Óbyggðahlaup nr. 5
laugardaginn 13. maí 2017
Leggjabrjótur frá Svartagili Þingvöllum niður í Botnsdal Hvalfirði.
 

Leggjabrjótur á hlaupum
í blíðskaparveðri
og frábærri frammistöðu !

Fimmta óbyggðahlaup Toppfara var um gönguleiðina frá Svartagili á Þingvöllum niður í Botnsdal Hvalfirði
en leiðin sú mælist 15,5 - 17,6 km löng eftir því hvar nákvæmlega er farið og hvaða tæki er að mæla...

Upphafllega átti þetta bara að vera óbyggðahlaup þar sem þjálfurum tækist vonandi að fylla einn 5 manna bíl og ferja bíla á hvorn stað... en svo datt okkur í hug að bjóða upp á rútu og að menn gætu farið þessa leið gangandi á eigin vegum þó þjálfarar færu hlaupandi... og viti menn viðbrögðin voru framar vonum... fljótlega var fullt í 20 manna rútu og því var pöntuð stærri rúta... og alls ætluðu fyrir ferð 26 manns að mæta... en svo enduðum við í 18 manns sem mættu niður í Botnsdal klukkan níu laugardaginn 13. maí 2017...

Utanvegahlaup eða óbyggðahlaup eins og við köllum okkar hlaup eru sérheimur út af fyrir sig með alls kyns útbúnaði til að auðvelda sér lífið... þjálfarar eru lítið fyrir græjur og hundskuðust til að mynda rétt fyrir þetta hlaup að fjárfesta í utanvegaskóm.. og sáu reyndar ekki eftir því, því það er greinilega munur að hlaupa í þeim og venjulegu götuskóm... grófgerðari botn sem kemur í veg fyrir að maður renni í brekkum bæði í lausamöl og bleytu...

Rósa mætti með góðar hlaupalegghlífar... en hingað til hafa þjálfarar bara notast við afklippt stroff af ónýtum sokkum
en það vill færast upp og ofan við skóinn og þá renna litlu steinarnir ofan í skóna og allt er fyrir bý...
svo hvað þetta varðar þá eru svona hlífar alveg að gera sig...

Feðgarnir Jóhann Ísfeld og Jónas Orri leystu málið með því að líma yfir og það dugði vel...

... svo það er oft hægt að bjarga málunum frekar en að kaupa endalaust græjur
þó þær eiga stundum alveg rétt á sér sbr. ofangreint...

Keyrt var úr Reykjavík kl. 8:00 yfir í Botnsdal þar sem rúta frá Rútubílum beið okkar og keyrði upp á Þingvelli... þar sem fyrst var farið hefðbundnu leiðina norðan megin að ánni... en þar fundum við ekki góðan stað til að stikla yfir... svo við náðum að fá rútuna til að keyra til baka og fara yfir ána neðar og þaðan náðum við að leggja af stað í þurrum skóm :-)

Alls mættir 18 manns og þar af nokkrir gestir:

Jónas Orri, Karen Rut, Kristín H. gestur úr Laugavegshópi Sigga P. og Torfa, Njóla, Rósa, Jóhann Ísfeld, Palli gestur úr Skokkhópi Fjölnis, Hildur Ósk gestur og systir Olgu, Þuríður Ágústa., gestur og hin systir Olgu, Örn, Svavar, Olga Sig., Ólafur Vignir, Guðmundur Jón. Neðri: Ingi, Jón Tryggvi, Björn Matt. og Bára.

Hundarnir Batman, Bónó og Moli fóru og með... og það hlaupandi allan tímann...

Guðmundur rútubílstjóri og afastrákurinn hans, hann Emil sem veit allt um bíla
voru sérlega hjálpsamir og redduðu málunum komu okkur yfir ána :-)

Þeir sem ætluðu að hlaupa voru átta manns... þar af fimm vanir hlauparar sem farið hafa Laugaveginn og álíka vegalengdir og svo Karen Rut sem ætlaði á eigin vegum á eftir hröðu hlaupurunum og svo feðgarnir Jóhann og Jónas Mont Blanc farar sem eru ekki að æfa hlaup en enduðu engu að síður á að halda í við skottið á hlaupurunum sem var ansi vel af sér vikið...

Rösku göngumennirnir voru tíu manns og ansi flottur hópur...

Olga Sig., Hildur Ósk, Björn Matt., Njóla, Jón Tryggvi, Guðmundur Jón, Þuríður Ágústa, Svavar, Ingi og Ólafur Vignir.

Lagt var loksins... af stað kl. 10:16 og hlaupararnir gáfu strax í á meðan gönguhópnum datt ekki í hug annað
en að njóta hvers skrefs í rólegheitunum... þar til þeim hljóp líka kapp í kinn...

Byrjað var í 163 m hæð og endað í 52 m... en farið var upp í 496 m hæð svo hækkun leiðarinnar varð alls 489 m
og lækkunin alls 590 m...  svo af tvennu er betra að fara í þessa átt en í hina...

Leiðin sjálf er mjög fjölbreytt hvað varðar undirlag og landslag...
fyrst á akstursslóða en honum sleppir fljótlega ofar á heiðunum...

Sólin kom og fór þennan dag og við fengum öll veður... að mestu skýjað með sólarglætu... éljagang á smá kafla og rigningardropa í lokin... ekta sautjánda júní veður... en það mikilvægasta af öllu var lognið... og hlýindin... það var ekki annað hægt en þakka fyrir frábært veður sem var framar öllum vonum miðað við spána þar sem úrkomubelti átti að hanga í Botnssúlunum og austanstrekkingur að liggja meðfram fjöllunum upp á 6 m/sek sem getur hæglega með úrkomu orðið að kalsaveðri...

Nokkrar lækjarsprænur eru á leiðinni en aldrei farartálmi og mjög skemmtilegt að stikla yfir þær...

... en þeirra vegna er hægt að leyfa sér að sleppa því að hlaupa með vatn þessa leið
því af nógu er að taka alla leiðína í lófann... engu að síður er mikilvægt að vera með orku pokameð sér og jafnvel smá sjúkrabúnað, síma, varaföt... og því er nauðsynlegt að koma sér upp léttum hlaupabakpoka eins og flestir voru með...

Nokkrir fossar urðu á vegi okkar þennan dag...
og það var sérstakt að upplifa leiðina á þennan hátt... hratt í hnotskurn í einni hlaupandi bunu...

Þegar veginum sleppir tekur við mjög skemmtilegur slóði meðfram ánni sem kemur aftur inn á vegaslóða að hluta...

Við héldum hópinn hlaupararnir fimm en feðgarnir Jóhann og Jónas voru skammt á eftir og Karen Rut enn aftar...
og við enduðum á að bíða aðeins eftir feðgunum þar sem þeir voru svo stutt á eftir okkur og halda svo hópinn alla leiðina :-)

Snjóskaflar ekki á leiðinni sjálfri fyrri hluta leiðarinna þó þeir lægju í hvilftum og giljum...

Óskaplega falleg leið en myndirnar fanga hana ekki nægilega því miður...

Búrfellið í Þingvallasveit varðaði leiðina í suðri...
en þarna fórum við upp þegar Toppfaraferðin var um Leggjabrjót á sínum tíma 10. október 2009
eins og sjá má á þesari mynd þar sem komið er niður vesturhlíðar Búrfellsins:

... í hávaðaroki uppi á tindinum en frábærri upplifun engu að síður sem endaði í 19,7 km á 9:42 klst.
og var þessi útfærsla ekta Toppfaraútfærsla þar sem okkur fannst ómögulegt að það væri ekkert fjall með í göngunni :-)

Töfrandi var hún leiðin okkar þennan dag...

... yfir frussandi lækina...

... með alls kyns hoppum...

... upp með fossum í ám sem sumar komu undan snjósköflunum ofar...

Talsverðar hækkanir og lækkanir samtals á leiðinni svo stundum gengum við bara rösklega...

Sjá ána umlukta sköflum á beggja vegu... landslagið var veisla á leiðinni ef maður hafði vit á að njóta þess...

Hér kemur áin undan snjónum... er hægt að hlaupa í flottara landslagi ?

Litið til baka með Búrfellið í baksýn...

Hundarnir hlaupa langtum lengra en við í þessum ferðum, en hér hleypur Moli á eftir rjúpu... yfir skaflinn með ána ólgandi undir honum... og aftur yfir með okkur horfandi áhyggjufull á hvort hann færi nokkuð niður í ána... en nei, hann er svo léttur greyið :-)

Efst á hálsinum kom skyndilega haglél sem var mikil svipting í veðri eftir sól og blíðu framan af...
einhverjir fóru aftur í jakkann á þessum kafla eftir að hafa hlaupið með hann um mittið...

... en svo kom sólini strax aftur og blíðan var þar með aftur við völd...

Hvílíkt frelsi að hlaupa svona um skaflana !
Þetta var algert æði :-)

Niður að Sandvatni komum við aftur en á þessum kafla fórum við líklega lengri útgáfuna þökk sé Báru sem þrjóskaðist við að fylgja slóðanum en ekki vörðunum eins og strákarnir vildu, sem skýrir líklega mismunandi mældar vegalengdir hjá öllum þennan dag... það munar um hverja sveigju og beygju út af leið og lexían hér að það eru til fleiri en einn slóði yfir hæsta hluta Leggjabrjóts en mikilvægast að muna að fara norðaustan megin við vatnið... en Karen Rut sem hljóp ein... en það eitt og sér er aðdáunarvert á þessum slóðum... lenti einmitt hinum megin við vatnið... en var svo heppin að sjá gönguhópinn koma og gat sameinast þeim... en hún hefði auðveldlega getað afvegaleiðst niður í Brynjudal... en svo gaf hún í og fór á sínum hraða alla leiðina í Botn... vel gert hjá henni :-)

Á vinstri hönd var það Búrfellið en á þeirri hægri gnæfðu Botnssúlurnar yfir okkur...
hér er vígalegt vesturhornið á Syðstu Súlu farið að taka á sig tignarlega mynd...

Aftur stór skafl og gott að skokka yfir hann í mýktinni...

... en í sköflunum hverfur slóðinn... en við fundum hann alltaf aftur...

Mosinn að verða fallegur með komandi sumrinu sem draup af hverju vaknandi strái
þó enn eymdi af vetri þarna upp frá...

Með Syðstu Súlu í baksýn... Örn, Palli, Rósa, Kristín, Jóhann og Jónas
og hundarnir voru beðnir um að vera með á mynd gjöra svo vel :-)
Bára tók mynd.

Sandvatnið skartaði Himbrimapari sem réð þarna ríkkjum...
fengum ágætis fuglafróðleik frá Jóhanni veiðimanni sem þarna hefur gengið um með byssuna
ásamt Jónasi syni sínum...

Eftir vatnið lá leiðin niður í mót... og þá blasti Hvalfjörðurinn við okkur... alltaf fögur sýn og eins og loforð um sumar og blíðu ef maður bara heldur áfram för niður í mót úr harðneskjunni ofar...

Þessi leið frá Þingvöllum niður í Botnsdal er svolítið eins og að fara úr harðneskju hálendisins
niður í mýkt láglendisins...

Hér var sannarlega notið þess að skokka létt niður í mót og veðrið lék við okkur...
magnað að feðgarnir skyldu halda í við okkur hlauparana en við vildum endilega halda hópinn
og vorum ekkert að stressa okkur enda þjálfari í endalausum myndatökum
og allir í landslagsskoðunum hvort sem er :-)

Brátt tóku fleiri litir völdin... hlýrri litir og mýkri áferð á landinu...

Við vorum komin að Hvalskarðsánni sem er ægifagurt fyrirbæri eitt og sér...
og þess virði að rekja sig upp eftir henni alla leið að Hvalvatni og til baka...
já, gerum það á þriðjudagskvöldi einhvern tíma !

Fjöldi fossa í síbreytilegu gljúfrinu með klettana slútandi...

Já, hópmynd hér ekki spurning... Vestursúla í baksýn og nokkrir fossar Hvalskarðsárinnar...

Síðasti hluti leiðarinnar niður í Botn er grýttur í slóðanum alla leið niður á grasið...

.... og við nutum þess að taka þetta létt alla leið í bílana...

... með ilminn af sumrinu í vitunum hver á sínum hraða...

Alls 17,6 km á 2:44 klst. upp í 496 m hæð með alls hækkun upp á 489 m
og lækkun alls um 590 m miðað við 163 m upphafshæð og 52 m endahæð...

Sjá leiðina á korti og í þversniði...

Ötulustu Toppfarahundarnir í vetur eru orðnir ansi góðir vinir eftir alls kyns svaðilfarir um brött fjöll í hálku, frosti, vindi og byl... og því standa þeir saman og leyfa hvor öðrum að hoppa upp á teppið sitt í bílnum eins og Batman leyfði Mola að gera sisvona
af því það fór akkúrat að rigna þegar við lentum í Botni og Moli flúði hana inn í opinn bíl þjálfara :-)

Karen Rut kom svo ekki löngu síðar á tímanum x og þrír fyrstu göngumennirnir voru Guðmundur Jón, Ingi og Njóla
á tímanum x og síðustu menn voru 4:14 klst. sem er ótrúlega flottur tími
og ekki eins mikill munur á hlaupurum og göngumönnum eins og við áttum von á.

Meiriháttar dagur og sætur sigur fyrir alla... gerum þetta hér með á öllum gönguleiðunum sem óbyggðahlaupin taka fyrir
...að fá rútu svo menn geti valið hvort þeir fari hlaupandi eða gangandi hver á sínum hraða, ekki spurning ! :-)
 


 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir