Þórðarhyrna á Barðaströnd
"Í túninu mínu"
Toppfaraáskorunin árið 2020
Steinar Ríkharðsson
Fyrir þessa áskorun ætla ég að leyfa mér að sveigja reglurnar aðeins
og skrifa um svæði sem ég kynntist ekki fyrr en á fullorðinsárum.
Ég er uppalinn á Hvanneyri í Borgarfirði og þykir að sjálfsögðu
mjög vænt um það svæði. Á unglingsárum fór í nokkrar fjallgöngur á
þeim slóðum en göngubakterían gerði ekki vart fyrir sig af alvöru
fyrr en þó nokkru síðar. Þegar ég kynntist eiginkonu minni upp úr
tvítugu fylgdi með í pakkanum að dvelja í fríum hjá foreldrum hennar
sem voru bændur á Breiðalæk á Barðaströnd. Með tímanum tók ég miklu
ástfóstri við þetta svæði og má segja að þarna hafi áhuginn á göngum
kviknað fyrir alvöru. Þannig að mér finnst óhætt að segja að fyrir
mig sem göngumann séu þetta á sinn hátt mínar heimaslóðir.
Barðaströndin hefur upp á margt að bjóða fyrir göngufólk, hvort sem
maður er að leita eftir göngum á fjallstinda, fara gamlar
þjóðleiðir, eða bara njóta kyrrðarinnar í ósnortinnar náttúru.
Samgöngur nútímavæddust tiltölulega seint þarna og ótrúlega stutt í
raun síðan fólk fór þarna fótgangandi yfir heiðar í hversdagslegum
erindum. Afi eiginkonu minnar, Kristján Þórðarson fæddur 1925, er
uppalinn þarna í sveitinni og hefur haft frá mörgu að segja frá
fyrri tíð. Hann skrifaði fyrir nokkrum árum litla bók með syni
sínum sem kallast Vegir og Vegleysur með frásögnum, minningum og
staðháttalýsinum tengd samgöngum um sveitina fyrr á árum. Fyrir
nokkrum árum skrifaði Elva Björg Einarsdóttir, ættuð frá Seftjörn,
býsna yfirgripsmikla göngubók um Barðastrandarhrepp og heldur úti
heimasíðu með lýsingum á gönguleiðum um svæðið, (www.bardastrandarhreppur.net).
Ég ákvað fyrir þessa áskorun að velja einhverja góða leið um þessar
slóðir til að skrifa um, einhverja fjölbreytta og aðgengilega
gönguleið. Fyrir valinu var ganga á Þórðarhyrnu á Hagafjalli,
gengið upp Miðhliðardal og niður Hagadal. Þessi leið liggur um
slóðir sem ég hef margoft farið um í ýmsum útgáfum. Ég gekk því
þessa leið í ágúst nú í sumar hér á eftir kemur lýsing á leiðinni.
Horft inn Miðhlíðardal
Leiðin hefst í mynni Miðhlíðardalsins, vestan við ánna, þar sem hægt
að keyra upp afleggjara að bænun Hrísnesi. Leiðin liggur upp
Miðhlíðardalinn sem er þröngur og með jöfnum halla upp í mót, og
víða er hægt að fylgja kindagötum. Í dalbotninum rennur
Miðhlíðará, á köflum í all djúpum giljum með skemmtilegum bergöngum
og fossum. Yfirleitt þegar ég hef verið þarna á ferðinni hefur
verið lítið í ánni eins og verða vill á sumrin, en í þetta skipti
höfðu verið töluverðar rigningar skömmu áður og áin því öllu
svipmeiri en ég hafði séð hana áður.
Selkollufoss í Miðhlíðardal
Í botni Miðhlíðardals
Í um 350 m hæð tekur dalurinn afgerandi enda og við tekur aflíðandi
heiði, og maður tekur stefnuna í norð-austur á um það bil lægsta
hluta fjallshryggjarins sem teygir sig frá Haukabergsfelli að
Múlahyrnu, þar sem Þórðarhyrna og Hagatafla er hæstu punktarnir.
Þegar ég geng um heiðarnar þarna er ég oft á útkikki eftir
fjallagrösum og á þessu svæði rambaði ég fram á rambaði ég eitt árið
fram á það mesta sem ég hef nokkru sinni séð. Eftir aflíðandi
göngu inn eftir heiðinni leitar maður uppgöngu á hrygginn þar sem
hentugt er og heldur svo áfram norður eftir háhryggnum, sem er
stórgrýttur á köflum, í átt að hátindinum, Þórðarhyrnu.
Varðan á toppi Þórðarhyrnu. Skarðabrúnir í
baksýn
Þórðarhyrna er 608m há, sjónarmun hærri en Hagatafla. Af
Þórðarhyrnu sést vel yfir fjöll og heiðar sem umlykja hina eiginlegu
Barðaströnd. Til vesturs er fjallshryggurinn Skarabrúnir sem skilur
að Barðaströnd og Rauðasand og þar innar í landinu Kleifaheiði. Til
norðurausturs er nokkuð víðfeðm heiði sem kallast vatnadalir og upp
af þeim vatnaskil yfir í Arnarfjörð, þar sem hæst rísa Skarðsfell og
Hádegisfjall. Fjær glittir í Hornatær og Lónfell og fjöll norðan
Arnarfjarðar. Til austur rís Hamarsfjall hæst út við ströndina.
Vatnadalir. Skarðsfell og Hádegisfell
fyrir miðri mynd
Eftir stopp á fjallstindinum liggur leiðin niður hinu megin, til
norðausturs niður í Hagavatnadal. Þægilegt er að fylgja misgengi
sem liggur í ANA frá tindinum niður í dalinn. Þegar komið er niður
í um 400 m hæð fylgir maður hlíðinni til austurs í c.a. 1,5 km þar
til komið er framfyrir Fellsfót sem kallaður er og þá er beygt til
suðurs niður í botn Hagadals. Nálægt þar sem tvær meginkvíslar
renna saman í Hagaánna eru þústir af seljum sem hér hafa verið á
öldum áður, og hafa greinilega verið allmikil mannvirki. Ekki hef
ég tölu á því hversu oft ég hef komið hér við. Þarna nærri er smá
graseyri við ánna þar við fjölskyldan fórum í tjaldútilegu fyrir
margt löngu, og maður getur ekki annað en litið þar við.
Tóftir Seljanna í borni Hagadals
Eins og fyrr sagði eru árnar þarna oftast frekar rýrar á sumrin og
vandræðalítið að komast yfir Hagaánna en í þetta skiptið var það
þrautin þyngri að finna stað til að stikla þurrum fótum yfir. En
þegar það hafðist liggur leiður eftir fjallshlíðinni út dalinn.
Innri hluti hlíðarinnar kallast Smjörhlíðar en utar Drangahlíðar
eftir klettadröngum sem myndast hafa úr mjóum berggangi sem gengur
út úr hlíðinni. Efst er nokkuð áberandi hak ofan í bergganginn og
sögur segja að fífldjarfir piltar hafi stokkið þarna yfir þegar menn
hafa verið þarna á ferð í smalamennskum.
Drangarnir
Á þessum slóðum í dalnum voru á árum áður geymd þarfanaut
sveitarinnar í girðingu. Það var víst ekki alltaf einfalt mál að
drösla þaðan gömlum tuddum um sveitina. Þegar um kílómetri ef eftir
á göngunni út dalinn kemur maður að smálæk sem rennur niður úr
Skálargili og þar fyrir ofan er allstór hvilft í fjallinu sem
kallast Heimri-skál, þar sem “heimri” merkir ytri eða ysti. Þarna
upp í “skálina” hef ég rölt ótal sinnum og þar er nánast hægt að
ganga að logni vísu. Þarna um skálina liggur líka stysta leiðin
þegar gengið er á Hagatöflu.
Síðasti spölurinn liggur meðfram skógræktargirðingu, þar sem
tengdaforeldrar mínir hafa staðið í ræktun undanfarin ár, og svo
niður gömlu heimreiðina að Breiðalæk frá því þjóðvegurinn lá ofan
við bæinn.
https://www.wikiloc.com/hiking-trails/thordarhyrna-a-hagafjalli-54670399
Samtals gera þetta um 16 km með 600 m hækkun, í þægilegu göngulandi
að mestu leyti. Hagaáin er sjaldnast farartálmi eins og í þetta
skiptið, a.m.k. að sumri til, en þá er alltaf valkostur að þvera
hana í tveimur minni kvíslum ögn innar í dalnum.
|