Óbyggðahlaup nr. 4
laugardaginn 7. apríl 2017
frá Ásvallalaug um Ástjörn utan í Ásfjalli upp Vatnshlíð kringum Hvaleyrarvatn
meðfram Stórhöfða að Kaldársesli og til baka
 

Fjórða óbyggðahlaupið...
var frá Ásvallalaug um Ástjörn
utan í Ásfjalli upp á Vatnshlíð
kringum Hvaleyrarvatn meðfram Stórhöfða
með hraunbrúnum og klöppum að Kaldárseli

Óbyggðahlaup aprílmánaðar var um gullfallegar sveitirnar í Hafnarfirði laugardaginn 7. apríl
í mun betra veðri en spáin sagði til um... logni, rigningarúða stöku sinnum og um 8 stiga hita...

Lagt var af stað frá Ásvallalauginni kl. 9:30 og hlaupið meðfram Ástjörninni og utan í Ásfjallinu...

... en í stað þess að klára alla leið upp á Ásfjallið var farið um stígana ofarlega sunnan í því
og stefnt á Vatnshlíðina sem er austan megin við Ásfjallið...

Þar mættum við Halldóru Gyðu fyrrum Toppfara og afrekskonu í hlaupum og ýmsum jaðaríþróttum þeim tengdum
en hún var að leiða hóp Náttúruhlaupa sem hófu vornámskeiðin sín þennan laugardag...
www.natturuhlaup.is
en í þeim hópi hittum við og fyrir Heiðu fyrrum Hádegisskokkara (og Toppfara) sem mætti í óbyggðahlaupið í mars um Geldinganesið... og Elínu Páls hjúkrunarfræðing sem er að koma í fjallgönguklúbbinn þennan mánuðinn...

Mættir voru auk þjálfara Fjölnishlaupakonurnar Signý og Rósa Toppfari en báðar eru afrekskonur í hlaupum
og hafa oft verið öðrum dýrmætar fyrirmyndir á því sviði svo það var heiður að fá að hlaupa með þeim...

Frá Vatnshlíðinni var hlaupið góðan stíg niður að Hvaleyrarvatni en þar sést best hvernig leiðin er í heild...

Þarna söng Hrossagaukurinn hástöfum og bræddi hjarta þjálfarans sem finnst vorið koma með þeim söng
miklu fremur en söngur lóunnar eins og oft er miðað við... hvílík sæla að heyra í honum í kyrrðinni sem þarna ríkti...

https://www.youtube.com/watch?v=ct2wXOpJtmA

Hvaleyrarvatnið var svo hringað austan megin og enn sem komið var, var stígurinn mjög góður alla þessa leið...

Þetta er sama leið og Haukahlaupið sem er á dagskrá á annan í hvítasunnu
og vert að skoða það hlaup þeir sem vilja ná sér í magnað utanvegakeppnishlaup...
https://www.hvitasunnuhlaup.is/

Frá vesturenda Hvaleyrarvatns er beygt til suðurs með malarveginum í átt að Stórhöfða
og farið svo inn í skóginn um Stórhöfðastíg en hann er merktur með skilti til hægri frá malarveginum...

Fínn stsígur alla leiðina kringum Stórhöfða og magnað að fara meðfram hraunbreiðunni þennan kafla...

Sunnan Stórhöfða er góð víðátta og brakandi blíða á sólríkum degi með fjallasýnina á Reykjanesi í fanginu...

... og í stsð þess að beygja Haukahlaups-stíginn til vinstri inn að Stórhöfða og upp á hann
og til baka eins og í Hvítasunnuhlaupinu þá fórum við stíginn til suðausturs í átt að Kaldárseli...
en á þessum tímapunkti vorum við búin með um 7 km...

Leiðin er mjög góð lengstum þennan kaflann...

... með heillandi óbyggðablæ meðfram hraunröndinni... bleytan mun minni en við héldum og fínasta færi...

Þegar farið er upp á hraunið verður undirlagið erfiðara og hér þarf að gæta þess að reka sig ekki upp undir
og hér reynir á að vera í góðum skóm þar sem venjulegir hlaupaskór (eins og þjálfarar voru í)
skemmast fljótt í þessu undirlagi og því betra að vera í utanvegaskóm...

En töfrarnir... og víðáttan... og friðurinn... og náttúran.. og frelsið.. á þessum kafla... maður minn...

Upp úr hrauninu er svo farið á klappirnar þar sem Kaldársel blasir við
og þá er um kílómetri eftir að húsinu sjálfu í malbikuðu færi af náttúrunnar hendi...

... þar sem farið er meðfram bæjarlæk Kaldárselsins...

Mjög gaman að koma bakdyramegin að Kaldárseli og uppgötva þessa útivistarparadís sem þarna er frá öðru sjónarhorni en bílastæðisins og Helgafellsgönguleiðarinnar sem maður hefur eingöngu komið á í öll þessi ár...

Í Kaldárseli hvíldum við okkur aðeins, fengum okkur að drekka úr læknum eða brúsa þeir sem voru með
en það er hægt að sleppa drykkjarbrúsum á þessari leið þar sem nóg vatn er í læknum og við Hvaleyrarvatnið...

Hópmynd áður en snúið var við... en nú mældum við þetta 10,58 km
en þeir voru tæplega 11 km í könnunarleiðangri þjálfara fyrir viku síðan nákvæmlega sömu leið...

Við héldum sömu leið til baka og nú haltraði Signý aðeins þar sem hún var farin að fá verki í hásinina síðasta kaflann að Kaldárseli og verkirnir versnuðu við hvíldina í selinu... hún fékk eina Panodil hjá Rósu og varð betri en átti samt erfitt með að hlaupa á fullum hraða og því var bakaleiðin hægari en út eftir sem var fínt því við vorum að njóta svo mikið hvort sem er...

Hraunið á þessari leið er töfraheimur út af fyrir sig og gefur einstaka orku...

Alla þessa leið eru fínir og vel troðnir stígar nema hraunkaflann að hluta
áður en komið er að hraunhellunum við Kaldársel...

Og eins og alltaf þegar hlaupið er langt... þvín langt hlaup á laugardegi er heilt ferðalag út af fyrir sig...
þá hittir maður fyrir alls kyns áhugavert fólk...
hér tvo fjallahjólara sem geisluðu af gleði enda að njóta lífsins í botn eins og við...

Já, vá, þeir voru skítugir upp á bringu og hjólin þeirra líka...

Sjá sætið, gírana og pedalana... þeim fannst þetta æði... og ætluðu Haukahringinn upp á Stórhöfða og til baka...
... mjög gaman að spjalla við þá...

Við héldum áfram kringum Stórhöfða og sólin braust næstum því fram úr skýjunum
og fuglarnir sungu og það var yndislegt veður...

Þar sem Signý var með auma hásin fórum við norðvesturhornið kringum Hvaleyrarvatnið í bakaleiðinni
frekar en að fara sömu leið hringinn í kring sem stytti þetta aðeins...

... og hún lét sig hafa það að fara brekkuna upp á Vatnshlíðina frekar en að stytta meðfram hlíðinni
enda vissum við ekki alveg hvernig sú leið er, hvort þar sé stígur eða bara malarvegurinn
þar sem bílarnir koma sem leggja vestan megin við vatnið...

En þaðan skokkuðum við létt niður að Ásfjalli og Ástjörn og hér fór rigningin að úða á okkur létt til að byrja með...
en átti eftir að breytast í alvöru rigningu þegar við vorum að klára og áfram þann dag svo við vorum einstaklega heppin með veður... nema það sé staðreynd að maður tekur hreinlega ekkert eftir veðrinu meðan maður hleypur... það er nefnilega eiginlega alltaf betra veður þegar maður er kominnn af stað hlaupandi en áhorfist í upphafi... já maður kaupir það alveg því oftar en ekki "versnar" veðrið um leið og hlaupatúrnum er lokið eins og þennan dag... erfitt að segja...

Síðasti kaflinn var því farinn í úðandi bleytu sem við tókum varla eftir, sunnan Ástjarnarninnar, sömu leið og við fórum um morguninn... en ef menn fara norðan megin og klára hringinn kringun Ástjörnina
þá ætti þessi hringur að ná milli 21 og 22 km...

Hraunið í Vallarhverfinu er forréttindahllutur sem íbúar þess kunna vonandi allir að meta...

Alls 21 km á 2:38 klst. með nokkrum stoppum og myndatökum
upp í 118 m með alls hækkun upp á 224 miðað við 32 m upphafshæð og lægstu hæð 18 m.
Hraðinn því 7:33 mín á kílómetrann eða 7,94 km á klukkustund
sem þýðir fínn hraði fyrir nánast alla hlaupara sem vilja koma með í næsta óbyggðahlaup
... og fínn hraði ef við skyldum fara 80 km kringum Mont Blanc einn daginn :-)
... já, svona fer hugurinn á flug þegar hlaupið er um víðátturnar
og orka náttúrunnar fer óskert beint í æðakerfið :-)

Heiti potturinn í Ásvallalaug er virkilega góður... þar sem hægt að sitja og hvílast með háls og brjóstkassann upp úr og engin þörf á að standa hálfpartinn eins og alltaf þarf í mörgum pottum... m. a. í Grafarvoginum eins og við dýrkum þá laug samt...
dásamleg hvíld í þessum potti... og þarna rann rigningin stríðum straumum...
og þá var gott að vera búinn með hlaup dagsins og geta farið inn í helgina með góða samvisku fullur af orku
eftir útiveru sem er engu lík og gefur svo margfalt meira en langur hlaupatúr á malbiki innan borgarinnar...

Leggjabrjótur 18 km er óbyggðahlaup maí-mánaðar og alls kyns spennandi leiðir næstu mánuði og ár...
við ætlum nefnilega að bjóða upp á þetta einu sinni í mánuði næstu árin þó það komi fáir eða engir...

Hvílík forréttindi að fá að upplifa svona laugardagsmorgun
og hafa heilsu og getu til þess arna :-)

Takk fyrir okkur stelpur !

Óbyggðahlaupin öll frá upphafi hér:

 


 



Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir