fyrir var varða með sérkennilegum trékross sem leit meira út eins og sverð sem sett hafði verið efst í vörðuna. Við veltum aðeins því fyrir okkur hvað þetta gæti verið.

Við stoppuðum stutt því sjálfur Kerhólakamburinn var skammt framundan. Gangan þangað var stutt og við stoppuðum þar aðeins til að taka eina mynd. Svo lækkaði landið alveg niður á Þverfellshornið og var grýtt á köflum en samt mjög þægilegt gönguland. Við tókum beygju til suðurs þegar við komum á Þverfellshornið og sáum þá strax móta fyrir göngufólki í fyrsta skiptið síðan við vorum á Móskarðshnjúkunum kvöldinu áður. Þegar við komum að útsýnisskífunni þá voru þar fyrir nokkrir göngumenn og konur og kvittuðum við í dagbókina og fengum okkur aðeins að drekka og ræddum við göngufólkið. Síðan drifum við okkur niður og var sérkennilegt að ganga þar sem var fullt af göngufólki eftir að hafa verið svo lengi einir á ferð. Við vorum fljótir niður klettana og niður að Steini og tók ég myndir þar þar og síðan var haldið af stað. Við fórum austur með hlíðinni því ferðinni var heitið í áttina að Gunnlaugsskarði við viðkomu á tveimur stöðum. Þegar við vorum komnir aðeins neðar settum við stefnuna í austur í áttina að Rauðhól. Við gengum rösklega eftir slóðanum og komu að gili þar sem Mógilsá rennur en hún á upptök sín upp í hlíðinni þarna rétt fyrir ofan. Rauðhóll var næsti viðkomustaður en hann samanstendur af nokkrum hólum sem eru þarna í þyrpingu og við komum við á þeim öllum til að vera vissir um að vera örugglega á rétta staðnum. Við stoppuðum stutt og settum stefnuna á Geithól sem er hryggur sem liggur alveg undir brattri hlíðinni. Við gengum aftur niður að slóðanum sem liggur þarna og gengum undir hrygginn alveg þangað til við vorum komnir að austurenda hryggjarins. Þar gengum við beint upp og voru fljótir að komast upp að hryggnum og hálf klifruðum síðustu metrana upp þrönga bratta skoru. Við gengum upp á hæsta toppinn og stoppuðum stutt og vorum fljótir aftur niður á slóðann þar fyrir neðan. Við settum nú stefnuna neðst í Gunnlaugsskarðið en þurftum að fækka fötum því það var orðið mjög heitt og nánast logn. Ég fór í mjög þunnan bol og finn mjög sjaldan fyrir því á Íslandi að hitinn sé þrúgandi. Hitinn var sennilega 16-18°C  og nánast logn þannig að það var ekki hægt að kvarta yfir veðrinu nema helst of miklum hita. Þegar við komum að læknum í Gunnlaugsskarði notuðum við tækifærið og bættum á okkur vatni og drukkum vel . Við gengum að bröttum hryggnum og komum að nokkuð áberandi slóða áður en við komum þangað.


Mynd 16. Útsýni til vesturs ofan af Kistufelli. Horft á lokakaflann.

   Í ferðinni höfðum við verið að ræða um þessa gönguleið og hvernig væri að kynna hana sem löng gönguleið fyrir almenning. Við vorum báðir sammála um að kaflinn frá Skálatindi niður á Miðmundadalshnjúk mundi draga úr flestum tennurnar því það er nokkuð erfiður kafli sem tók okkur rúmlega tvo tíma að klára. Þá fór ég að hugsa um að ef okkur tækist að klára gönguna á innan við 26 tímum þá mætti segja að það væri raunhæft að tala um að ganga þetta á sólarhring ef þessum útúrdúr væri sleppt. Þegar ég byrjaði að ganga upp hrygginn þá fór ég að hugsa um að klára þetta á tilsettum tíma og einnig þurfti ég að rasa svolítið út því ég jók hraðann í brattanum og hélt sama hraða alveg upp allan bratta kaflann þangað til ég kom að vörðu hrúgunni sem þar er. Ég var kominn vel á undan Bjarna sem hafði vit á að halda sama hraða og við höfðum áður verið á. Ég kastaði mæðinni og beið eftir honum og þegar hann kom héldum við strax áfram upp úr skarðinu. Við beygðum upp til hægri upp úr skarðinu og komust upp ár brúnina vel sunnan við snjóskaflinn fræga. Við vorum nokkuð fljótir fram á Kistufellið og stoppuðum hjá vörðunni sem þar er. Þar tók ég nokkrar myndir og við fengum okkur vel að drekka. Við fórum fram á brúnina og ég sýndi Bjarna hvar næsta stopp var. Það er Nípa sem var eins og lítil svört þúst nánast beint fyrir neðan okkur. Eftir á að hyggja þá skildum við pokana eftir tvistvar í ferðinni þegar við vorum að fara kafla þar sem við fórum fram og til baka aftur á sama stað. Við gerðum það ekki núna og því við hreinlega gleymdum því.  Við vorum nokkuð fljótir aftur niður úr skarðinu því slóðinn þarna er alltaf að verða betri og betri með árunum. Þegar við vorum komnir niður úr skarðinu stefndum við beint niður á við og brátt sáum við Nípu fyrir neðan okkur.


Mynd 17. Síðasta brekkan búin. Á toppi Kistufells.

   Þegar við vorum að verða komnir að Nípu þá fann ég allt í einu fyrir miklu máttleysi og óþægindum. Ég kannaðist við einkenninn sem eru mjög sennilega vegna lækkunar á blóðsykri og ég var að borga fyrir að hafa verið að æsa mig að óþörfu upp mesta brattan í Gunnlaugsskarði. Þegar við stóðum uppi á Nípu lagði ég til að við fengjum okkur aðeins að drekka og eitthvað með því. Eftir mat og drykk gengum af stað í áttina að  næsta toppi sem er Þverfell.  Við gengum upp á við og ætluðum að komast aftur yfir á slóðann sem við höfðum gengið eftir þegar við fórum á Rauðhól og Geitafell og þaðan rétt neðan við Stein og út á hrygginn þar sem Þverfellið er. Ég reyndi að harka að mér upp brekkurnar og lét á litlu bera þó svo að mér liði mjög illa. Ég vissi að þetta liði hjá og það gerði það furðanlega fljótt því þegar við vorum komnir aftur á slóðann upp að Steini efst í mýrinni þá var ég alveg búinn að jafna mig og farinn að auka hraðann aftur. Það er nauðsynlegt að fólk átti sig á þessum einkennum sem geta komið mjög skyndilega og maður hefur það á tilfinningunni að allt sé búið. Þá er bara að koma ofan í sig einhverri orku. Það getur stundum verið erfitt því með þessu kemur oft lystaleysi en þá er bara að pína ofan í sig orkuríkum mat.  Við beygðum út af stígnum þegar við komum upp á hrygginn og fórum að lækka okkur niður eftir hryggnum. Við vorum léttir í spori og sigurvissir því það var lítið eftir. Við komum brátt að smá hækkun upp á sjálft Þverfellið sem er flatur hóll efst á hryggnum. Ég tókum myndir en ég vildi brátt fara að komast að stað aftur því ég hafði augun á klukkunni. Við gengum síðan á ská niður bratta hlíðina í áttina að Búahömrum þar sem ég vissi af GPS punkti sem var staðsettur á lítilli hæð sunnan við hamrana. Sumir kaflar á þessari leið eru mjög brattir og þurftum við að fara varlega til að renna ekki. Við komumst brátt alla leið niður og ég tók upp GPS tækið og staðfesti punktinn og svo héldum af stað aftur í áttina að bílastæðinu við Mógilsá. Við gengum fyrir ofan hamrabelti og upp á lítinn hól sem er um það bil miðja vegu milli Búahamra og bílastæðisins. Þetta er Fálkaklettur og fögnuðum við vel því þetta var síðasti viðkomustaður áður en komið væri að leiðarlokum. Við gengum af stað og var hluti leiðarinnar nokkuð brattur kafli sem við þveruðum rétt áður en við komum yfir á gönguleiðina upp á Þverfellshornið. Ég komst á leiðina rétt fyrir ofan neðri brú rétt fyrir ofan bílastæðið og gekk léttur í bragði niður síðasta kafla leiðarinnar. Bjarni hafði tekið aðeins aðra leið allra síðasta kaflann og hafði tafist aðeins og var aðeins á eftir mér. Þegar ég kom alveg niður á bílastæðið í Mógilsá þá beið konan þar eftir mér með ískaldan bjór. Ég tók fegins hendi við bjórnum og hún bauð mig velkominn.


Mynd 18. Skálað í köldum bjór að leiðarlokum.

Ég ákvað að bíða eftir Bjarna með að drekka bjórinn. Ég var ótrúlega ferskur og léttur á mér síðustu metrana og var mjög hissa á að vera ekki þreyttari. Bjarni kom stuttu seinna og fékk einnig bjór og fögnuðum við vel og drukkum bjórinn sem bragðaðist óvenjulega vel eftir langa og stranga göngu. Ég fattaði allt í einu að ég hafði gleymt að slökkva á Strava sem sýndi núna 26 klukkutíma og þrjár mínútur en ég hafði náð þessu á rétt innan við 26 klukkutímana. Við vorum mjög ánægðir með þennan túr sem hafði gengið eins vel og hugsast getur. Aðal málið var að njóta ferðarinnar og við gerðum það svo sannarlega. Ég tel að betri ferðafélaga hafði ég ekki geta fengið. Bjarni stóð sig óaðfinnanlega og fór létt með þetta.

Hér að neðan eru þrjár myndir sem lýsa ferðinni:


 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir