Vetrarfjallamennska
*Broddatækni *Ísaxarbremsa *Jöklalínuganga
*Leiðarval *Sprungubjörgun *Snjóakkeri

Tólf Toppfarar fengu kennslu í grunnatriðum vetrarfjallamennsku þriðjudaginn 11. mars 2014 í Bláfjöllum á meðan þeir sem áður voru búnir að fara eða komust ekki tóku sína hefðbundnu þriðjudagsfjallgöngu á Helgafell í Hafnarfirði í umsjá hafnfirsku eðal-Toppfara-kvennanna Súsönnu, Svölu og Vallýjar...

Jón Heiðar Andrésson var leiðbeinandi námskeiðsins... kom ferskur úr áframhaldandi námi sínu í Kanada þar sem hann er að ná sér í alþjóðleg réttindi sem fjallaleiðsögumaður... en hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki í vetur sem heitir Asgard Beyond og mun leiðsegja okkur um nokkra tinda í Öræfajökli í vor eins og frægt er orðið: https://www.facebook.com/asgardbeyond

Veðrið var ekki sérlega gott... vindur og úrkoma... og því hættum við við að fara upp hlíðarnar á Fram-skíðasvæðinu... eftir spekúlasjónir með leiðarval úr frá snjóflóðahættu og fengum þessa líka fínu aðstöðu í Drottningargili? þar sem góð harðfennisbrekka beið okkar fyrir ísaxarbremsuna, svelluð brekka hinum megin fyrir broddagöngu... og góðar snjóhengjur fyrir sprungubjörgunina... gátum ekki verið heppnari... og fengum svo í kaupbæti upplýst svæðið þegar tók að rökkva þar sem ljósin af skíðasvæðinu í Bláfjöllum lýstu upp allt okkar svæði eins og svið í bleikri birtu... sem við áttuðum okkar á hversu mikil var þegar þeir slökktu ljósin um hálftíuleytið þegar við vorum nánast búin...

Fyrst var farið í belti og línur og æfð uppröðun og hnýting við göngu í línu á jökli...
og gengið af stað með reglum jöklalínugöngunnar í vangaveltum um leiðarval út frá snjóflóðahættu...


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

Svo var farið í brodda og æfð broddaganga í halla og hvernig bera skal sig að...

Sjá hvernig gengið er upp brekku með broddana á tánni inn í brekkuna á hægri fæti og vinstri fót í 45° eins og allir gera á myndinni og svo skal skipta til að hvíla... sama gildir í hliðarhalla en þá fer neðri fótur í 45° halla og efri fótur beint fram.


Frábær broddahópmynd fengin að láni frá Siggu Sig

Helstu mistökin eru þau að fara of seint í broddana og of seint úr þeim... sérstaklega þegar hálkubroddarnir hafa bæst við og við þurfum að muna að skipta þegar þörf er á sbr. á Snjófjalli, Svartafjalli og Skyrtunnu í maí í fyrra... sjá hér umræðu úr búnaðarlistanum um hálkubrodda vs. jöklabrodda:

Hálkubroddar eða jöklabroddar:

Heitar umræður sköpuðumst veturinn 2011 - 2012 á fésbókinni eftir andlát ferðamanns á Sólheimajökli í nóvember 2011 þar sem hann lést vegna ofkælingar eftir fall ofan í dæld á hálkugormum einum saman (málmgormar á gúmmíteygju eins og hlauparar nota og við prófuðu að nota fyrst áður en hálku(keðju)broddarnir komu) en hann gat ekki komið sér upp úr dældinni aftur svona vanbúinn á jökli auk þess sem leitað var á röngu svæði. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/11/14/lest_af_voldum_ofkaelingar/ 
Margir þaulvanir fjallamenn deildu þá um sívaxandi vinsældir hálkugorma og síðar hálkubrodda eða microspikes sem náð hafa vaxandi vinsældum samfara mikilli aukningu fjallgöngufólks og gönguhópa allt árið um kring og vildu sumir meina að þeir ættu alfarið ekki að sjást á fjöllum á meðan aðrir bentu á notagildi þeirra þó takmarkað væri og umræðan fór líka inn á ísaxarnotkun o.fl. sem var sérlega gagnlegt :-)

Í þessum umræðum bentu þeir sem á annað borð ganga mikið á fjöll allt árið um kring og ekki síður að vetri en sumri, ákveðnir á að hálkubroddarnir gagnast vel á léttari leiðum og þar sem hálka er á leiðinni til að byrja með um léttari brekkur, kringum grjót, í mjúkum snjó o.fl. en að jöklabroddar verða svo að vera komnir á skóna þegar komið er í langar, brattar og hálar brekkur eða svipaða varasama staði og reynslan ein kenndi mönnum þessa ákvörðun. Fyrir þá sem fara sjaldan á fjall að vetri til og hafa eingöngu vanist jöklabroddum (hálkubroddarnir koma ekki fram fyrr en um 2009 - 2010 eða svo) er eðlilegt að vilja eingöngu notast við jöklabrodda eins og þeir eru vanir, en mjög leitt að okkar mati ef menn snúast alfarið gegn hálkubroddunum, því eins og nokkrir fjallamenn sögðu sem raunverulega eru að ganga á fjöll jafnvel vikulega eða oftar allan veturinn eins og þessi fjallgönguklúbbur, þá hefðu hálkubroddarnir fljótt sannað gildi sitt á léttari leiðum eða á einfaldari hluta fjallsins þar sem hálka er til trafala jafnvel á láglendi, en fara svo í jöklabroddana þegar brekkurnar eru orðnar langar, hálar og brattar eða að öðru leyti varasamar.

Þarna reynir á að geyma ekki of lengi að fara í jöklabroddana sem eru algengustu mistökin almennt varðandi jöklabroddana eins og Jón Andrés sagði, en NB hvort sem hálkubroddar eru með í för eða ekki, eins og margir þekkja af eigin reynslu (eru að renna til lengi vel á hálli leið og jafnvel verið að höggva spor frekar en fara í brodda til að "spara broddatímann"... m. a. af því að mönnum hefur fundist slysahættan aukast þegar menn sleppa stöfunum og þurfa að nota ísexina). En einmitt af þeirri ástæðu... að það getur verið orkufrekt að ganga á jöklabroddum klukkustundum saman í halla og grjóti... þeir auka líkur á blöðrumyndun og reyna verulega á ökkla... flækjast gjarnan í skálmum og jarðlendi... með tilheyrandi aukinni slysahættu af öllu ofangreindu... er einmitt gott að hafa hálkubroddana meðferðis til að spara orku og ganga öruggur um svellaða kafla sem eru minna brattir og ekki varasamir og hafa vit á að fara svo í jöklabroddana þegar leiðin er orðin brött eða varasöm.

Reynslan er mikilvægust í þessu að okkar mati, með reynslunni þróa menn með sér skýrari mörk um hvenær sleppa skal hálkubroddunum og fara í jöklabroddana - rétt eins og menn þurfa að gæta þess að fara nógu snemma í jöklabroddana þegar þeir eru það eina meðferðis... og sleppa þá stöfunum fyrir ísexina án undantekningar. Við getum því miður ekki tekið undir það að hálkubroddar eigi bókstaflega aldrei rétt á sér í fjalllendi, þar reynir einfaldlega á reynslu og dómgreind viðkomandi í hvert sinn. Málefnaleg og sanngjörn umræða um hálkubroddana er nauðsynleg og alltaf hollt að velta öllum sjónarhornum fyrir sér. Því má velta fyrir sér hvort fræðileg fjallamennska á Íslandi þurfi að skoða raunverulega gagnsemi hálkubrodda af málefnalegri alvöru en hingað til hefur verið og gefa frekar skýrari línur með notkun þeirra í samhengi við jöklabrodda þar sem hálkubroddar eru án efa góðir til síns brúks, svo langt sem þeir ná og ekki málefnalegt að okkar mati að útiloka þá með öllu við allar göngur í fjalllendi að vetri til :-)

Hér vantar fleiri punkta sem ekki verður farið í hér eins og gagnsemi hálkubrodda til að þjálfa tilfinningu fyrir jöklabroddatækni almennt á léttum leiðum sem er jákvætt að okkar mati, spurningar um raunverulega hæfni í ísaxarbremsu þegar á reynir og hvernig megi bæta okkur þar, hvort nota eigi ísexi alltaf með hálkubroddum eða ekki, mögulega aukna slysahættu við að sleppa göngustöfum sem menn eru mjög vanir að hafa til að halda jafnvægi (sem reynir verulega á í miklum halla) og vera kominn með ísexi í hönd sem menn eru ekki eins vanir að hafa, en er nauðsynlegt og á absolut að vera með jöklabroddunum og ætti þá kannski að æfa betur með meiri notkun o. m. fl.


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

Að ganga á broddum:

*Ganga aðeins gleitt með smá bil milli fóta til að flækja ekki broddunum hvor í annan eða flækja broddunum í skálmarnar og detta um sjálfan sig af þeim sökum eins og margir hafa reynt (sbr. rifnar skálmar á hlífðarbuxum v/broddanna). Chaplin eða skíðastökkvarar hér fyrirmyndin.

*Lyfta fótum vel upp til að reka ekki broddana í hjarnið og detta fram fyrir sig. Með broddunum erum við komin með "lengri fætur" og auðvelt að gleyma sér þegar líður á daginn og menn orðnir þreyttir eða kærulausir. Líkaminn vanur ákveðinni vegalengd sem hann þarf að lyfta fætinum upp og stíga næsta skref (flókin taugalífeðlisfræðileg athöfn) en þegar maður er kominn á brodda þarf maður að muna að lyfta hærra upp til að reka sig ekki niður undir.

*Stíga jafnt á yfirborðið svo broddarnir nái allir að grípa taki í hjarnið en ekki stíga á ská (eins og maður gerir í skóm og hliðarhalla þegar maður stingur jarkanum á skónum inn í brekkuna til að mynda syllu í jarðveginn - alls ekki gera þetta ef maður er á broddum heldur nýta alla broddana til að grípa í hjarnið með því að ganga "flötum fótum").

*Stíga föstum skrefum niður í snjóinn en ekki léttum svo broddarnir nái að grípa vel í snjóinn (ef hált færi).

*Taka stutt skref til að hafa betra vald á hverju skrefi.

*Ganga með framhlið manns vísandi niður brekkuna ef undirlagið er mjög frosið, bratt og hált til að ná sem jöfnustu gripi - en ekki "ganga á hlið" eins og maður gerir vanalega á göngu í hliðarhalla. Á við í mikilli hálku, svelli eins og t.d. á
Kerhólakambi í desember 2007 þar sem við fórum vel yfir þetta og æfðum ofl. ferðum.

*Þegar hálkan er minni en samt til staðar skal ganga í hliðarhalla með því að snúa "efri" fæti, þ.e. fætinum sem er ofar í brekkunni í göngustefnu en "neðri" fæti um 45° niður í móti til að nýta betur yfirborð broddana og hafa meira vald/öryggi á göngunni. Með því að ganga zikkzakk upp brekku er gott að hvíla kálfana með þessu þar sem maður beitir efri og neðri fæti misjafnt eftir því hvernig maður snýr mót hallandi brekkunni.

Eftir broddagönguna var farið í notkun á ísexi...

Að ganga með ísexi:

*Ef farið er í brodda skal alltaf taka ísexi með í hönd líka því þá er maður kominn í hálkufæri þar sem nauðsynlegt er að geta stöðvað sig með ísaxarbremsu.

*Halda skal í ísexina með breiðara skaftið fram og beittara skaftið snýr aftur (oddurinn) og venja sig á að halda alltaf á henni svona þar sem viðbragðið til ísaxarbremsu liggur beinast við í þessari stöðu.

*Ef gengið er í hliðarhalla skal ísexin ávalt vera í þeirri hendi sem snýr að brekkunni til þess að viðbragðið ef maður dettur sé einfaldara við að grípa til ísaxarbremsu.

*Sé gengið niður brekku getur verið gott að styðja ísexinni aftan við sig til að hafa stuðning/hald.

Og þá var komið að verklegum æfingum í ísaxarbremsu sem aldrei er farið nógu oft í...


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

...og verðum að skerpa á þegar færi gefst í göngunum okkar fram á vor....


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

Fengum þessa fínu hjarnbrekku með góðan snjó neðar og menn gátu valið mismikla hörku á snjónum og vegalengd eftir smekk:

Ísaxarbremsa:

*Ísaxarbremsu er ekki hægt að lýsa - hana verður einfaldlega að æfa verklega!

*Með því að halda alltaf rétt á exinni er maður viðbúinn eins og hægt er að grípa til hennar.

*Mikilvægt að halda henni sem næst brjóstkassanum þegar bremsunni er beitt og missa hana ekki of langt ofan við sig til að geta beitt líkamsþunganum á ísexina - lítið hald í henni ef maður er kominn lengst fyrir neðan exina sjálfa.

*Hinn hlutinn af líkamsþyngdinni á að fara á hnén og lítið/ekkert annað af líkamanum að snerta jörðina - til að láta líkamsþungann liggja á exinni annars vegar og hnjánum hins vegar en þetta getur skipt sköpum upp á að bremsan virki ef hjarnið tekur illa við.

*Broddarnir mega ALDREI snerta jörðina ef maður rennur af stað. Þetta er mikilvægasta viðbragðið því ef broddarnir rekast í hjarnið á hraðferð rennandi niður kastast menn til og fara í loftköstum niður án þess að geta nokkuð stjórnað sér og beitt exinni og geta slasast illa við það - en ekki síður við það að fóturinn mun höggvast móti mótstöðunni þegar broddarnir fara í hjarnið og ökklar eða aðrir hlutar fótar geta brotnað illa.

*Menn þurfa að æfa vel ísaxarbremsu, hún verður þeim eingöngu töm sem æfir hana oft og reglulega við allar aðstæður.

*Nauðsynlegt er að vera jafnvígur á hægri og vinstri hendi og æfa bremsuna á báðum þannig að hún sé manni töm beggja vegna og æfa fall með höfuð niður í móti á maganum og bakinu, fall frá hlið beggja vegna en ekki eingöngu með falli niður í móti á afturendanum eins og einfaldast er að gera.

*Gott er að fara alltaf yfir ísaxarbremsu í hvert skipti sem farið er á brodda og hún tekin í hönd ef menn gera það sjaldan á hverju ári og fyrir þá sem fara reglulega á brodda með ísexi að æfa sig í huganum á göngunni, taka hana í viðbragðsstöðuna önnur hendi á efra skafti og hin á neðra skafti og ísexin ber við brjóstkassa.

*Þegar ísaxarbremsa er æfð er öruggast að vera ekki á broddunum til að auka ekki slysahættuna og velja öruggt æfingasvæði, þ. e. svæði þar sem menn stöðvast sjálfkrafa neðar og ekkert tekur við annað en snjór, hvorki grjót, möl, gljúfur né annað.


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

Hér fer Soffía Rósa með höfuðið á undan og á maganum...


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

Ekki allra að láta sig hafa það með höfuðið á undan...

... en eftir því sem menn æfa oftar ísaxarbremsu því hugrakkari verða þeir...

... því reynslan kennir manni að hún grípur ótrúlega vel í

og það er mikilvægt að æfa sveiflurnar í allar áttir frá öllum hliðum
til að ná góðu höggi í hjarnið...

Guðmundur hér á góðri ferð en hann er með ólofthræddustu Toppförunum...

Hópmynd í brekkunni með broddana upp
...eins og regla númer eitt í ísaxarbremsu segir...

Bára, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Lilja H., Doddi, Njóla, Sigga Sig., Soffía Rósa, Ólafur Bj., Arna, Njáll og Örn
en Jón Heiðar leiðbeinandi tók mynd...

... og svo eina hliðarmynd af því það var farið að rökkva... með Jóni Heiðari lengst í fjarska... þetta var aðeins niður í móti og kom mönnum vel í stöðuna fyrir ísaxarbremsuæfingu á maganum með höfuðið á undan :-)

Erfiðasta æfingin var svo ísaxarbremsa niður brekkuna á bakinu með höfuðið á undan
og Jón Heiðar tók smá sýnikennslu á því eins og hinum æfingunum...

Þarna kominn með ísexina í hjarnið áður en fætur fara svo niður mót þyngdaraflinu...

Jöklasprungur:

Eftir góðar rennur niður brekkuna með ísexinni var farið yfir legu jöklasprungna og hvernig togsprungurnar "leka" niður jökulinn... svo almennt er gengið þverf yfir þær... en stundum þarf að ganga samhliða þeim... eins og á Þverártindsegg 2012 og því var gott að fara yfir það og skilja hvað þar skiptir mestu máli...


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

...að halda sömu vegalengd milli manna þó þeir raði sér sikk sakk yfir í línunum þar sem gengið er samhliða hugsanlegum sprungum og þannig tryggt að álagið á hverja snjóbrú sé þá ekki of mikið, því ef tveir standa á sama stað eru auknar líkur á að snjóbrúin gefi sig en ef eingöngu einn er í einu...

Farið var niður gilið þar sem ágætis snjóhengjur voru fyrir verklegar æfinga í sprungubjörgun
þar sem ein lína hjálpar leiðsögumanni annarrar línu úr sprungu sem hann hefur fallið í.

Hér fellur Örn niður sprungu... bleika birtan úr Bláfjallaskíðasvæðinu var mögnuð þetta kvöld...

Hvað gera menn þegar leiðsögumaðurinn sem alltaf gengur fremstur
fellur allur ofan í sprungu?

Ef eingöngu ein lína ef á ferð skulu allir í línunni bíða, gott getur verið að grípa í hjarnið með ísexinni ef þarf, setjast strax allir niður, halda línunni strekktri og passa að þunginn dreifist á alla línuna en ekki bara fremsta mann sem tekur eðlilega mesta höggið við fallið og mesta þungann til að byrja með þegar slysið verður.

Ef fleiri en ein lína er í leiðangrinum kemur önnur lína til björgunar:

Björgunarlínan: Leiðsögumaðurinn þar nálgast brúnina varlega þar sem yfirleitt er snjóhengja á brúninni og sprungan liggur breiðari innan undir snjónum - notar til þess snjóflóðastöng til að kanna snjóalög og finna hvar fasta landinu sleppir til að gæta að eigin öryggi - grefur þá með skóflu úr brúninni til að bandið grafist ekki eins mikið inn, setur svo bakpoka, skóflu, skíði, staf eða annað þvert yfir snjóhengjuna til stuðnings til að línan skerist ekki inn í meðan á björgun stendur.

Leiðsögumaður sendir svo aukaspotta niður til þess sem féll ofan í sprunguna með hnút og karabbínu (aukalínan sem leiðsögumaðurinn er með hjá sér í pokanum (þessa 20 metra)) en hann mælir út circa hversu langan spotta þarf miðað við hve sprungumaðurinn er farinn langt niður - setur karabínu á hnútinn - og sá sem féll nælir karabínuna á sama stað á beltinu og hina karabínuna (sá sem féll má alls ekki losa karabínuna sem fyrir er og heldur honum öruggur við sína eigin línu).

Tryggja skal með spurningu til sprungumannsins hvort karabínan sé örugglega læst og með samfelldu átaki björgunarlínunnar í nokkrum áföngum þar sem fremsti maður í björgunarlínunni kallar "bakka" er maðurinn smám saman togaður upp úr sprungunni - mikilvægt að allir kalli skipun fremsta manns aftar á næsta mann, menn séu samtaka, veiti gott viðnám og taki hlutverk sitt alvarlega svo allt fari vel . Á meðan heldur lína sprungumannsins vel í og tryggir að hann falli ekki neðar ef eitthvað mistekst við björgunarlínuna (t.d. við að festa sjálfur aukaspottann í sig) og bakkar líka eins og línan þeirra losnar við uppgöngu leiðsögumannsins. Næst fremsti maður í þeirri línu skal meðan á björgun stendur næla sig í línuna með karabínunni sinni með því að næla henni fyrst í línuna og svo losa hana af hnútnum í beltinu - en þannig er hann laus úr línuhnútnum en áfram nældur í línuna og getur gengið rólega að sprungunni - þar skal hann halda munnlegu sambandi við þann sem féll og tryggja að alls sé í lagi hjá honum meðan hann er hífður upp.

Til eru svo margar aðrar gerðir sprungubjörgunar sem fara þarf yfir á sérnámskeiði sem við tökum síðar eftir því hvort menn eru eingöngu tveir saman á göngu, ein lína á göngu o.fl.

Við tókum tvær æfingar í þessu og skiptumst á... Doddi féll næstur ofan í sprunguna og nú björguðuSoffía Rósa og félagar honum...

 ...með Guðmundu og félaga fremstan að halda við...

Bæði skiptin gengu mjög vel...


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig


...og gott fyrir alla að finna hversu viðráðanlegt þetta er í krafti þungans af öllum í sömu línunni...

Og í raun gott fyrir alla að æfa að falla niður til að finna hvernig maður er dreginn upp en auðvitað er þetta einfaldara þegar aðstæður eru yfirvegaðar og undir stjórn og öryggi á æfingasvæðinu...

Um það leyti sem við vorum að ljúka við seinni æfinguna varð skyndilega myrkur... ljósin voru slökkt í Bláfjöllum og þá fundum við hversu ótrúlega mikil birtan var af skíðasvæðinu... bleiki liturinn alltumvefjandi var skyndilega farinn og við þurftum að ná í höfuðljósin... en þá fyrst tókum við eftir veðrinu að ráði... vindur og úrkoma á köflum ofan við snjóhengjuna eftir hvílíkt skjól í gilinu... orðin þreytt og svöng... já og smá blaut eitthvað... Hey, við gleymdum alveg að fá okkur nesti!!!... og ákváðum að láta þar við sitja... ekki fleiri æstir í að falla niður í sprungu og allir búnir að sjá hvernig björgunin fór fram... hversu einfalt þetta er í raun ef farið er eftir nokkrum mikilvægum öryggisatriðum...


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

Farið var vel yfir það sem gert var í björguninni til að skerpa á hlutverkum hvers og eins...

En Jón Heiðar tók smá snjóakkeriskennslu í lokin...

... og sýndi okkur tvær gerðir... T-akkeri og Snjóbolla-akkeri.


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

Í fyrra akkerinu gróf hann niður tvær axir þar sem önnur lá lárétt og hinni stungið á bak við beint ofan í bak við þá láréttu þannig að sú lárétta gaf þeirri lóðréttu stuðning til að halda í spottann sem þá var festur við...


Mynd fengin að láni frá Siggu Sig

þetta þarf að prófa vel áður en einhver sígur niður á þessu akkeri þar sem þykkt og samsetning snævar hefur allt um það að segja hversu öruggt þetta er... og mikilvægast að grafa nógu djúpt og grafa smá farveg fyrir línuna þannig að hún kippist ekki upp í mót... þetta virkaði fínt þarna þar sem snjórinn var frekar mjúkur og meðfærilegur þannig að hægt var að grafa og reka ísaxirnar niður...


Fengin að láni frá Americn Alpine Institite af vefnum
http://blog.alpineinstitute.com/2008/07/snow-anchor-options-part-i.html

Snjóbollinn var líka gerður en hélt ekki sem var ágætt fyrir okkur að sjá,
þar sem hann hentar frekar í hörðu hjarni en mjúkum snjó eins og þarna var.

Hér er ágætis tengill á hin ýmsu akkeri sem gera má í snjó frá amerísku alpasamtökunum:
http://blog.alpineinstitute.com/2008/07/snow-anchor-options-part-i.html
... og endalaust hægt að glöggva alla þessa kennslu á youtube og veraldarvefnum
varðandi broddagöngu, ísaxarbremsu, jöklalínugöngu, sprungubjörgun ofl.

Loks var tími til að ganga í línu til baka og pakka saman... fengum að æfa okkur í að vefja upp jöklalínu þannig að hún flækist ekki með því að vefja henni bara í hringi... og þá loks hættum við og keyrðum heim þar sem fennt hafði í veginn frá því um daginn... alveg eins og í fyrra þegar við þurftum að draga suma bílana af stað... en nú gekk allt vel og við vorum alsæl að lokinni kennslu sem tók rúmar fjórar klukkustundir og var sérlega innihaldsrík.

Kærar þakkir Jón Heiðar Andrésson fyrir frábæra kennslu
og allir fyrir sérlega góða samveru þetta kvöld.
Höfum þessi námskeið árlega og lærum alltaf eitthvað nýtt á milli þess sem við endurtökum það nauðsynlegasta sem allir þurfa að kunna... eigum enn eftir hnúta, snjóflóðahættu og flóknari sprungubjörgun o.m.fl.

Skriðjöklanámskeiðið á Sólheimajökli féll því miður niður þessa helgina vegna óaðlaðandi veðurspár... mikil úrkoma en lítill vindur... þar sem lítil þátttaka réð endanlega úrslitum um að taka sjensinn á að stóru jöklarnir tækju mest alla úrkomuna sem spáð var... en við höfum tröllatrú á góðu námskeiði í Sólheimajökli um broddatækni, leiðarval í fjallendi, áhættustjórnun, áhættumat, sporagerð og ísklifurtækni... og ætlum að hafa þetta námskeið á dagskrá í mars á næsta ári... enda er heimur skriðjöklana magnaður sjónrænt séð líka og hreint ævintýri að ganga um þá :-)

Þangað til skulum við æfa ísaxarbremsu og jöklabroddagöngu eins og aðstæður leyfa núna í mars og fram í maí í göngunum okkar... mæta með græjurnar sínar hver og einn eins og hann á og skellum okkur niður brekkur sem við finnum á leiðinni :-)

Margar myndir fengnar að láni frá Siggu Sig í þessari frásögn - sjá albúmið hennar hér með texta við hverja mynd:
https://www.facebook.com/profile.php?id=1400434614&sk=photos&collection_token=1400434614%3A2305272732%3A69&set=a.10203589666847835.1073741868.1400434614&type=1
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir