Áskorunin árið 2019
Ókunnar slóðir á eigin vegum
Meldingar þátttakenda í tímaröð:

Ísleifur Árnason
á Bæjarfelli og Arnarfelli Krýsuvík
1. janúar 2019
nr 1:

Ég fór í fyrstu gönguna að morgni 1. janúar. Ég fór á tvö lítil fell við Krýsuvíkurkirkju, Arnarfell (206 m) og Bæjarfell (214 m) . Gönguformið var ekkert sérstakt þar sem ég setti fókusinn á kraftlyftingarnar um haustið og nánast ekkert gengið síðan í september. Fellinn eru sitthvorum meginn við Krýsuvíkurkirkju og var gaman að skoða hana. Læt fylgja mynd af Arnarfelli, tekna frá Krýsuvíkurkirkju. Er svona á báðum áttum hvort þetta teljist sem fjallganga :-) Lægsti punktur var 118 m og heildarhækkun 185 m. Gangan tók klukkutíma og 15 mín og var um 3 km.
https://www.wikiloc.com/…/arnarfell-og-baejarfell-vid-krysu…

------

Ísleifur Árnason
á Fagradalsfjalli og Borgarfjalli
26. janúar 2019
nr. 2:

Ferð nr. 2 var farin þann 26. janúar á Fagradalsfjall og Borgarfjall rétt austan við Grindavík. Fór af stað um kl. 08 um morguninn. Byrjaði á að ganga slóða vestan við slögu, beygði svo af honum og inn dal sem mér sýnist á kortum heita Nátthagi. Þar er vatn sem var allt frosið. Gekk dalinn á enda og fór þaðan upp á Fagradalsfjall. Fór ekki á hæsta punktinn á Fagradalsfjall (tíminn bauð ekki uppá það í þetta sinn) upp í 272 m hæð og fór svo þaðan á Borgarfjall (231 m) og þaðan niður suðurhliða og til baka. Góður hringur í köldu en flottu verði. Lægsti punktur var 30 m og hæsti 272 m. Heildarhækkun var 594 m. Vegalengd 9,62 km.
https://www.wikiloc.com/…/fagradalsfjall-og-borgarfjall-201…
https://www.relive.cc/view/e1259502608

------

Davíð Rosenkrans Hauksson
á Búrfelli í Grímsnesi
2. febrúar 2019
nr. 1:


 

Fyrsta ferðin. 2. febrúar, Búrfell í Grímsnesi. 7 km, 3 klst, 643 m hækkun, Upphafspunktur 63 m y.s., hæsti punktur 548 m y.s.

Lagði af stað upp úr kl. 11:00 frá Reykjavík. Kalt og stillt. Hiti um -9 °C og lítill vindur, engin úrkoma, hálfskýjað. Snjór yfir öllu.

Bílferðin í Grímsnes tók um 1 klst. Smá tími fór í að finna góðan stað til að leggja bílnum og fór það svo að ég keyrði inn lítinn afleggjara og festi bíllinn í snjó þegar ég bakkaði tilbaka út á þjóðveginn. Bóndi á traktor dró mig úr snjónum og sýndi mér hvar best væri að leggja bílnum. Ég lagði af stað í gönguna um 13:30 vel dúðaður með mannbrodda og ísexi til vara. Ferðin gekk ágætlega og hitnaði mér nokkuð fljótt þó ansi kalt væri í veðri auk þess sem vindurinn var meiri þarna en í Reykjavík. Snjór var yfir öllu en sást í kletta og gras sums staðar í fjallinu. Mig verkjaði aðeins í hnén á leiðinni og það var ansi kalt. Útsýni var gott og sást til Esjunnar á toppnum, til Eyjafjallajökuls í austri, yfir Þingvallavatn og til sjávar í suðri. Borðaði nesti á toppnum í skjóli fyrir vindi sem var orðinn töluverður þar. Vindurinn var það leiðinlegasta við ferðina, hann kældi það mikið að ég reyndi eftir fremsta magni að þurfa ekki að fara úr hönskum.

-------

Anna Jóhanna
á Fragafelli undir Eyjafjallajökli
2. mars 2019
nr. 1:

 

Fyrsta ferðin mín á "Ókunnar slóðir á eigin vegum" farin 2 mars 2019 Síminn minn varð bilaður og engar myndir hér!
Í sumar ætla ég að ganga frá Nauthúsagili að Seljalandsmúla með viðkomu á Fagrafelli, Magnús Birkir Ólafsson verður með í þeirri göngu, sem er liður í Eyjafjallaraðgöngunum okkar. Vildi ekki fara þá leið í án hans
Síminn minn varð rafmagnslaus sirka 1.5 km áður ég ég náði í bílinn ekki mina þó
et myndir og frásögn inn fljótlega
:-)
Relive: https://www.relive.cc/view/rt10003784593

-------

Björn Matthíasson
Stóra og Litla Lambafell, Arnarfell og Bæjarfell Reykjanesi
9. mars
Nr. 1-4:

Það er eins og annað sem ég geri, ég er seinn með bókhaldið. Ég er eins og Íslands-Bersi: Maður verður aldrei ríkur á bókhaldi.
En hér eru tíu fyrstu ferðirnar mínar á ókunnar slóðir á eigin vegum á þessu ári. Frásögnin verður í nokkrum bitum.
9. mars: Slegnar fjórar flugur í einu höggi, þ.e. gengið á fjögur fjöll sama daginn. Stóra Lambafell, Litla Lambafell, Arnarfell og Bæjarfell. Öll eru fjöllin sunnan Kleifarvatns og standa þar í einni þyrfingu. Þetta var gengið á nokkrum klukkutímum á einum góðum degi. Ég er ekki með hæðarmæli, en á korti er Stóra Lambafell talið vera 239 metrar, Litla Lambafell 222 metrar og Bæjarfell 214 metrar. Hæð Arnarfells er ekki merkt.

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
á Smáþúfum Blikdal
16. mars 2019
nr. 2:

Ferđ nr. 2. 16. mars, Smáþúfur í Esju. 7,5 km, 2,5 klst. um 600 m hækkun. Upphafspunktur, 38 m y.s. Hæsti punktur, 595 m y.s.

Lagði af stað upp úr 10:00. Kom við á nokkrum stöðum á leiðinni úr bænum. Hiti um 4 °C og lítill vindur, engin úrkoma, léttskýjað.
Lagði bílnum á vigtarplanið við Hvalfjarðargöngin. Ganga hófst um 11:30 og lauk um 14:00. Gangan gekk vel og varð mér frekar heitt á leiðinni upp (enda skein sólin) þannig að ég gekk smá hluta leiðarinnar ber að ofan. Útsýni var gott, sást alla leið að Snæfellsjökli, einstaklega fallegur dagur.

Þegar upp var komið á Smáþúfur ákvað ég að bregða mér niður í Blikdal í stað þess að halda áfram t.d. á Kerhólakamb
eins og ég hafði jafnvel ætlað mér. Gekk niður í dalinn og svo aftur að bílnum.

------

Ísleifur Árnason
Búrfell í Grímsnesi
2. mars 2019
nr. 3:
 

Ferð nr. 3 var farin þann 2. mars á Búrfell í Grímsnesi sem hefur einhvern veginn alltaf orðið útundan hjá mér. Ágætis veður og kom vatnið á toppnum skemmtilega á óvart. Upphafspunktur 49 m. hæð og upp í 540 m. hæð. Hækkun 525 m og var 7,7 km og tók 3 klst.
https://www.wikiloc.com/…/2019-03-02-burfell-grimsnes-33956…

-----

Ísleifur Árnason
 Dragafell við Skorradal
29. mars 2019
nr. 4:

 

Ferð nr. 4 var farin þann 29. mars á Dragafell í Skorradal. Þetta var létt og stutt ganga og má segja að það hafi verið sólskin og hríð til skiptis. Þetta var þó nýtt umhverfi þar sem ég hef lítið gengið þarna. Vegalengd var aðeins um 3,78 km. Upphafshæð var 215 m og mesta hæð 479 m og uppsöfnuð hækkun 343 m. Gangan tók eina klukkustund og 50 mínútur. Læt fylgja mynd af skúr í Skorradal sem ég þekki ekki nafnið á með fellið í baksýn. Lítið útsýni var af topnnum vegna snjókomu og því lítið um myndatökur þar.

-----

Björn Matthíasson
Geitahlíð
8. apríl
Nr. 5:

Þann 8. apríl gekk ég á Geitahlíð við suðurenda Kleifarvatns.
Fékk heilmikið hvassviðri á mig, en gangan var hressandi. Fimmta fjallið af tólf. Sjö eftir.

-----

Ísleifur Árnason
Brennisteinsfjöll
14. apríl
nr. 5:

 

Ferð nr. 5 var farin þann 14. apríl. Brennisteinsfjöll um Grindarskörð. Veðrið var alls ekkert sérstakt, rok, lágskýjað og þoka. Engu að síður var þetta mjög góð ganga, það reyndi mikið á rötun samkvæmt GPS þar sem skyggni var lítið. EInnig gerði vindurinn þetta mun erfiðara en viðvarandi vindur megnið af leiðinni var 15 - 20 m/s.

Ætlunin var að ganga lítinn hrygg frá Grindaskörðum upp á Brennisteinsfjöll, en á hryggnum var öflugur vindstrengur að það var rétt svo hægt að standa þar. Ákvað að þar sem ég væri einn þá væri ekki gáfulegt að halda þeirri leið áfram. Ég fór niður af hryggnum og fór allskyns krókaleiðir á leiðarenda. Set Trackið hérna undir i athugasemd en mæli ekki með að nokkur maður noti það nema kannski til viðmiðunar. Það er klárlega hægt að fara betri leið í meira skyggni og minni vindi. En það verður að segjast að þetta var allt gott í reynslubankann. Það styrkir mikið andlegu hliðina að vera einn í þessum ástæðum þótt að það hafi aldrei nein hætta á ferðum. En mikilvægt að hafa allan búnað í lagi á borð við það að vera með nóg af aukarafhlöðum í GPS tækið.

Helstu lexíur og áminningar voru þær að maður er mjög fljótur að týna áttum í þoku og þarf að kíkja mjög ört á GPS tækið til að ganga í rétta átt. Manni finnst oft eins og maður sé að ganga í rétta átt en áttar sig svo á því að maður er að fara eitthvað kolvitlaust. Önnur lexía er að geyma símann í lokuðum vasa, sem er að sjálfsögðu eitthvað sem alllir eiga að vita en ég afrekaði það að týna honum, en rakti mig aftur samkvæmt GPS og fann hann, góð æfing út af fyrir sig Það útskýrir meðal annars smá tvist á GPS trackinu. Annað tvist er á trackinu þar sem ég stoppaði aðeins í Spenastofuhelli sem er þarna á leiðinni, en það ruglaði aðeins tækið þegar það missti þar sambandið ens og sést á mámarks og lágmarkshæð. Það var annars kærkomin hvíld frá vindunum að kíkja þar í andyrið.

Læt fylgja mynd af "tanngarðinum" í hellinum. Gangan tók 5 klst og 15 mín og var um 15 km (ferðin í hellinn bætti aðeins við vegalengdina - einhver villa) , upphafshæð var 228 m og hámarkshæð 621 m, uppsöfnum hækkun var 765 m enda töluvert um að fara upp og niður á leiðinni.

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Meðalfell í Kjós
18. apríl
nr. 3:

Ferđ nr. 3. 18. apríl. Međalfell í Kjós. 7 km, 425 m hækkun. Lægsti punktur, 82 mys. Hæsti punktur 349 mys.
Tók skyndiákvörðun og lagði af stað um 14:30 úr Reykjavík. Ganga hófst um klukkutíma síðar austan fjallsins. Rok og rigning meiri hluta leiðarinnar. Gekk fram fjallið og á fjallsbrún þaðan sem sást í Hvalfjörð og Melasveit. Gangan tók 2 tíma.

-----

Ísleifur Árnason
Fagraskógarfjall
1. maí
nr. 6:

Ferð nr. 6 var farin á verkalýðsdaginn þann 1. maí snemma að morgni á Fagraskógarfjall í Hítardal. Mjög skemmtileg ganga um flott fjall og mjög gaman að sjá skriðuna sem féll nýlega úr fjallinu að ofanverðu. Sól var allan tímann en hvasst sérstaklega í byrjun göngu en mjög hlýtt og gott verður þegar ég var á leiðinni niður. Slóðin endar þar sem skriðan féll. Það er óhætt að segja að gangan er krefjandi í byrjun þar sem þar er töluverður bratti og þarf að finna leið milli kletta og skriða. Að öðru leiti er hún frekar létt. Upphafshæð 69 m og mesta hæð 678 m. Uppsöfnuð hækkun 912 m en ég fór góðan hring á toppnum og er þar töluvert um hækkanir og lækkanir. Gangan tók 4 klst og 45 mínútur og var 9,38 km. Læt meðal annars fylgja 2 myndir af skriðunni að ofanverðu.

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Grímarsfell og Dalsrétt í Kjós
11. maí
nr. 4:

Ferđ nr. 4. 11. maí. Grímarsfell og Dalsrétt í Kjós. 11 km, 560 m hækkun. 3 klst. Lægsti punktur: 39 mys. Hæsti punktur: 482 mys.

Lagði af stað um 11 úr bænum og ók inn í Helgadal í Mosfellsdal. Ganga hófst kl. 12:00 og var heitið á topp Grímarsfells, Stórhól. Fylgdi stikaðri slóð upp á toppinn og hélt svo áfram stikaða leið eftir Grímarsfelli niður að Dalsrétt og loks í bílinn. Sól skein nánast allan tímann en hitastig var ekki mjög hátt og kaldur vindur var hluta leiðarinnar.

-----

Ísleifur Árnason
Drápuhlíðarfjall
26. maí
(sama dag og á Kerlingarfjall !)
nr. 7:

Ferð nr. 7 var farin þann 26. maí en þó fór ég á Snæfellsnesið og fór í 2 göngur sama daginn. Sú fyrri var Drápuhlíðarfjall sem ég hef alltaf átt eftir. Það var sólríkt allan daginn en frekar kalt í lofti og hvasst á Snæfellsnesinu. Vegalengdin var 6,66 km eins vel og það hljómar. Lægsti punktur var 32 m og hæsti 531 m og uppsöfnuð hækkun 547 m. Gangan tók 3 klst og 8 mín.

-----

Ísleifur Árnason
Kerlingarfjall á Vatnaleið
26. maí
(sama dag og á Drápuhlíðarfjall !)
nr. 8:

Ferð nr. 8 var einnig farin þann 26. maí. Ég fór á Kerlingarfjall sem er nálægt Vatnaleiðinni. Ég byrjaði gönguna í Kerllingarskarði á milli Grímsfjalls og Hafrafells en ég fór á þau bæði fyrir einhverju síðan. Ég gat ekki fundið neitt um göngur á Kerlingarfjall , það væri gaman að heyra ef einhver hefur heyrt um göngur á fjallið eða heyrt um þær. Það er ekki auðvelt að finna leið upp á fjallið og ákvað ég að prófa að fara upp á suðvesturhliðinni. Þar voru klettar sem mér sýndist vera leið hjá en komst svo að því að svo var ekki, allavega ekki vit í því einn á ferð, þannig að ég fór vestar og fann örugga leið með því að fara vestur fyrir þá. En játaði mig svo sigraðan í 547 m hæð þar sem allar leiðir þar allavega virtust ófærar, en fjallið er 585 m hátt. Mig grunar að það gæti verið ágætist leið að suðaustanmegin og verður það reynt síðar. Upphafshæð var 281 og hámarkshæð 547, uppsöfnuð hækkun var 312 m og tók gangan 2 klst og var 3,63 km. Set trackið í komment en þar sést ef zoomað er inn flækingurinn á mér þegar ég var að reyna að finna leið. Set 2 myndir hér að neðan, sú fyrri þar sem horft er yfir Hafrafell úr hlíðinni og sú seinni sem er tekin í gegnum náttúrulegan ramma sem var þarna á leiðinni.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Þyrill
9. júní
Nr. 1:


Þó ég sé alin upp í sveit, þá er þetta í fyrsta skipti sem ég sé dauðan nautgrip uppi á fjalli.

Jæja loksins farinn að poppa inn tími til að gera eitthvað af viti.
Ótrúlegt en satt, þá hafði ég ekki farið á Þyril áður og ákvað því að slá tvær flugur í einu höggi
og byrja í tveimur áskorunum í sömu ferðinni, á sama fjallinu.
Ferð nr. 1 - Þyrill í Hvalfirði á Hvítasunnudag, 9. júní 2019.
Veðrið var dásamlegt þó hafi aðeins blásið á leiðinni upp, en það fór aldrei yfir 10 m/s. Þar sem ég lagði ekki af stað gangandi fyrr en vel yfir kl. 11 og þá liðnir næstum þrír tímar
frá morgunmat, þá stoppaði ég fljótlega í skjólsælli laut og maulaði hádegismatinn. Uppi blés aðeins en allt þurrt og greinileg leið alla leiðina, svo það var aldrei spurning um að rata eða ekki rata. Á toppnum var farið að lægja og svo var komið logn á leiðinni niður. Sólin skein nánast allan tímann, enda stoppaði ég mikið, eða heilan klukkutíma í heildina, þar af um hálftíma á toppnum og var 2,5 klst á göngu. Lengdin varð 8,5 km með 460 m hækkun miðað við 29 m byrjunarhæð.
Rétt áður en komið er á toppinn, liggur dauð kvíga við gönguleiðina, en hún hefur greinilega legið þarna allavega hluta vetrar. Ég hringdi í bóndann og lét vita þegar ég kom heim og hann hafði þá frétt af henni, en ekki stendur til að fjarlægja hana. Ég stakk þó upp á því að reynt yrði að draga hana eitthvað í hvarf, þar sem hún gæti farið að lykta fljótlega.
8,5 km og 460 m hækkun á 3:36 klst, byrjunarhæð 29 m og mesta hæð 397m

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Þakgil upp á Miðafrétt
28. júní
nr. 5:

Ferð nr. 5. Frá Þakgili upp á Miðafrétt.
Mér var falið það hlutverk að velja gönguleið og leiðsegja vinnufélögum og fjölskyldum þeirra í útilegu í Þakgili. Ég hafði gist þarna áður yfir helgi fyrir 3 árum og vissi því af ágætis gönguleið. Þegar í Þakgil var svo komið 28. júní 2019 reyndist sú gönguleið bæði lengri og erfiðari en mig hafði munað. Það gerist örsjaldan
😊 Eftir að hafa ráðfært mig við tjaldsvæðisvörð ákváðum við í sameiningu að betra væri að fara auðveldari leið sem liggur eftir jeppaslóða. Hún er gengin fram og tilbaka og því í raun hægt að snúa við hvenær sem er og að því leytinu til hentug, sérstaklega fyrir lítil börn. Sem ábyrgðarfullur leiðsögumaður varð ég að skoða þessa leið áður en ég leiddi fólk þar um svo ég myndi ekki leiða það í ógöngur. Ég arkaði því af stað upp og niður jeppaslóðann og lengra en ég fór með sjálfan hópinn daginn eftir. Á leiðinni upp hugsaði ég með mér að þessi ganga væri að sjálfsögðu gjaldgeng í þessa áskorun. Ég strunsaði þetta upp í gallabuxum og stuttermabol með peysu og jakka vafið um hendurnar og hljóp við fót á leiðinni niður. Alls voru þetta um 9 km á 90 mínútum með um 450 m hækkun. Upphafspunktur var 144 mys. og hæsti punktur var 582 mys. Ég gekk frá ca. 23:00 til 00:30. Gott veður, frekar heiðskýrt og einstaklega fallegt umhverfi.

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Eldborg, Drottning, Stóra Kóngsfell
8. júlí
nr. 6:

Ferð nr.6. Mánudagur 8. júlí. Eldborg, Drottning og Stóra Kóngsfell.

Sem liður í æfingu fyrir fjögurra daga göngu um Fjörður seinna í júlí brá ég mér með stóra bakbokann fullan af vatnsfylltum plastflöskum. Ég sá mér svo leik á borði að slá tvær flugur í einu höggi með því að æfa mig með þungan stóran bakboka og göngustafi ásamt því að ganga 6. ferðina einn um ókunnar slóðir. Ferðin tók 2 tíma og lenti ég ágætis úrkomu í göngunni. Ganga hófst um kl. 20:00 og lauk um kl. 22:00. Alls um 6 km, 370 m hækkun. Lægsti punktur var 420 m. y.s. og hæsti var 600 m.y.s. (á Kóngsfelli).

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Löngubrekkur og Þjóðhátíðarlundur 10. júní
Nr. 2:

Ferð nr. 2 - Annan í Hvítasunnu, 10. júní 2019
Þegar ég gekk Búrfellsgjá aðeins áður, sá ég skilti sem vísaði á Löngubrekkur og Þjóðhátíðarlund og ákvað ég að skella mér þá leið í sól og blíðu og skokkaði og gekk til skiptis. Fannst gaman að sjá hversu vel er búið að merkja göngu-, hjóla- og skíðaleiðir í Heiðmörkinni, neyðarpunktar víða og víða hægt að setjast niður við borð.
Þetta varð í það heila 7,41 km og 116 m hækkun á 01:48 klst, en ég lenti á langri kjaftatörn við sjötugan fjallagarp og konuna hans.
Byrjunarhæð 77 m og mesta hæð 101 m.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Hafravatnshringur
16. júní
Nr. 3:

Ferð nr. 3 - 16. júní - Hafravatnshringur.
Ótrúlegt en satt hafði ég aldrei gengið þennan hring, lengi búin að ætla mér það en ekki haft mig í það. Ég hafði misstigið mig fáeinum dögum fyrr og því var fjallganga ekki í boði. Til að nýta blíðuna datt mér þetta í hug og þetta var skemmtiilegt. Ég varð forvitin að vita eitthvað um húsið sem stendur við Hamarinn við enda vatnsins og fékk að vita hluta sögu þess eftir krókaleiðum, segi ykkur frá því síðar í göngu
5,42 km og 46 m hækkun á 01:41 klst, enda pínu skökk og skæld eftir misstig og veðrið var til að njóta
Byrjunarhæð 185 m, mesta hæð 191 m.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Hulduhóll, Torfdalshryggur, Hjálmur og Nessel
24. júní
Nr. 4:

Ferð nr. 4 - 24. júní 2019 - Hulduhóll, Torfdalshryggur, Hjálmur og Nessel.
Í fjarveru Toppfara-þjálfara bauðst ég til að sjá um tvær göngur. Mér datt í hug að reyna að finna eitthvað sem hafði ekki verið farið áður, en svona nálægt höfuðborgarsvæðinu getur það verið ansi snúið. Ég fór í kortaforritið mitt og fór að leita og vona að ég hafi fundið leið sem hafi ekki verið farin áður, þó Hjálmur hafi verið genginn áður. Ég fór því að sjálfsögðu í undirbúningsgöngu, en var búin að teikna ca slóð fyrirfram. Ég fékk frábært útsýni og gott veður, sem gerði þessa leið afar skemmtilega.
10,1 km og 415 m hækkun á 03:22 klst, byrjunarhæð 194 m og mesta hæð 462 m.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Kerlingarfjöll að Kerlingu
29. júní
Nr. 5:

Ferð nr. 5 - 29. júní 2019 - Kerlingarfjöll í átt að Kerlingu.
Ég hafði verið beðin af vinahóp að leiðsegja þeim í Kerlingarfjöllum, svo ég fór í könnunarleiðangur, var búin að skoða kort og athuga með leiðir. Ég ætlaði að byrja á að ganga frá tjaldstæðinu að Hveradölum, en fyrsta skiltið sem ég kom að, vísaði meðal annars að Kerlingu, en þá gönguleið hafði ég hvergi séð. Auðvitað þurfti ég að fara að tékka á þessu... ég meina hver fer í Kerlingarfjöll og fer ekki að sjálfri
Kerlingunni. Það var alveg ný reynsla fyrir mig að leita að Kerlingu en ég er meira vön því að leita að körlum... eða þannig.
Leiðin er stikuð, en þó þurfti ég nokkrum sinnum að staldra við til að koma auga á þá næstu, því þeim er ekki vel við haldið.
Skiltið sagði 7,8 km að Kerlingu, en þegar ég var búin að ganga um 9 km samkvæmt GPS, þá ákvað ég að snúa við, svo ég fann enga Kerlingu (ekkert frekar en neinn karl
🙈). Þegar ég kom heim og komst í tölvu og sá hvar hún var, þá komst ég að því að ég átti eftir um 400 metra að henni og eitthvað slatta minna til að koma auga á hana.
Ég er hins vegar búin að teikna leið sem mig langar að fara næst þegar ég fer að finna hana.
Fékk milt og gott veður, sólarlaust og nánast engan vind. Ég var alein í heiminum, óð eina á, rakst á um fimmtán hjörtu (sem ég deildi á vegginn minn), heyrði hvorki né sá fólk eða bíla, en eitt lóupar fylgdi mér stóran hluta leiðarinnar,
dásamlegt að vera einn dag "out of nowhere" í algjörum friði.
18,6 km og 809 m hækkun á 06:38 klst, byrjunarhæð 711 m og mesta hæð 930 m.

-----

Ísleifur Árnason
Þverfell við Reyðarvatn
10. júní
nr. 9:

Ferð nr. 9 var farin þann 10. júní á Þverfell við Reyðarvatn. Skemmtileg ganga og að mestu gott og sólríkt veður, það sem var virkilega áberandi var hvað mýið var mikið við vatnið. Það var mikið fagnaðarefni að komast upp í smá hæð þar sem það var sma gola og það minnkaði. Ég hef líklega borðað um 50 flugur í göngunni sem var nú ekki ætlunin. Gangan var 10,96 km , upphafshæð var 314 m og mesta hæð 656 m. Uppsöfnuð hækkun var 636 m og tók gangan 3 klst og 20 mínútur. Læt fylgja mynd sem ég tók á leiðinni upp þegar mýið hafði minnkað töluvert, það sést þó töluvert á myndinni (svörtu flekkirnir), við vatnið var yfirleitt ekki hægt að munda myndavélina vegna mýsins, ég veit að selfies eru ekki æskilegar hér en læt eina fylgja af mér með flugunum, svipurinn segir ýmislegt um hvað mér fannst um þetta allt saman.

-----

Ísleifur Árnason
Kýpur Cyclops hellarnir
23. júní
nr. 10:

Ferð nr. 10 var farin þann 23. júní og er frekar óvenjuleg en hún var farin á Kýpur. Það er svona á mörkunum að það sé hægt að telja þetta sem fjallgöngu en þetta var það sem komst næst því sem ég fann á þessu svæði sem ég var á . Um var að ræða ganga meðfram strandleggju og upp á lítið útsýnisfell í þjóðgarði sem heitir Cavo Greco National Forest Park, skógurinn er þó ekki mikill á svæðinu sem er þó mjög fallegt á sinn hátt. Gangan hófst hjá honum svokölluðu Cyclops hellum sem eru nálægt Konnos Beach (ég veit að fáir átta sig á örnefnunum en læt þau fylgja. Mikið var stoppað og slórað í göngunni þar sem margt var að skoða. Ég lagði af stað um kl. 08 um morguninn , ég var ekki klár á því þegar ég fór af stað hvort það væri góð gönguleið þarna með ströndinni að útsýnisfellinu en þarna voru ágætir stígar, í þessu tilfelli hélt ég mig aðallega á þeim þar sem ég var í opnum skóm. Ég byrjaði að skoða Cyclops hellana sem eru mjög fallegir, fljótlega kom ég svo að lítilli kirkju en við hana voru nokkrir ferðamenn en hún reyndist heita Agioi Anargyri Church, sá þar skilti sem benti á aðra hella niður við sjóinn, ég skoðaði þar flottann helli en þar voru nokkrir ferðamenn ásamt köfurum sem reyndust svo vera nokkuð algeng sjón á leiðinni. Stuttu síðar kom ég að "blue Lagoon" þeirra Kýpverja en um er að ræða sundstað í sjónum sem þekktur er fyrir að vera mjög tær, einnig eru þar sillur sem hægt er að ganga meðfram sjónum, mjög sérstakt. Ég kðaði einnig á leiðinni náttúrulega steinbrú sem ég var búinn að heyra af en vissi ekki að væri þarna á leiðinni og var því gaman að ramba á hana. Fljótlega kom ég svo að helstu hækkuninni (sem var ekki mikil). Ég fann ekkert annað nafn á fellinu en Cavo Greco Viewpoint. Þar fór ég upp og niður aftur og svo hélt niður á þjóðveg og tók rútu að hótelinu. Upphafshæð var 19 m og hæsti punktur á útsýnisfellinu var 86 m og hækkun á leiðinni 125 m. Ég var þó með Wikiloc appið í símanum þar sem ég var ekki með GPS tækið með og hafa hæðartölurnar þar verið einkennilegar, gangan var 10,8 km og tók 3 klst og 48 mínútur, enda mikið slórað og skoðað. Þótt hækkunin var mjög lítið þá voru þarna alveg nýjar áskoranir og þá helst hitinn, ég reyndi að fara snemma þegar hitinn var aðeins minni en þar sem það var hitabylgja á svæðinu þá var hann um 30 C þegar ég fór af stað og kominn í 36 C þegar klukkan var að nálgast hádegi. Lítið sem ekkert var um skugga á svæðinu þar sem sólin þarna er nánast beint fyrir ofan mann yfir hádaginn. Það vakti athygli hversu erfiðara það er að verjast hitanum heldur en kulda. EInnig voru allskyns kvikindi þarna sem maður er ekki vanur að sjá hér og voru helstu ferðafélagarnir eðlur sem hlupu reglulega fyrir framan mig og með mér. Þarna var mjög fallegt en náttúran er mjög einsleit en aðallega er um að ræða ljóst hraun / grjót og kjarr. Það er fátt sem jafnast á við íslenska náttúru og saknaði ég mikið svalans hér þegar hitinn var sem mestur.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Hveradalir Kerlingarfjöllum
30. júní
Nr. 6:

Ferð nr. 6 - 30. júní - Hveradalir frá tjaldstæðinu í Kerlingarfjöllum.
Mig langaði að finna mátulega langan og mátulega erfiðan hring fyrir vinahópinn sem ég var búin að taka að mér að leiðsegja og það er algjört "möst" að sjá Hveradali þegar maður er í Kerlingarfjöllum. Ég var búin að sjá leiðina á korti utan á einu húsanna í Kerlingarfjöllum og búin að lesa mig aðeins til. Það var glampandi sól, en ekki nema um 6°C í forsælu svo ég lagði af stað í lopapeysu, þar sem ég rei
knaði með að lognið á tjaldstæðinu myndi ekki duga lengi. Þegar ég var komin upp á hæðina í suður frá tjaldstæðinu, var ennþá logn, svo ég var fljót að fara úr lopapeysunni og var á stuttermabolnum alveg að Hveradölum sjálfum, en þá fór að blása köldum norðanvindi. Ég var þó úr og í lopapeysunni eftir það, þar til ég gekk slóðann austan megin Hveradala, en þá voru komnir um 13-14 m/s og hitinn með vindkælingu kominn niður í 3,5°C (gaman að eiga græjur sem mæla þetta 😉)
Ég tók smá króka í Hveradölum sjálfum og svo að upphafsstað göngu upp á Fannborg og Snækoll. Mjög flott gljúfur meðfram jeppaslóðanum.
Í heildina varð þetta 13,5 km og 668 m hækkun á 04:30 klst, byrjunarhæð 711 og mesta hæð 1062 m.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Brúarárskörð að upptökum og áleiðis á Högnhöfða
6. júlí
Nr. 7:

Ferð nr. 7 - 6. júlí 2019 - Brúarárskörð að upptökunum og áleiðis upp á Högnhöfða.
Ég hef áður gengið á Högnhöfða um Brúarárskörð, en þessa ferð fór ég til að finna góða leið að upptökum Brúarár og hugsanlega þaðan upp á Högnhöfða, því leyfi ég mér að setja þetta hér inn sem ókunna slóð.
Þessa ferð fór ég líka sem undirbúningsgöngu fyrir vinahópinn sem ég var búin að taka að mér að leiðsegja, en þetta var plan B, ef Kerlingarfjöll myndu ekki ganga upp.
Þetta var heitasti dagur sumarsins, altént heitasti dagurinn sem ég var að ganga. Ekki bætti úr skák að tveimur dögum áður gaf ég blóð í Blóðbankanum og daginn fyrir göngu, þegar ég hefði átt að vera að passa upp á vatnsbirgðirnar eftir blóðgjöfina, þá var ég að rúnta með pabba sem varð 75 ára þann dag. Það var svo gaman að ég gleymdi öllu öðru, m.a. að drekka vatn og það fékk ég all rækilega í bakið þennan dag.
Ég varð strax þreytt í fyrstu brekkunni, enda brekkan brött og mjög heitt og ég fljót að skella skuldinni á það, hélt áfram í þeirri vissu að þetta myndi lagast. Þegar ég kom upp þessa brekku, sem tók dágóðan tíma, var ég komin með þreytuverki í alla vöðva líkamans, í lærin, kálfana, axlir og upphandleggi, en það myndi nú aldeilis lagast þarna á jafnsléttu og svo niður í móti að Brúarárskörðum. Þar settist ég niður og fékk mér harðfisk og smjör og nóg að drekka. Allt kom fyrir ekki, ég var ennþá þreytt, en ennþá var ég ákveðin í að þetta myndi lagast, þó mér satt að segja óaði við þessari litlu brekku upp frá skörðunum, sem allt í einu var brött og löng. Ég hélt áfram, upp þessa brekku, niður aftur, upp að Strokki (lagði alls ekki í að fara upp á hann, vá hvað það var bratt og hátt og langt!!!), niður aftur, upp aftur, niður og upp, vitandi það að ég átti eftir að ganga þetta allt til baka. Þar sem þetta var könnunarleiðangur, þá bara varð ég að duga en ekki drepast.
Þegar ég var komin að brúninni niður að upptökunum, blasti við mér þessi illilegi steinn sem sagði við mig "snúðu við kerling, þú hefur ekkert hingað niður að gera, þú ert búin að finna góða leið, þú sérð upptökin héðan, farðu heim að hvíla þig"... og ég gengdi, horfandi á þessa löngu, bröttu brekku (not) og ég sneri við.
Þegar ég var aftur komin að Strokki, datt mér í hug að mjaka mér þar upp í átt að Högnhöfða og sjá hvort það væri ekki þægileg leið, sem hún og var, þó hún væri í alvörunni svolítið brött, en ég var ein, nægur tími og ég bara stoppaði þegar ég þurfti, ekkert stress og engin pressa. Þar fyrir ofan kom ég að mjög skemmtilegri myndun í móberginu sem ég hafði ekki séð áður og er algjörlega þess virði að skoða. Ég fór svo aðeins niður í skarðið hinu megin (í staðinn fyrir að fara áfram upp Högnhöfða) en bjó mér samt þannig til enn eina brekkuna til að fara upp. Það var nefnilega bara allt í lagi, því þrátt fyrir allt þetta, þá var ég að njóta göngunnar, þó það hljómi skringilega, mér fannst gaman og mér fannst dásamlegt að horfa í kringum mig, enda einmuna veðurblíða og ég á brjóstahaldaranum næstum allan tímann sökum hita og enginn annar á þessu svæði. Líklega er það því að þakka að það er búið að læsa hliðinu upp þennan veg og maður þarf að borga fyrir að fara hann. Fyrst var ég frekar skúffuð yfir því, en svo fattaði ég hvað það væri dásamlegt að hafa þetta svæði ekki allt morandi í alls konar bílum, því það er ekkert grín að mæta bíl á þessum vegi, allavega gott að það þarf að biðja um leyfi, þó það megi deila um gjaldtökuna.
Frábær ferð þrátt fyrir allt og hópurinn sem ég var að undirbúa mig fyrir, endaði svo á því að velja Högnhöfða.
Heildin varð 9,41 km með 745 m hækkun á 04:23 klst, byrjunarhæð 240 m og mesta hæð 602 m.

-----

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Skarðshyrna og Heiðarhorn
8. júlí
Nr. 8:

Ferð nr. 8 - 8. júlí 2019 - Skarðshyrna og Heiðarhorn.
Einhvern veginn hef ég alltaf hugsað um Heiðarhorn sem vetrargöngu, þó ég hafi aldrei farið, en svo var það allt í einu orðið plan C hjá hópnum sem ég var að fara að leiðsegja (ég á þessum hóp mikið að þakka!!!). Ég var með það á plani að ganga þetta degi fyrr, en sökum þreytugöngunnar 6. júlí, þá hreinlega lagði ég ekki í það. Ég var búin að kynna mér leiðina og fann trakk sem sýndi göngu upp meðfram Skarðsá, upp á Heiðarhorn og þaðan á Skarðshyrnu og niður á bakvið, en mér fannst einmitt spennandi að gera þetta að hring.
Ég ákvað þennan mánudag að keyra allavega uppeftir, var ennþá aðeins stressuð yfir orkuleysinu tveimur dögum fyrr, en tók samt allt með mér sem þurfti fyrir dagsgöngu. Á leiðinni uppeftir lá skýjabakki yfir Heiðarhorni og spáin benti til að dagurinn gæti orðið þannig. Ég keyrði að Efra-Skarði og hitti hjónin sem búa þar, Hrefnu og Linda. Ég spjallaði heilmikið við þau og þegar ég nefndi þennan hring, þá sagði Hrefna mér að fólk gengi almennt hinn hringinn, þ.e. fyrst á Skarðshyrnu, svo á Heiðarhorn og svo niður með ánni. Ég nefndi við þau hvort ég mætti koma með hóp og fékk að vita hvar við mættum leggja og slíkt og sagði svo "ég hafði nú reyndar hugsað mér að fara kannski prufugöngu í dag, en skýjin..." og ég komst ekki lengra, því Lindi greip fram í fyrir mér og sagði "já endilega drífðu þig, það verður bara gaman, taktu bara fullt af myndum og sendu okkur þær"... og viti menn, þegar ég leit upp, voru skýjin farin og engin líkleg í grennd til að stríða mér. Ég sagðist þá ætla allavega að ganga áleiðis og sjá hvað það gæfi mér, ekki gat ég bara keyrt heim eftir svona hvatningu.
Það var sól fyrstu brekkuna, en svo dró fyrir sólu og það var logn og háskýjað bókstaflega allan tímann, frábært gönguveður og orkan í súper standi, þá fyrst fattaði ég að það var blóðgjöfinn sem hafði verið að stríða mér á laugardeginum við Brúarárskörðin.
Þetta var alveg áskorun fyrir mig, því ég hélt að þetta væri meira "ógnvekjandi" ganga, þ.e. brattinn og klöngrið og var viðbúin því að það væri kannski ekki skynsamlegt að vera ein á ferð. Ég var því allan tímann tilbúin að snúa við og passaði að alls staðar þar sem ég var að klöngrast upp, þá væri það staður sem ég myndi líka komast niður.
Eftir fyrsta klöngrið, leit alveg út fyrir í fjarska að það næsta, upp á toppinn á Skarðshyrnu, væri verra, en ég ákvað að taka þetta bara í rólegheitum og bara skoða það. Það reyndist bara jafnvel léttara ef eitthvað var og svo er Skarðshyrnan alveg slétt og auðgengið yfir á Heiðarhorn frá henni. Það er smá klöngur upp á Heiðarhornið, en aldrei þannig að það væri einhver hætta svo lengi sem ég færi varlega, en þegar ég er ein fer ég extra, extra varlega og tékka mig reglulega inn í 112 appinu, mæli með því.
Ég var því virkilega stolt og montin þegar ég var komin upp á topp á Heiðarhorni og stoppaði góðan tíma þar, tók fullt af myndum og borðaði nesti, í logni nota bene. Ég var allan tímann í stuttermabol, nema ég smellti mér í lopapeysuna í þeim tveimur nestisstoppum sem ég tók. Leiðin niður dalinn var drjúg, tók um tvær klst, en undirlagið er gróft og fallegir fossar á leiðinni sem þörfnuðust skoðunar
Mæli fullkomlega með þessum hring og ekki spurning að byrja á Skarðshyrnu, það er miklu, miklu, miklu flottari leið, þá birtist útsýnið smátt og smátt og maður tekur erfiðasta brattann á uppleiðinni (sem er alltaf auðveldara).
Algjörlega frábær og magnaður dagur sem mig langaði ekki að tæki enda.
Heildin varð 13,69 km með 1089 m hækkun á 06:23 klst, byrjunarhæð 96 m og mesta hæð 1053 m.

-----

Ásta Henriksdóttir
Þyrill
1
8. júlí
Nr. 1:

 

Hálfnað verk þá hafið er, ekki satt? Skráði mig í þessa áskorun sem virtist sakleysisleg svona miðað við áskorun ársins 2018 en hafði mig ekki af stað, fyrr en nú. Tilgangur þessarar fyrstu ferðar var tvíþættur, annars vegar að kanna hvort ég kæmist upp örlítið fjall og hins vegar að taka myndir án þess að hafa stillt á AUTO. Ég komst upp fjallið og tók slatta af myndum, flestar þeirra liggjandi á maganum úti í mýri þannig að tenging við náttúruna var mjög góð Myndirnar eru nú margar annað hvort of ljósar eða of dökkar eða hreyfðar vegna mikils vinds en það skiptir ekki máli því ég lauk fyrstu göngu af 12 í þessari áskorun svo nú er ekki aftur snúið og þá er bara að læra af mistökunum í næstu ferð  
Gleymdi mér svo í dýrðinni á bakaleiðinni, þvílíkt fífuhaf ofan á fjallinu og fífurnar voru svo fallega samstíga í rokinu. Fór svo framhjá stígnum niður og var allt í einu stödd á milli tveggja klettabelta. Hélt að það væri ekki hægt að villast á þessari leið Þetta lengdi leiðina svolítið og gerði hana meira a la Toppfarar en Endomondo hefur eitthvað svikið mig eða misst samband og sýnir bara að hluta bein strik og ekki rétta vegalengd eða tíma eða hækkun. Vonandi sleppur þetta samt með myndunum. 

18. júlí 2019 – Fyrsta ferðin
Þyrill, Hvalfirði
ca. 10 km
4 klst og 20 mín.
Hæð: 439m
Hækkun ca. 400m
Upphafshæð 92m

-----

Ásta Henriksdóttir
Háibjalli og Snorrastaðatjarnir
25
. júlí
Nr. 2:

Ókunnar slóðir nr. 2. - gekk um svæði sem er á náttúruminjaskrá. Fyrst kom ég að Háabjalla, 10m löngum hamravegg, og svo Snorrastaðatjörnum. Þessi ganga flokkast undir "eða gönguleið" í lýsingu þjálfara á þessum viðburði. Sem sagt, gekk ekki á fjall, heldur gönguleið á jafnsléttu sem ég hef aldrei farið áður. Stúderaði Reykjanesið í áskorun síðasta árs og datt þá niður á þessa náttúruperlu. Náði ekki að skoða hana þá en langaði alltaf að gera það. Það merkilega við þessa perlu er að hún er rétt fyrir neðan Reykjanesbrautina. Þetta svæði er svolítið eins og örútgáfa af Þingvöllum, með misgengjum og sigdæld. Svo er gróðurinn mjög fjölbreyttur og fallegur og úfið hraunið allt í kring. Sannkölluð vin í ekki beint eyðimörk en í hrauninu. Á eftir að fara þangað aftur Þetta var létt ganga, svona ef frá er talinn smá kafli yfir úfið hraunið og þetta var blautt á köflum. Ég gekk 7,19km og var 3 tíma og 12 mínútur (myndavélin um hálsinn). Byrjaði í 58m hæð og hækkun alls var hvorki meira né minna en 28 metrar Mesta hæð 86 m. Hægt er að aka alla leið frá afleggjara til móts við Seltjörn á Grindavíkurvegi og er vegurinn merktur "Háibjalli" með heimatilbúnu skilti.

-----

Ísleifur Árnason
Suðurnámur, Háalda og Vondugil
Landmannalaugum
15. júlí
nr. 11:

Ferð nr. 11 var farin þann 15. júlí í Landmannalaugar. Þetta er í 3. sinn sem ég fer í fjallgöngu á þessu svæði. Ég hef áður farið með Toppförum þar sem farið var á Bláhnúk, Skalla, Hattver og fleira. Ég fór einnig síðasta sumar einn þar sem ég gekk fyrsta hlutann af Laugaveginum með smá tvisti en gekk upp á Hrafntinnusker og Söðul og svo til baka í Landmannalaugar. En núna fór ég hringleið í Suðurnámur og svo á Háöldu og gekk svo Vondugil til baka. Spáin þennan dag var ekkert sérstök en það virtist vera smá gat í skýjahulunni yfir þessu svæði og rættist vel úr þessu en sól var megnið af tímanum og sólbaðsveður í restina. Það var gaman að sjá að það er ýmislegt sem ég á eftir á þessu svæði og langar mig til að hafa það árlegan viðburð að fara á þetta svæði og ganga eitthvað nýtt. Enda er þetta að mínu mati eitt langflottasta svæði landsins, allavega sem ég ef aðgang að á framhjóladrifna jepplingnum mínum Gangan tók 5 klst og 12 mínútur og var 15,26 km. Upphafshæð var 583 m og mesta hæð 1.121 m á Háöldu. Uppsöfnuð hækkun var 896 m.

-----

Ísleifur Árnason
Lambatindur Árneshreppi
3. ágúst
nr. 12:

Ferð nr. 12, síðasta gangan, sem er þó örugglega ekki sú síðasta á árinu, var farin þann 3. ágúst á Lambatind í Árneshreppi. Ég hef aldrei farið á þetta svæði áður en alltaf langað. Ég lagði af stað um 05:30 að morgni og var orðinn frekar svartsýnn á leiðinni þar sem það var þoka nánast alla leiðina. Ég var búinn að lesa í bókinni hans Ara Trausta að það væri ekkert sérstaklega sniðugt að fara á fjallið í þoku. En þegar ég nálgaðist og sá yfir þá sýndist mér þokulagið ekki ná hátt og þar sem ég var með track þá ákvað ég allavega að leggja af stað í þokunni. Ekkert að sjá nema þoku (fyrir utan einn regnboga í þokunni) fyrr en í um 400 m hæð en þá komst ég upp úr þokunni og við tók sól og blíða. Án efa besta veður sem ég hef fengið í sumar í göngu en restina gekk ég ýmist ber að ofan eða í stuttermabol. Lokakaflinn var krefjandi , sérstaklega þar sem ég þurfti að fara aðeins út fyrir slóðina og finna nýja leið vegna bratts snjóskafls. Lokakaflilnn er mjög hrikalegur að sjá þegar maður nálgast hann og virtist nánast þverhnípturm en það er hægt að finna leiðir og eins og oft leit betur út þegar maður nálgaðist. Grjótið getur þó verið mjög laust og þarf að fara varlega og ekki að treysta því að neitt sé fast sem stigið er á. Gangan tók 6 klukkustundir og 5 mínútur og var 13,14 km. Lágmarkshæð var 20 m og mesta hæð 850 m. Heildarhækkun 921 m.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Syðri Ófæra og Silfurfoss
3. ágúst
nr. 9:

Syðri Ófæra og Silfurfoss, 3,16 km á 01:05 klst, mesta hæð 399 m, hækkun 108 m, byrjunarhæð 337.

Ég skellti mér í Hólaskjól um Verslunarmannahelgina og var með allt opið fyrir hvað ég myndi gera við dagana og hversu lengi ég myndi vera. Ég hef aldrei komið á Fjallabak Nyrðra, fyrir utan að fyrir 15 árum fór ég með fleirum í skreppferð á Sveinstind, keyrðum að nóttu uppeftir í myrkri, var upp á Sveinstindi kl. 8 að morgni, sem var dásemd, en svaf svo í bakaleiðinni :-)
Ég tjaldaði í logni á föstudagskvöldi og spáin fyrir laugardag góð. Þegar ég vaknaði um morguninn var skýjað niður í miðjar hlíðar en logn. Ég ákvað því eftir morgunmat að skella mér í morgungöngu frá Hólaskjóli, þar sem búið var að segja mér frá Silfurfossi sem væri þarna rétt fyrir ofan.
Ég ákvað hins vegar að byrja á því að ganga lengra uppeftir og fann þar mjög fallegan foss í sömu á, Syðri-Ófæru, en ég hef ekki fundið neitt nafn á honum. Stígarnir eru mjög góðir og liggja innan um mosavaxnar hraunmyndanir, ótrúlega notalegt að ganga um í logni og engin nálægur. Ég skoðaði svo Silfurfoss í bakaleiðinni, en hann er rétt fyrir ofan Hólaskjól og vel þess virði að ganga að honum fyrir þau sem eiga leið þarna um.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Eldgjá og Ófærufoss
3. ágúst
nr. 10:

Ferð nr. 10, 3. ágúst, Eldgjá og Ófærufoss, 4,9 km á 01:18 klst, mesta hæð 498 m, hækkun 107 m, byrjunarhæð 453 m.
Eftir hádegi 3. ágúst var enn lágskýjað, en ég hafði haft augastað á Gjátindi sem ég var viss um að væri gott útsýni af í björtu veðri, en því var ekki fyrir að fara þenna daginn.
Ég lét því duga að ganga um Eldgjá upp að Ófærufossi, sem er mjög tignarlegur, en þaðan er svo hægt að ganga upp á Gjátind, sem væri 14 km hringur, ef ég man rétt.

Við Ófærufoss er búið að smíða mjög flottan pall, þar sem maður horfir á ánna undir fótum sér, mæli eindregið með því að ganga að honum og upp og út á pallinn. Þarna náði ég líka að vera ein, mætti einum sem var að koma niður þegar ég var að fara upp og svo voru tvö á leiðinni upp þegar ég fór niður, dásamlegur friður og ótrúlega endurnærandi að sitja og horfa á fossinn.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Álftavötn
4. ágúst
nr. 11:

Ferð nr. 11, 4. ágúst, Álftavötn, 3,06 km á 1:50 klst, mesta hæð 546 m, hækkun 89 m, byrjunarhæð 532.
Ég var mest að nýta þessa helgi til að keyra um Fjallabak, en auðvitað er nauðsynlegt að komast út og ganga með. Ég lagði bílnum rétt fyrir neðan vaðið á Syðri-Ófæru og gekk þurrum fótum yfir náttúrulega steinbrú sem þar rétt við. Magnað að sjá hvernig áin rennur niður í jörðina og kemur svo út á mörgum stöðum fyrir neðan steinbrúnna.
Ég gekk niður að skála Útivistar í Álftavötnum og stoppaði þar líklega hátt í klukkutíma í dásamlegu veðri, borðaði nesti og lá í sólbaði áður en ég gekk til baka. Mjög skemmtilegt tjaldstæði í Álftavötnum, ég ætla að tjalda þar einhvern tíma.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Laki gestagatan
5. ágúst
nr. 12:

Ferð nr. 12, 5. ágúst, Laki og Gestagata, 4,69 km á 01:42 klst, mesta hæð 924 m, hækkun 321, byrjunarhæð 694 m.

Ég sá að ef ég drifi mig frekar snemma af stað, myndi ég kannski ná Laka í björtu veðri og það rættist, en stuttu eftir að ég kom niður var útsýnið til austurs farið, svo ég var mjög heppin. Algjörlega geggjað útsýni af Laka og mjög skemmtilegar hraunmyndanir í Gestagötu.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Tjarnargígur, Eldborgarfarvegur og Stóri gígur
í Lakagígum
5. ágúst
nr. 13:

Ferð nr. 13, 5. ágúst, Tjarnargígur, Eldborgarfarvegur og Stóri gígur, 4,76 km á 01:12 klst, mesta hæð 671 m, hækkun 115 m, byrjunarhæð 636 m. Fyrst ég var komin þarna uppeftir, þá var ekki hægt að fara til baka án þess að ganga að Tjarnargíg og fyrst ég var komin að honum ákvað ég að ganga hringinn sem Landverðirnir höfðu bent mér á. Dásamlegt umhverfi sem ég mæli eindregið með að fara og skoða. Ég var ein að öðru leyti en því að það voru berrassaðir þjóðverjar að baða sig í Tjarnargíg.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Gjátindur
7. ágúst
nr. 14:


 

Ferð nr. 14, 7. ágúst, Gjátindur, 5,7 km á 02:06 km, mesta hæð 1061, hækkun 383 m, byrjunarhæð 794 m.
Þegar ég sá veðurspána kvöldið áður, þá búin að vera heima í einn dag, tók ég þá skyndiákvörðun að skella mér aftur upp á Fjallabak nyrðra og freista þess að ná Gjátindi sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Það tókst og þvílíkt útsýni maður minn, algjör, algjör dásemd. Í stað þess að fara aftur leiðina að Ófærufossi, þá nýtti ég mér það að sjálfsögðu að vera á jeppa og keyrði lengra uppeftir og enn og aftur var ég því ein í heiminum með allt þetta umhverfi í kringum mig, þvílík sæla!!!

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Drageyraröxl og Mórauðihnúkur Skorradal
10. ágúst
nr. 7:

Ferđ nr. 7. 10. ágúst. Drageyraröxl og Mórauðihnúkur í Skorradal.
Skrapp heim á Hvanneyri um helgina og ákvað að koma við á einhverju fjalli. Það var nokkuð vindasamt og skýjað á leiðinni svo ég hugsaði með mér að ég myndi ekki fara í neitt sérstaklega langa göngu. Ég stoppaði nokkrum sinnum á leiðinni og leit á fjöllin. Ákvað síðan að fara Draghálsleiðina í gegnum Svínadal úr Hvalfirði og grunaði að á vegi mínum yrði spennandi fjall. Ég leit aðeins í kringum mig í Svínadal e
n fann að mig langaði að fara yfir í Borgarfjörð og ganga þar. Þegar ég svo kem upp á Draghálsinn fer ég að hugsa um að ganga upp á Skorradalsháls en fannst hann einhvern ekki alveg nógu hár. Ég lít þá í hina áttina og sé Drageyraröxl og Mórauðahnúk rétt sjást úr skýjunum og ákvað því að ég skyldi ganga þar upp. Ég legg bílnum við Selskóg nálægt Litlu-Drageyri og legg í hann í gegnum kjarr og meðfram læk. Brátt fer brattinn að aukast og svitinn að spretta fram. Ég kem svo á efsta punkt sem líklega heitir Mórauðihnúkur í um 800 m hæð yfir sjávarmáli. Á leiðinni upp var ég farinn að gæla við að gera úr þessu hringleið þar sem það virtist nokkuð auðsótt. Ég hafði því augun á fjallshlíðinni hægra megin við mig á leiðinni upp en þar var að sjá hamrabelti sem virtist vera hægt að fikra sig niður um. Ég kastaði mæðinni á toppnum og snæddi nesti. Hélt svo áfram hringleiðinni og niður hamrabeltið. Niðurleiðin og hamrabeltið var hins vegar aðeins brattara og erfiðara viðureignar en mér hafði sýnst. Ég var kominn langleiðina niður þegar mér leist ekki lengur á blikuna og sneri því við upp og fann aðra betri leið niður. Mikið var um ber á leiðinni upp sem og niður, bæði kræki- og bláber og tíndi ég berin bæði beint ofan í mig sem og í poka.

Tæpar 3,5 klst. 7,5 km og 750 m hækkun. Lægsti punktur: 97 m, hæsti punktur: 800 m.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Eldborgarhraun og Lambafellsklofi
10. ágúst
nr. 15:

Ferð nr. 15, 10. ágúst, Eldborgarhraun og Lambafellsklofi, 6,36 km á 01:30 klst, mesta hæð 204 m, hækkun 222, byrjunarhæð 130 m.
Ég hef áður farið í Lambafellsklofa og svo á Trölladyngju og Grænudyngju, en aldrei gengið um hraunið og hreinlega aldrei fattað að það væru stígar þar. Þetta er skemmtileg leið, með skemmtilegum hraunbollum sem eru tilvaldir nestisstaðir. Þetta var undirbúningsganga fyrir hóp sem ég fór svo með þarna tveimur dögum síðar. Einhvern vegin tókst mér í flýtinum að gleyma því að taka myndir og tók bara þessa einu í lokin uppi á Eldborg.

-----

Jóhanna Fríða Dalkvist
Kringum Högnhöfða um Brúarárskörð ofl
1. september
nr. 16:

Ferð nr. 16, 1. september, Hringur um Högnhöfða, um Úthlíðarhraun, Svínahraun, yfir Hellisskarð, um Rótarsand, að upptökum Brúarár og meðfram Brúarárskörðum, 17,3 km á 4:15 klst, mesta hæð 506 m, hækkun 472 m, byrjunarhæð 230 m.
Úffff, hvar skal byrja... þetta er ferðasaga ársins sem verður ekki endurtekin af minni hálfu :-)
Daginn áður var planið að fara með Toppförum á Hábarm, Grænahrygg og um Jökulgilið í Landmannalaugar, en vegna veðurs frestaðist sú ferð yfir á sunnudaginn 1. sept, enda frábær veðurspá fyrir þann dag.
Ég var búin að hlakka mjög lengi til þessarar ferðar, þar sem bæði Fjallabak er í algjöru uppáhaldi hjá mér og akkúrat þessi leið er mjög sjaldan gengin.
Þegar frestunin var staðfest, dreif ég í að selja miða á tónleika sem ég átti á sunnudagskvöldið
(eða réttara sagt þegar ég mundi að ég átti miða á þá).
Það var svolítið notalegt að hafa laugardaginn til að græja sig fyrir gönguna og safna kröftum og ég fór snemma að sofa.
Það vildi svo ekki betur til en svo, að eftir um klukkutíma svefn byrjuðu læti í blokkar U-inu sem vöktu mig mjög reglulega næstu tvo til þrjá tímana, en þá mögnuðust lætin og gerðu það að verkum að ég svaf ekki neitt eftir kl. 3. Það varð því þannig að þegar klukkan hringdi kl. 4:45, þá var ég mesta lagi búin að ná 3ja tíma svefni í heildina.
Ég hef farið í erfiða göngu eftir smá pest og þá ekki upp á mitt besta, þar sem ég svo lenti í því að þurfa að láta halda á hluta af búnaðinum mínum part úr leið, á meðan ég jafnaði mig. Því vil ég með öllum ráðum komast hjá að lenda í aftur, ef ég mögulega get og lagði því ekki í þessa ferð.
Ég náði svo að sofna einhvern tíma eftir kl 6 og svaf til tæplega 9. Þá tók ég þá ákvörðun, horfandi á bakpokann tilbúinn og allt nestið, að ég skildi nýta veðrið og ganga hringinn í kringum Högnhöfða í sárabætur, enda þurfti ég að fara þetta í undirbúning fyrir göngu framundan með hóp.
Það var auðvitað ennþá hellings syfja og þreyta í mér, svo ég dólaði mér í rólegheitum við að borða morgunmat og koma mér af stað, enda allur dagurinn framundan. Á leiðinni austur fékk ég svo skilaboð um að sú sem ætlaði að nýta sér tónleikamiðana væri hætt við það...

Klukkan var orðin 12:20 þegar ég lagði af stað gangandi, vitandi að þetta væru um 17 km ef ég færi enga útúrdúra, þá tæki það með venjulegum njóta-gönguhraða mínum, hátt í sex klukkutíma, enda var planið líka að skoða tvenns konar leiðir frá upptökum Brúarár.
Þá var ég allt í einu komin í tímaþröng ofan á þreytu og svekkelsi... ég varð að vera komin í bílinn í allra síðasta lagi eftir fimm tíma, miðað við akstur heim, sturtu, smá sjæn, sækja mágkonu mína (sem var svo dásamleg að segja strax já við að koma með á tónleikana) í Breiðholt og svo niður í Hörpu á tónleika.
Ég vissi að síðasti fjórðungur leiðarinnar yrði seinfarnastur, svo ég ákvað að arka rösklega af stað og reyna að "eiga inni" tíma fyrir hann.
Þetta var mjög skrýtin ganga. Fljótlega kom í ljós að gengið yrði stærsta hlutann á vegaslóða, sem er mjög langt frá því að vera mitt uppáhald, svo auðvitað bættist það sem neikvætt ofan á allt hitt.
Þarna var ég alein, með 11 kg á bakinu (Fjallabakspökkun), þreytt, svekkt, í tímaþröng og ofan á allt saman ÞRAMMANDI Á VEGI!!! Er hægt að hafa það verra???
Ég komst hins vegar að því fyrir fullt og allt, að það er ekki hægt að vera í fýlu í göngu, ég gat svo sannarlega dáðst að útsýninu, tók 96 myndir (já ég taldi eftirá) og naut þess að vera ein í besta veðri sem hægt var að fá. Ég var samt einhvern vegin ekki glöð, eins og ég er vanalega í svona aðstæðum, erfitt að útskýra og líklega ekki hægt.
Ég gaf mér ekki tíma í útúrdúra, þar sem fyrsti valkostur var nokkuð ákjósanlegur fyrir tilvonandi hóp. Ég fór að upptökum Brúarár, þar upp á Högnhöfða, meðfram Brúarárskörðum sem eru auðvitað stórkostleg og niður í lautina góðu, en þá var stutt eftir í bílinn.

Þetta gerði 17,3 km á 4 klst og 15 mínútum, með 472 m hækkun og 11 kg á bakinu, sem þýðir að ég var að ganga þetta á næstum hraða sem ég geng á malbiki innanbæjar, eða 4,8 km/klst miðað við "moving time", en með stoppum (tvisvar nesti og svo myndatökur) var meðalhraðinn um 4,1 km. Enda segir Strava "Historic, Nicely done. This was a stronger effort than usual." :-) Ég skemmti mér hins vegar konunglega á tónleikunum um kvöldið, Raggi Bjarna bjargar öllu alltaf!!!  Á þriðjudegi gat ég svo farið að gera grín að sjáflri mér, samglaðst þeim sem komust að Fjallabaki og þakka fyrir að ég tuðaði bara við sjálfa mig, svo tuðið og ergelsið bitnaði ekki á neinum öðrum og engin vissi um það... ég veit að þið segið engum frá... :-)

-----

Ásta Henriksdóttir
Fagridalur Reykjanesi
9. september
Nr. 3:

Ókunnar slóðir nr. 3, 9. september. Ekki langt frá Kleifarvatni er Fagridalur. Hef lengi ætlað að rölta þangað því ég var forvitin að sjá hvers vegna dalur á þessum hrjóstrugu slóðum heitir Fagridalur, hvað það er við hann sem er svona fagurt. Komst að því að dalurinn ber nafn með rentu. Þegar ég nálgaðist hann opnaðist fagurfrænn gróðurfaðmurinn sem einhvern veginn var á skjön við landslagið all í kring. Ætlaði aðeins að ganga inn í botn dalsins en stóðst svo ekki þá freistingu að brölta upp úr honum. Fann stikaða leið upp úr dalnum og sýnist mér þessi leið vera hluti af Dalaleið. Þetta voru 9,11 km á 3:37 klst, mesta hæð 460 m og hækkun 250 m. Lægsti punktur 219 m.

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Stapatindar Sveifluhálsi
13. september
nr. 8:

Ferð nr. 8. Föstudagur, 13. september. Stapatindar í Sveifluhálsi.
Tók skyndiákvörðun í lok vinnu að skella mér í fjallgöngu. Fyrst datt mér í hug að fara einhvers staðar upp Esju en ákvað svo að fara ekki í svo mikla hækkun svo ég kæmi ekki allt of seint heim. Ég leit á kort heima og ákvað að stefna að Kleifarvatni. Lagði bílnum norðarlega vestan vatnsins við Innristapa. Þaðan gekk ég beinustu leið upp á hrygginn og þræddi svo tindana hvern á fætur öðrum þar til kom að Miðdegishnúk en hann virtist nokkuð óárennilegur norðan frá. Gekk þá niður af hálsinum og sneri við í átt að bílnum.
Rúmar 2 klst. 7,5 km og 600 m hækkun. Lægsti punktur: 148 m, hæsti punktur: 400 m.

-----

Björn Matthíasson
Vatnshlíðarhorn Reykjanesi
15. september
Nr. 6:

Sjötta gangan mín var á Vatnshlíðarhorn, fjallsbrúnina vinstra megin við Kleifarvatnsveg þegar ekið er frá vestri til austurs.
Frekar auðveld ganga, en í miklum stormi.

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Húsmúli Hellisheiði
23. september
nr. 9:

 

Ferð nr. 9. Mánudagur 23. september. Húsmúli á Hellisheiði.
1,5 klst, 6 km, 350 m hækkun. Lægsti punktur: 300 m. Hæsti punktur: 615 m.
Ákvað að skella mér á fjall eftir vinnu ekki síst þar sem ég hef verið einum mánuði á eftir áætlun frá byrjun í þessari áskorun. Ég leit á kort á ja.is um daginn og eftir smá skoðun ákvað ég að ganga á Húsmúla í Henglinum. Það leit út fyrir einhverja rigningu skv. veðurspá en mér sýndist hún eiga að minnka eitthvað um kl. 18:00. Ég lagði því a
f stað eftir vinnu og keyrði í smá rigningu og pínu þoku inn á afleggjarann hjá Hellisheiðarvirkjun og inn á bílastæðið við Sleggjubeinsdal. Rigning var enn þá og ég vonaðist til að henni slotaði þegar ég væri lagður af stað. Klæddi mig því í regnfötin og arkaði af stað. Ég gekk hringleið, fór upp vestan megin og fylgdi stikaðri slóð sem líklega liggur yfir á Nesjavelli. Fór af henni og upp á topp Húsmúla. Það rigndi stöðugt allan tímann og kólnaði ég nokkuð á toppnum og ákvað að staldra ekki lengi þar við enda komin svolítið þoka. Sneri því niður og fylgdi Sleggjubeinsskarðinu niður á bílastæði. Kom nokkuð blautur og kaldur enda rigndi allan tímann. Tók bara eina mynd þar sem ég vildi vera að taka upp símann í óþarfa.

-----

Björn Matthíasson
Hestfjall Suðurlandi
30. september
Nr. 7:


Sjöunda gangan mín var á Hestfjall, þ. 30. september. Þetta var í þriðja skipti sem ég reyndi við þetta fjall. Fyrst með Siggu og Heimi fyrir nokkrum árum, en þá fundum við ekki uppgöngustaðinn. Annað skipti í janúar sl., en þá sneri ég við vegna snjóþyngsla eftir að hafa gengið mestalla leiðina upp vestan megin frá. Þriðja og síðasta tilraunin heppnaðist. Þá gekk ég frá bænum Vatnsnesi, ók þar inn á tún og vestan megin við fjallið þar til ég kom að gamalli sandnámu með aflagðri skurðgröfu og hóf þar gönguna.
Fjallið er ekki hátt, 317 metrar. Brekkan mest gróin grasi og mosa. Talsvert um ber.
Mjög gott útsýnisfjall. Sést yfir allan fjallahringinn frá Eyjafjallajökli, Heklu, til fjalla vestan Kjalar, til Högnhöfða og allra fjalla til Ingólfsfjalls. Útsýnið gerist vart betra.

-----

Björn Matthíasson
Laugafell við Geysi og Miðfell við Flúðir
21. september
Nr. 8 og 9:

Fjöll nr. 8 og 9 voru gengin á sama deginum, Laugafell við Geysi og Miðfell við Flúðir 21. september.
Hvorutveggja lágreist fjöll en sérstæð á sinn hátt.
Laugafellið er hæðin beint fyrir ofan Geysi. Margir ferðalangar ganga á þetta fell.
Það er eins og að vera á mauraþúfu, svo fjölmennt var á fjallinu, og ég eini Íslendingurinn.



Miðfellið var önnur saga.
Þar gekk ég einn upp á grasi gróið fjallið, með fallegt fjall nálægt tindinum.
Merkilegt hvað fjöll á Suðurlandi eru gjarna með vatn nálægt tindinum, t.d. Vörðufellið og Búrfell í Grímsnesi. Og vötnin eru veiðivötn.

-----

Björn Matthíasson
Hagafjall
6. október
Nr. 10:

Tíunda fjallið mitt var Hagafjall 6. október, notalegt fjall beint fyrir ofan Gaukshöfða. Grasi grónar brekkur alla leið upp.
Lagt af stað frá býlinu Haga, gengið framhjá hlöðu og gripahúsi, klöngrast yfir rafmagnsgirðingu og þaðan beint upp.
472 metrar á um 1,5 klst.

-----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Eyrarfjall í Kjós
19. október
nr. 10:

Ferð nr. 10. Laugardagur 19. október. Eyrarfjall í Kjós
Eftir smá veikindi í vikunni fann ég að ég var orðinn ágætur þennan morgun. Ákvað því að bregða mér í 10. gönguna í þessari áskorun. Keyrði að Hvalfjarðareyri í Hvalfirði þar sem ég lagði bílnum og arkaði af stað upp á Eyrarfjall. Fann að þetta tók aðeins meira á en venjulega og var ég farinn að svitna talsvert þegar ég var kominn aðeins áleiðis. Tók því að fækka fötum. Það var ákaflega kyrrlátt og fallegt um að líta þarna uppi og fínasta útsýni yfir Hvalfjörð. Ég dólaði mér eitthvað á toppnum, snæddi smá harðfisk og rúsínur og arkaði svo niður svipaða leið.
2 klst., 6,5 km, 484 m hækkun. Lægsti punktur 24 mys. Hæsti punktur 476 mys.

----

Davíð Rósenkrans Hauksson
Innri og Ytri Svartitindur og Rauðuhnúkafjall
2. nóvember
nr. 11:

Ferð nr. 11. Laugardagur 2. nóvember. Innri og Ytri svartitindur, Rauðuhnúkafjall.
Lagði af stað um 10 um morguninn áleiðis í Borgarfjörðinn. Beygði inn afleggjarann í Andakíl rétt áður en komið er að Borgarfjarðarbrúnni. Keyrði áleiðis að bænum Árdal þaðan sem ég lagði í hann með Tungukoll og Hafnarfjall á hægri hönd um kl. 11:30. Í hönd fór í raun fyrsta alvöru fjallgangan hjá mér í þessari áskorun hvað lengd varðar. Þegar komið var upp í svona 650-700 m hæð fór undirlagið
að verða hált en ég hafði ákveðið að geyma keðjubroddana í bílnum. Brattinn var þó aldrei það mikill að af stafaði hætta. Veður var gott og milt og var gott útsýni yfir Borgarfjörð, Mýrar og út á Snæfellsjökul, út á Akranes, Grundartanga og til Reykjavíkur og á Eiríksjökul, Ok og Þórisjökul. Leiðin niður var nokkuð góð og var ég kominn að bílnum um kl. 16:00 eftir um 15 km göngu með nokkuð jafnri hækkun og lækkun.

4,5 klst., 15 km, 1000 m hækkun. Lægsti punktur 5 mys. Hæsti punktur 790 mys.

-----

Ásta Henriksdóttir
Fjallahringur Arnarvatns Sveifluhálsi
4. desember
nr. 4:

Ókunnar slóðir nr. 4, 6. desember. Eftir smá spark í rassinn frá þjálfara hrökk gamla maskínan í gang og hélt á fjall. Ók af stað í áttina að Kleifarvatni og hafði ekki hugmynd um hvar ég myndi stoppa og setja undir keðjurnar. Endaði við Seltún um það leyti sem sólin var að setjast og hugsaði með mér að það hefði nú verið gáfulegra að vera aðeins fyrr á ferð. Datt í hug að rölta á Hatt en fór framhjá honum (held ég) upp að Arnarvatni. Þá var nú farið að rökkva töluvert en fegurðin sem umvafði mig var endurnærandi. Ég rammaði inn nokkur abstrakt málverk áður en myrkrið skall endanlega á.
Þetta voru 6,4 km á 2:09 klst. Mesta hæð var 378m, lægsti punktur var 209 m og hækkun var 202 m.

-----

Samantekt frá upphafi:

Ísleifur Árnason búinn með 12 af 12:
Lokið !
Bæjarfell og Arnarfell Krýsuvík í janúar
Fagradalsfjall og Borgarfjall Reykjanesi í janúar
Búrfell Grímsnesi í mars
Dragafell við Skorradal í mars
Brennisteinsfjöll við Grindaskörð í apríl
Fagraskógarfjall 1. maí
Drápuhlíðarfjall 26. maí
Kerlingarfjall 26. maí
Þverfell við Reyðarvatn 10. júní
Kýpur Cyclops hellarnir 23. júní
Suðurnámur 15. júlí
Lambatindur Árneshreppi 3. ágúst.

Jóhanna Fríða Dalkvist búin með 12 + 4 = 16:
Lokið !

Þyrill 9. júní
Löngubrekkur og Þjóðhátíðarlundur 10. júní
Hafravatnshringur 16. júní
Hulduhóll, Torfdalshryggur, Hjálmur og Nessel 24. júní
Kerlingarfjöll að Kerlingu 29. júní
Hveradalir Kerlingarfjöllum 30. júní

Brúarárskörð að upptökum og áleiðis á Högnhöfða 6. júlí
Skarðshyrna og Heiðarhorn 8. júlí
Syðri Ófæra og Silfurfoss 3. ágúst
Eldgjá og Ófærufoss 3. ágúst
Álftavötn 4. ágúst
Laki Gestagatan 5. ágúst
Laki Tjarnargígur, Eldborgarfarvegur og Stóri gígur 5. ágúst
Gjátindur 7. ágúst
Eldborgarhraun og Lambafellsklofi 10. ágúst
Kringum Högnhöfða um Brúarárskörð ofl. 1. september

Davíð Rósenkrans Hauksson búinn með 11 af 12:
Búrfell Grímsnesi í febrúar
Smáþúfur Blikdal í mars
Meðalfell í apríl
Grímarsfell og Dalsrétt í Kjós 11. maí

Eldborg, Drottning, Stóra Kóngsfell 8. júlí
Þakgil upp á Miðafrétt 28. júní

Drageyraröxl og Mórauðihnúkur Skorradal 10. ágúst
Stapatindur Sveifluhálsi 13. september
Húsmúli Hellisheiði 23. september
Eyrarfjall í Kjós 19. október
Innri og Ytri Svartitindur og Rauðuhnúkafjall 2. nóvember

Björn Matthíasson búinn með 10 af 12:
Stóra og Litla Lambafell, Bæjarfell og Arnarfell Reykjanesi
Geitahlíð Reykjanesi 8. apríl
Vatnshlíðarhorn Reykjanesi 15. september
Hestfjall Suðurlandi 30. september
Laugafell við Geysi og Miðfell við Flúðir 21. september
Hagafell Suðurlandi 6. október

Ásta Henriksdóttir búin með 4 af 12:
Þyrill 18. júlí
Háibjalli og Snorrastaðatjarnir 25. júlí
Fagridalur 9. september
Fjallahringur Arnarvatns Sveifluhálsi 4. desember

Anna Jóhanna hætti við:
Fragafell ofan Seljalandsfoss í mars
Hætti í áskoruninni
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir