Æfingar alla þriðjudaga frá janúar til mars 2008
birt í öfugri tímaröð:
Friðsæll vetur og fyrsta vorið...

Mosfell 25. mars
Helgafell Hf 18. mars
Reykjaborg 11. mars
Æsustaðafjall og Reykjafell 4. mars
Þverfellshorn 28. febrúar
Helgafell Mosó 19. febrúar
Úlfarsfell 12. febrúar
Esjan 5. febrúar
Esjan 29. janúar
Esjan 22. janúar
Esjan 15. janúar
Esjan 8. janúar

41. æfing var á Mosfell þriðjudaginn 25. mars og mættu 19 manns, þar af tvö ný, þau Hildigunnur og Jens og svo hann  Helgi Freyr, 10 ára á sinni annarri æfingu.

Þetta kvöld var meiri vetur en sést hefur í nokkrar vikur á æfingum eða skýjað, talsverður vindur og lítils háttar snjókoma með skafrenningi ofar, eða A6 og -1°C.

Gengið var frá Mosfellskirkju sunnan með Mosfelli og í norður upp með austara gilinu sem ónefnt er, en mun austar kallast gilið þar Kýrgil.

Fara þurfti undir eina girðingu sem var að falli komin við gilið, en annars var leiðin greið og þægileg þó þjálfari reyndi að þyngja þetta eitthvað með hnúkabrölti eins og við var komið.

Ganga.is er með skilti við bílastæði kirkjunnar en hvorki höfðu þjálfarar í fyrri könnunarleiðangri komið auga á slóða né stikur og ekki fundu þjálfarar leiðarlýsingu á vef þeirra www.ganga.is sem þó gefur urmul gönguleiða sem gott getur verið að styðjast við ætli menn sér að ganga á eigin vegum þar sem ekki hefur verið farið um áður... þó auðvitað sé alltaf ævintýri að ganga bara eftir eigin nefi.

Sunnan með fellinu sést í slóða sem hefur yfir sér kindagötuyfirbragð og virðist ekki leiða til göngutúrs um fellið. Kannski er slóði þarna sjáanlegur að sumri til en eins er líklegt að Mosfellið sé ekki það fjölfarið að mannskepnunni hafi tekist að marka varanleg spor á það.

Mosfellið kannski ekki nógu spennandi ganga, en þjálfarar eru ósammála því. Það er skemmtilegast að kanna alla króka og kima landslagsins og fellið hentar vel á þessum árstíma þegar veturinn frekjast enn um lönd og fell með tilheyrandi leysingum og óskemmtilegu færi á stundum.

Mosfellið leynir á sér eins og önnur fell í nágrenni Reykjavíkur og er skemmtilegt heimsóknar yfir hnúka og gil gegnum möl, mosa og klappir.

Útsýnið er eftir þessu gjöfult yfir fellin í Mosfellsbæ; Grímmannsfell, Æsustaðafjall, Reykjafell, (Úlfarsfell) og Helgafell til suðurs og svo Esjufjallgarðurinn tignarlegur til norðurs með Kerhólakambi vestast, Þverfellshorni séð suðaustan frá, Kistufellið gnæfandi yfir okkur, Þverárkotsháls og svo Móskarðahnúkarnir göldróttu og loks Skálafellið sem lítið sumrar á finnst manni nema kannski einn mánuð á ári...

Veðrið var napurt þetta kvöld og vindkælingin talsverð en hressileg útiveran feykti eftirtektinni af slíku út í veður og vind og við nutum þess að ganga við frásagnir hver annars af nýafstaðinni páskahelgi þar sem margir í hópnum klifu fjöll og söfnuðu kílómetrum í fæturna á skokki eða göngu.

Keilir, Kerhólakambur, Grótta, Þverfellshorn... og örugglega fleiri leiðir sem þjálfari frétti ekki af og...

... og Þverkotsháls á Esjunni sem blasti við okkur þetta kvöld og var á afrekalista meðlima en hér segir Þorbjörg félögum sínum frá göngu hennar og Grétars Jóns þá leiðina á föstudaginn langa þegar sumraði einn dag um páskana...

Ganga þeirra var ævintýraleg og krefjandi áskorun frá Tindstöðum í Miðdal upp eftirTindstaðafjalli að hæsta tindi Esjunnar, Hábungu í 914 m hæð og svo niður með Hátindi (sem eitt sinn var talinn hæsti tindur Esjunnar, 909 m) og niður með Þverkotshálsi (455 m) að Skeggjastöðum.

Samtals 20 km leið á 10 klst. þar sem notast var við brodda og ísaxir og skriðið á fjórum fótum á verstu hryggjunum...

Heillandi frásögn Þorbjargar í máli og myndum er á leiðinni á veraldarvefinn... ef þjálfari getur sannfært höfund um að koma því þangað og verður það fyrsta frásögnin í safn félaganna sem vísað verður í frá þessum vef, öðrum til skemmtunar, fróðleiks og hvatningar til þess að leggja í hann með alla þá reynslu sem safnast upp við það að ganga reglulega á fjöll við allar aðstæður.

Komið á vefinn - sjá: http://www.123.is/fingurbjorg
og er slóðin komin undir tenglar þar sem fleiri síður toppfara eru.

Hópurinn hér að skoða fjallasýnina til norðurs af einum af nokkrum góðum útsýnisstöðum Mosfellsins.

sumri til er Mosfellið tvímælalaust dásamleg ganga fyrir alla fjölskylduna með tignarlegum fjallasal  allt um kring og spennandi landslagi fyrir krakka til að dóla sér um.

Norðan megin á Mosfelli með Kerhólakamb Esjunnar í baksýn og Esjufjallgarðin í fanginu sem var synd að geta ekki skoðað í friðsæld logns og betra skyggnis.

Helgi Freyr og pabbi Grétar Jón skoðuðu klettana neðar í hlíðinni og á Helgi sjálfsagt eftir að læra það af pabba sínum að fara ótroðnar slóðir án þess að hika...

þannig verða nefnilega alvöru fjallamenn til...

Betra veganesti fyrir lífið er líklega ekki hægt að gefa stráknum sínum...

Við veltum vöngum yfir ánum eftir dal Kollafjarðar en þar rennur rétt til getið af þeim sem hana nefndi Leirvogsá en í hana renna Þverá frá Þverárdal og Stardalsá úr Stardal sem aðskilur Móskarðahnúka og Skálafell og er Tröllafoss hinn fagri innar í dalnum suður af Móskarðahnúkum.

Mættir á Mosfellið:

... í köldu roki en auðvitað brosandi...

Efri frá vinstri: Guðmundur Ólafur, Halldóra Á., Roar, Páll, Örn, Þuríður, Soffía Rósa, Jens, Sigríður E., Heiðrún og Helga Sig.

Neðri frá vinstri: Alexander, Íris Ósk, Hildigunnur, Ingi, Þorbjörg, Helgi Freyr, Grétar Jón og Bára bak við myndavél.

Ingi og Örn á spjalli með Kistufell Esjunnar í baksýn.

Sjá mátti vel þetta kvöld hvernig vetrarharkan eykst ofar hlíða; Grímmannsfellið sem er yfir 400 m var mun hvítar af snjó en Mosfellið og þokukennt af skafrenningi eins og Esjan, Móskarðahnúkar og Skálafell...

...Á meðan Mosfellið og önnur lægri fell í nágrenningu sem rétt ná sum yfir 200 m, voru auð og tiltölulega friðsæl í samanburði.

Það vetrar stundum bara við það að aka Þingvallaveginn frá borginni við sjávarmál og upp í land Þingvallasveitarinnar með kannski 1-200 m hækkun...

Þegar búið var að þræða norðurhluta Mosfellsins og enda á hæstu punkum vestan megin var gengið sunnan með fellinu með útsýni yfir vestursveitir Mosfellsdals. Þar voru rollur á beit um páskana á bænum Hrísbrú?, en voru væntanlega í skjóli fyrir vetrarnæðingnum að sinni.

Færið var gott, jörðin að mýkjast og ekki hált að ráði. Í meiri hæð og eftir hláku og frost getur þetta orðið að einu svelli eins og Roar og Halldóra lentu í á Kerhólakambi um páskana.

Á Mosfellinu á páskadagsmorgun lentu þjálfarar í frostrigningu í orðsins fyllstu merkingu þar sem allt hélaði um leið og það féll á mann og varð að litlum glitrandi klökum utan á flíkunum, steinarnir glerhálir og allt spegilsleipt svo minnti á Skarðsheiðina í nóvember.

Svona breytist færið hratt á þessum tíma og er oft erfiðast síðla hausts og snemma vors þegar mestu leysingarnar eru. Barátta vetrar og sumars í algleymingi svo auðvitað skilar það sér í tætingslegri færð og úfnasta veðrinu sem oft ríkir á þessum árstíðaskilum, okt/nóv og svo mars. Þau skiptast svo bróðurleg á að sigra, sumarið og veturinn.

Gengið niður einn hnúkinn í lok göngunnar með bæinn Sigtún?  sunnan megin í baksýn.

Alexander, Roar og Guðmundur sem allir ætla á hnúkinn og var undirbúningur fyrir hann meðal annars í umræðunni þetta kvöld.

Hópurinn svo á eftir í grjótskriðunni á næstu mynd fyrir neðan.

Fínasta æfing á saklausu felli og vert að minna á að þó fjöllin séu ekki há eða göngurnar langar, þá fáum við alltaf +/- 2 kls.t af útiveru og hreyfingu í fjölbeyttu undirlagi og veðrumst þannig í hvert sinn á sál og líkama.

 Líkaminn fær þau skilaboð að fjallganga sé  verkefni hversdagsins og gætir þess að halda sér í formi, svo þegar þyngri göngur eru á dagskrá þá eru þær lítið mál fyrir vana menn, þó þær séu mun meira krefjandi en æfingarnar.

Reglulegar fjallgöngur þjálfa ekki eingöngu stoðkerfi, vöðva, sinar og liðamót, hjarta- og æðakerfi og lungu heldur og taugakerfið; Miðtaugakerfið og úttaugakerfið þurfa að temja sér hagkvæmustu leiðina til að takast á við margslungið verkefni göngu við alls kyns aðstæður... að tipla yfir steina, klöngrast upp kletta, fóta sig niður skriður, arka yfir snjóskafla, munda göngustafi, halda jafnvægi á ójöfnu undirlagi... og nýta sem best og spara vöðva, vökva, orku eins og hægt er í leiðinni...

Þetta er heilmikil samhæfing margra þátta líkamans og flókið lífeðlisfræðilegt verkefni sem taugakerfið þarf að fá að takast á við með nokkrum tilraunum og sýnir það framfarir í hvert sinn þessi fyrstu skipti.

Fyrsti árangur allrar þjálfunar (árangurinn sem skilar sér strax á fyrstu 2 vikunum t. d. ) er enda alltaf framfarir taugakerfisins fyrst og fremst sem nær fyrst allra líkamskerfa betri tökum á álaginu.
Eftir fjórar vikur er t. d. árangur lyftinga 40% frá taugakerfi og 60% frá vöðvum. Eftir átta vikur hefur taugakerfið þroskast eins og það getur miðað við viðkomandi álag og vöðvarnir skila 100% af þeim árangri sem þá næst.

Þetta þýðir að síðar en tvær vikur eftir að þjálfun hefst fylgja framfarir í vöðvum, lungum, hjarta- og æðakerfi sem menn telja ranglega oft að séu þau kerfi sem skili þessum fyrsta árangri. Þess vegna þarf að halda út í nokkrar vikur þar til formið er raunverulegra orðið betra, þá fer álagið að minnka, menn taka oft stökk í framförum og engin bönd halda þeim eftir það.

Þeir sem ná þessum þröskuldi er yfirleitt borgið og þeir halda sér jafnvel í formi út ævina ef lífsstíllinn samræmist þessari nýju hreyfingu og er unun að sjá þetta hjá fólki fram eftir öllum aldri. Þeir sem ekki ná þessum tímapunkti þegar árangurinn kikkar virkilega inn, gefast gjarnan upp og reyna jafnvel aldrei aftur. Eða þeir hjakka reglulega í þessu fyrsta ferli að koma sér af stað og taugakerfið skilar jú strax smá skyndiárangri, en þeir ná ekki að endast tímabilið sem svo tekur við þegar vefirnir hafa aðlagast álaginu og taka að breytast til að byggja upp bera form, og þeir gefast upp.

 Þolinmæði og þrautsegja eru virkilega eiginleikar sem skila sínu og borga sig margfalt því upphafsbaráttan þarf bara að fara fram einu sinni..

"Besta leiðin til þess að halda sér í formi er að detta aldrei úr formi"

Þannig þarf maður aldrei að fara aftur á reit 1... Þetta er eins og fjallganga frá sjávarmáli. Í upphafi þarf maður að ganga alla leið þaðan (koma sér í form), og þeir sem ná alla leið á tindinn, geta haldið sér í góðu formi með því að tipla bara milli hnúka, tinda og hryggja fjallanna allt um kring og þurfa ekki að fara alla leið niður í sjávarmál til að sigra næsta tind... (eru í góðu formi).  Þeir sem ekki halda sér við renna niður fjallsræturnar og þurfa að leggja í hann aftur í núll metrum yfir sjávarmáli enn og aftur... (detta úr formi).

Helgi Freyr hér var í lok æfingarinnar hættur að finna til í fætinum en hann datt og meiddi sig nokkuð á sköflungnum.

Hann tók með sér heim stórar íshellur með fallegu mynstri sem enduðu sjálfsagt í frystinum hjá Grétari Jóni... Þar fer hæfileiki barnanna til að sjá fegurðina í hinu smáa á göngu sem þessari.

Nokkuð sem maður má alveg leyfa sér líka þegar maður er orðinn stór og óþarflega upptekinn eins og við fullorðnu erum gjarnan þegar við örkum áfram gegnum bæði lífið og eins göngur sem þessar.

Æfingin endaði í 4,1 km á 1:37 mín upp í 289 m (285/275) með hækkun upp á 211 m (uppsöfnuð hækkun upp og niður hnúka var 339 m).

Frábær æfing í hressandi vetrarveðri og algerri dagsbirtu alla leið.

Sólsetur var kl. 19:55 þetta kvöld og við sjáum því ekki myrkur á æfingu fyrr en næsta vetur...

Sumartímabilið hefst 1. apríl og þá fara göngurnar að lengjast með hækkandi sól og björtum kvöldum svo maður tímir ekki heim og inn eins og  gerðist þetta kvöld þrátt fyrir kuldann. Hver stendur eiginlega í frosti eftir 1,5 klst göngu í ísköldum næðingi og finnst synd að fara inn í bíl...? Nokkrir svoleiðis voru á Mosfelli þriðjudaginn 25. mars...

 

40. æfing var þriðjudaginn 18. mars á Helgafell í Hafnarfirði og mættu 21 manns, þar af hann Einar Logi, 7 ára sem hefur mætt reglulega í allan vetur og Hanna sem var að prófa að koma á æfingu.

Veðrið var milt og lygnt og útlit fyrir sólarlag þar sem það hafði sést mikið í heiðan himinn fyrr um daginn eða hálfskýjað, SA3 og +2°C.

Gengið var austur frá Kaldárbotnum upp hnúkana suðvestan megin (sjá fyrstu mynd) og svo eftir botninum að nyrðri öxl fellsins.

Þar er leiðin greið upp með slóða og var ljóst að Helgafellið í Hafnarfirði er líklega næstvinsælasta fjallið í nágrenni Reykjavíkur á eftir Esjunni ef marka mátti sporin og það fólk þarna var á sama tíma og við.

Helgafellið er enda fjölskylduvænt, byrjar með þægilegri göngu á jafnsléttu og svo breytilegum og öruggum slóða alla leið með óskaplega fallegu umhverfi allt um kring, sérstökum klöppum og jarðvegi að ekki sé talað um útsýnið...

Árshátíðin var á vörum manna og var gaman að hittast og viðra hana saman.

Hópurinn var þéttur við fjallsrætur með Valahnúka og Húsfellið til norðurs og var veðrið dásamleg enn einu sinni í þessum klúbbi.

Á uppgönguleiðinni skiptist hópurinn í tvennt en Örn leiddi gönguna og Bára fylgdi þeim sem á eftir komu.

Einar Logi tók þetta auðvitað í nefið... ungur fjallamaður með reynslu...

Vonandi fara fleiri börn að sjást á æfingum því ganga eins og þessi þetta kvöld er tilvaliin fyrir stálpaða og hrausta krakka sem njóta þess mikið að vera með foreldrum sínum úti við.

Hér er hópurinn þéttur með Valahnúka í baksýn.

Húsfellið og Valahnúkar eru á dagskrá síðar en þó er spurning hvort við göngum Búrfellsgjár megin... sjáum til síðar.

Dásamlegt gönguveður enn og aftur...

Hvers vegna erum við svona heppin?

Er manni kannski verðlaunuð eljan þegar allt kemur til alls af ærði máttarvöldum eða kannski bara náttúrunni sjálfri sem tekur ofan fyrir fólki sem heimsækir hana allt árið um kring?

Stundum hringi síminn og menn eru jafnvel að fjarstýra vinnunni á fjallgöngunum...

Um að gera frekar en að missa af æfingu...

Þeir sem gengið hafa í allan vetur í mesta skammdeginu og notað höfuðljósin vikum saman, njóta þess nú að fá heilu æfingarnar í dagsbirtu...

Örn kom með flott nafn á þetta fjallafólk sem gengið hefur í vetur í myrkrinu "Ljósfarar". Hér með taka ljósfarar við næsta vetur á æfingum þegar fer að skyggja.

...en njótum þess nú að hafa birtuna... hvílík dásemd!

Heiðrún, Hanna og Ingi komin hálfa leið með borgina og heimafjall þeirra, Akrafjallið í baksýn, en ofar blasti Esjan við og nágrannafjöll hennar, Bláfjallagarðurinn allur austan megin og svo Bollarnir, Grindaskörð og Langahlíð og loks Reykjanesfjöllin nokkur sunnan megin.

Í umræðunni þetta kvöld kom fram að þessi svæði öll umhverfis Reykjavík eru svo gjöful til útivistar að það tekur okkur nokkur ár að ganga þau þver og endilöng.

Að hugsa sér verðmætin!

Og heppnina sem við njótum að hafa vit og getu til þess að njóta þess næstu árin að vinna þessi lönd undir fótum okkar.

Hópurinn kominn upp með sólarlagið í vestri.

Frábært útsýni og snjóskaflar yfir öllu, ennþá jú, vetur en samt vor í lofti...

Mættir voru:

 

Efri frá vinstri: Roar, Halldóra Á., Heiðrún, Örn, Kristín Gunda, Guðmundur Ólafur, Stefán Heimir, Alexander, Hanna.

Neðri frá vinstri: Þorleifur, Einar Logi, Íris Ósk, Ingi, Grétar Jón, Helga Björns.

Helga Sig., Hilma, Rannveig, Sigríður E og Þorbjörg þegar farnar niður og Bára bak við myndavélina.

Niðurleiðin var auðvitað allt frá því að vera rösk hjá þeim sem lögðu strax af stað frá tindinum fyrir um kvöldið og í að vera algert dól hjá þeim sem nógan tíma höfðu.

 

Feðgarnir Þorleifur og Einar Logi og svo Grétar Jón fóru nokkra kollhnísa á leiðinni niður...

Menn gengu í nokkrum hópum til baka á spjallinu í rólegheitunum því þegar veðrið er svona lygnt þá er enginn að flýta sér nema hann sé tímabundinn.

Síðustu menn komu að bílunum í byrjandi rökkri en flestir voru þá farnir.

 

Æfingin tók næstsíðustu menn 2:10 klst. en aðrir voru fyrr til baka.

Vegalengd í heild var 6,3 km.

Hækkun 250 m miðað við upphafshæð upp á 90 m og hæðin 340 m en gps mældi þetta 517 m sem getur ekki verið rétt.

Friðsæl og auðveld ganga á glæsilegt fjall með fallegu útsýni sem aftur er á dagskrá í haust.

 

Árshátíð 15. mars 2008:

Árshátíð "skoppara" (snilldar-nafngift frá Þorbjörgu) eða hádegisskokkara og toppfara var haldin 15. mars 2008. Þjálfarar verðlaunuðu þær konur sem skarað hafa fram úr í báðum klúbbum með bikar fyrir hönd Gallerí Heilsu.

Þetta voru að sjálfsögðu þær Ragnheiður Aradóttir (Heiða) hádegisskokkari og Íris Ósk Hjaltadóttir, fjallgöngumaður en báðar hafa þær sýnt framúrskarandi staðfestu og árangur á sínu sviði.

Heiða sem aukið hefur æfingamagn og hraða í hádegisskokkinu og bætt tímann sinn í 10 km keppnishlaupi um tæpar 5 mínútur, er á góðri leið í undirbúningi fyrir Gautaborgar-hálfmaraþonið og maraþon er í sjónmáli hjá henni.

Íris Ósk hefur mætt á nánast allar æfingar í fjallgöngukúbbnum og gengið á 25 fjöll en hún er sú eina sem gengið hefur á alla tíu tindana frá upphafi klúbbsins.

Báðar sýna með slíkri ástundun að eftirleikurinn er auðveldur... annars vegar bæting á tímum, jafnvel verðlaunasæti  og geta til þess að hlaupa hálfmaraþon og maraþon... og hins vegar dýrmæt reynsla í fjallamennsku og geta til þess að klífa sífellt hærri tinda við erfiðari aðstæður...

 Þjálfarar óska þeim innilega til hamingju með staðfestuna og þakka þeim mætinguna því án hennar lifa klúbbarnir ekki...

Þjálfarar voru leystir út með gjöfum og fallegum orðum þetta kvöld og fengu þessa forláta 35L bakpoka frá Útilíf og happdrættisvinning frá ZO-ON.

Þá var Báru þjálfara gefin gjöf í tilefni af 40 ár afmæli um daginn, sérsmíðaða silfurnælu með basaltsteini frá Hansínu Jens (sem táknar óbyggðir Íslands í huga þiggjandans) og 40 rauðar rósir... þvílík fegurð...
Hjartans þakkir elskurnar...

Myndavélarnar voru annars fjarverandi þetta kvöld svo engar heimildir eru til ef af fríðum hópi skoppara á góðri stund...

En í stuttu máli var hist í fordrykk og ljúffengum heimalöguðum smáréttum heima hjá Þorbjörgu þar sem allir voru ósköp glaðir að hittast innanhúss til tilbreytingar...

Þjálfari sýndi myndbönd af sögu klúbbanna frá upphafi unnin í ljósmyndum, texta og tónlist, ofangreind verðlaun voru afhent og skemmtinefnd hélt fallegar og skemmtilegar ræður.

Þá var haldið á Kornhlöðuna á Lækjarbrekku  þar sem okkar beið þrírétta máltíð sem smakkaðist einstaklega vel, myndasýning úr safni annarra toppfara en þjálfara, aragrúi af happdrættisvinningum eins og Íslensku Ölpunum, 66°Norður, ZO-ON, Afreksvörum og Útilíf.

Þá flugu brandarar og þjálfurum voru afhentar ofangreindar gjafir. Loks var farið á Vínbarinn og þaðan á Thorvaldzen þar sem dansað var fram á rauða nótt...

Frábært kvöld sem hristi hópinn vel saman og er bara forsmekkurinn af því sem skemmdinefndin mun kokka saman í framtíðinni...

Þjálfarar þakka skemmtinefndinni...

...Þorleifi, Þorbjörgu og Grétari Jóni, toppförum og hádegisskokkurum fyrir veg og vanda að fyrstu árshátíð skoppara og þakka frábæra samveru þetta kvöld með góðu fólki.

 

 

39. æfing var þriðjudaginn 11. mars með göngu á Reykjaborg og Reykjafell í Mosfellsbæ.

Alls mættu 21 manns, þar af hann Helgi Freyr, 10 ára sem var að koma í fyrsta skipti ásamt henni Nadine.

Veðrið var óborganlegt og alveg í anda Snæfellsjökuls. Færið frábært, bráðnandi snjór yfir öllu og loftið eitthvað svo tært enda staðfestir svona kvöld að vorið er að koma...

Gengið var á Reykjaborgina við Hafravatn og nokkra hnúka þar um kring og komið við á Reykjafelli í einhverju vor-bríeríi svo æfingin endaði aðeins of löng svona stuttu eftir jökulgönguna og það í rökkri... en í svona veðri er vorhugurinn greinilega óstjórnlegur hjá þjálfurum eins og öðrum skepnum jarðarinnar...

Gengið var austur upp á Hádegisfell svokallað (255 m (220)) á Reykjaborginni en leiðin var brött og kláruðum við hækkunina að mestu strax þarna í byrjun sem gat verið þungt fyrir þá sem ekki voru vanir.

Þaðan var gengið á Lala (268m (240)) sem slútir yfir vestari hluta Hafravatns gegnt Úlfarsfelli með útsýni yfir  suðausturhluta Reykjavíkur.

Hópmynd tekin á meðan sólin var þetta hátt á lofti og menn gáfu sér tíma til að stilla sér upp þó menn væri óðamála eftir Snæfellsjökulsævintýrið.

 Og árshátíðin var framundan svo það var hugur í mönnum og skemmtinefndin að störfum sem endranær...

 Þá var gengið austar að Hafrahlíðinni (288 m (200)) til suðurs með útsýni yfir Hafravatn og suðausturhluta Reykjavíkur.

Mættir voru:

Efri vi: Stefán Heimir, Guðjón Pétur, Soffía Rósa, Íris Ósk, Kristín Gunda, Grétar Jón, Örn, Helga Bj., Þuríður, Páll, Rannveig, Þorbjörg, Halldóra Á.

Neðri vi: Helga Sig., Heiðrún, Ingi, Helgi Freyr, Roar og Bára bak við myndavél.

 

Gengið hér frá Hafrahlíðinni áleiðis yfir á hæsta punkt Reykjaborgarinnar lengra inni á heiðinni sem reyndist 288 m skv gps en er 286 m skv Landmælingum.

Með rösklegri göngu án þess að taka pásur hefði verið hægt að ganga yfir á Þverfell í túrnum, en þetta kvöld nutum við útsýnisins og veðursins, flestir að jafna sig á Snæfellsjökli svo afráðið var að stefna á Reykjafell og loka þannig hringnum sem byrjað var á hinum megin frá viku áður af Æsustaðafjalli.

Þarna var sólin lágt á lofti og þessi óstjórnlegi vorhugur að verki því í raun hefði Reykjaborgin verið nægt dagsverk í bili, sérstaklega með heilan jökul enn í fótunum...

Helgi Freyr, 10 ára var á sinni fyrstu æfingu og var víst annar alla leið upp Hádegisfellið svo það var ljóst að hann er fjallagarpur mikill eins og pabbi sinn, hann Grétar Jón.

Honum fannst skemmtilegast að ganga brattar brekkur upp og niður og fór að leiðast þegar aflíðandi slétturnar tóku við milli hnúka, svo hann verður örugglega óstöðvandi eins og pabbi og arkar upp heilu jöklana ef sá gállinn er á honum...

Hér er hann með skilaboðaskjóðu? sem fannst við eina vörðuna, fulla af grjóti en engin skilaboð... hver skyldi eiga og notast við hana þessa? Var þetta fyrir gestabók sem var hvergi eða er dularfyllri saga á bak við skjóðuna?

Veðrið var gullið og útsýnið eftir því.

 Fjallasýnin kristaltær og við sáum fjöllin okkar síðustu mánuði sem endranær...

.. lyftuljósin glitruðu í Skálafelli og Bláfjöllum, Esjan, Móskarðahnúkar, Skálafell, Hengill, Stóra-Reykjafell, Stóri Meitill, Vífilsfell, Stóra Kóngsfell, Stóri Bolli, Grindaskörð, Litli Bolli, Húsfell, Helgafell, Langahlíð...

Gengið frá Reykjaborg að Reykjafelli.

Fjallagarður Bláfjalla og svo Lönguhlíðar til suðvesturs í baksýn að hluta í hvarfi frá Hafrahlíðinni.

Heldur fór að greiðast úr hópnum þegar leið á æfinguna, sumir eru miklar fjallageitur í hópnum, aðrir ekki með jafnmarga kílómetra í fótunum og enn aðrir að koma á fyrstu æfinguna og tóku því styttri hring um svæðið.

Rannveig og Helgi Freyr á göngu í sólsetrinu með Úlfarsfell í baksýn og sjávarsýnina til vesturs.

Gengið var fram á Varmá sem var í klakaböndum og var Guðjón Pétur fljótari en þjálfari að finna góðan stað til að komast yfir eins og áður og er hér með skipaður vaðstjóri hópsins...

Roar, Grétar Jón, Stefán Heimir, Soffía Rósa, Kristín Gunda, og Helgi Freyr.

Við enduðum á Reykjafell í 275 m hæð eftir tæpa 5,5 km göngu á 2:13 klst og eftir var leiðin heim...

Gengið var  um hlíðar Reykjafells gegnum byggðina við Varmárgilið þar sem við fótuðum okkur gegnum garð og slóða og loks yfir ánna með girðinguna slútandi yfir okkur með því að blotna sumir hverjir...

Þarna var komið myrkur og nokkrir með ljós en eins og alltaf er talsverða birtu að hafa frá snjó, stjörnuljósum og borgarljósum.

Þá lá leiðin eftir bílslóða og vesturhlíðum Reykjaborgarinnar þar til Þorleifur ók fram á hópinn neðan við hlíðina og sagði okkur að koma niður á reiðslóðann (sem var lokaður bílum...) og var það kærkomið þar sem sumir voru lúnir eftir langa göngu.

Þar var gengið fram á malarstæðið með stjörnurnar glitrandi fyrir ofan okkur og vorloft í vitum þrátt fyrir myrkrið...

Æfingin endaði í 3:12 klst á 8,3 km leið upp í 288 m hæð með hækkun upp á 253 m í frábæru veðri og stemmningu.

Svona dagar eru dýrmætir á þessum árstíma...

Árshátíðarstemmning var á malarstæðinu á heimleið.... það stefndi í dúndrandi mætingu og hópurinn sannarlega til í að hittast innandyra með eingöngu hár á höfði...

 

38. æfing var þriðjudaginn 4. mars á Æsustaðafjall í Mosfellsbæ í grenjandi rigningu og roki eða "leiðinlegasta veðrinu" (má segja svona, er ekki allt veður gott?) í sögu fjallgönguæfinganna...

... eða rigningu og roki, SV8 og 6°C.

Þjálfarar voru steinhissa á dúndrandi mætingunni en 17 manns mættu og létu sig hafa það þrátt fyrir versnandi veður fram eftir degi og áframhaldandi versnun á veðurspá með kveldinu.

Fór enda svo að menn hrifust bara með á skemmtilegri og gefandi göngu á einum af þessum leyndu óbyggðum höfuðborgarsvæðisins sem gefa svo ferska sýn yfir borg og bý.

Menn mættu með skapið í lagi og var gantast frá fyrstu mínútu móti vindinum.

Lagt var í hann kl. 17:41 þar sem það var of gaman á bílastæðinu til að ganga af stað... og gengið í austur upp hlíðar Æsustaðafjalls.

Færið var blautt í leysingunum um möl, mosa og stöku snjóskafla með bílförin á víð og dreif og farið um nokkra myndarlega hnúka áður en hæsta punkti var náð, ef svo má kalla í 224 m hæð skv. gps þjálfara en opinber hæð er 220 m skv. Landmælingum Íslands. (Alltaf forvitnilega að bera saman raunhæðartölu á staðnum og opinbera tölu með skekkju í huga).

Gengið var fremur rösklega í takt við vindhaminn og leist mönnum kannski ekki svo á þennan vitleysisgang í sjálfum okkur en fljótlega gleymdu menn sér við friðsamlegu landvinningana, orðnir heitir af göngunni, fullir af súrefni og ekki til í að snúa við of fljótt.

Gengið var norðan með Æsustaðafjalli, Reykjadalur niðri í móti og fjöllin okkar síðustu mánuði allt um kring.

Veðrið virtist versna er leið á sem kannski var fyrst og fremst vaxandi hæð um að kenna og ákvað þjálfari að leika þetta eftir fingrum fram og var farinn að skammta sér tæpa klukkutíma æfingu miðað við vindhraðann, þó talsvert lengdist nú á því þegar á reyndi. 

Hópmynd var tekin á toppi Æsustaðafjalls í 220 m hæð og  segir allt um þetta kvöld... það var hundblautt og hávaðarokið (lo) en "geðveikt gaman"...!

Frá vinstri efri: Stefán Heimir, Soffía Rósa, Grétar Jón, Linda, Örn, Ásta, Herdís Dröfn, Roar, Guðjon Pétur, Þorleifur.

Frá  vinstri neðri: Sigríður E., Íris Ósk, Þorbjörg, Þuríður, Ingi, Páll ... og Bára tók mynd.

Frá hæsta hnúk var áfram gengið til austurs að aflíðandi brúnum Æsustaðafjalls til austurs með útsýni yfir Helgadal og Grímmannsfell.

Landslag Grímmannsfells auðgreinanlegt og Katlagilið fallega blasti við sem sker það nánast í tvennt, Gljúfrasteinn til nrðrausturs, gróðrastöðin þar í vesturhlíðum Grímmannsfells sem að sögn Soffíu ræktar harðgerðari plöntur að hausti og vetri þar sem kuldapollar myndast þarna í dalnum, umkringdum fellshlíðunum. þarna gat einnig á að líta minkabúi sem komið er í eyði, bærinn innst í dalnum og svo sumarhúsin.

Þar sem menn voru komnir í einhvern ham  eins og vindurinn þetta kvöld og enginn til í að lægja strax, var gengið til suðurs að Reykjafelli og tindurinn þar eitthvað svo freistandi svona í veðurblíðunni sem ríkti við norðarhlíðar þess (í algeru skjóli auðvitað í fyrsta skipti á æfingunni)... að þá var gengið  beinustu leið upp hlíðarnar og þjálfari ákvað að ná hæsta punkti þar líka úr því sem komið var.

Þar loks yrðum við líklega södd á útiverunni í roki og rigningu  en þar sem þetta var tiltölulega auðveld ganga var tilvalið að smyrja á hana lengri gönguleið og fjölbreyttu landslagi í leiðinni.

Komin vorum við á hæsta punkt Reykjafells eftir 3,9 km göngu í 273 m hæð og var rokið hressilegt þarna í berangrinu eins og sjá má af mynd en það stoppaði engan við bros, hlátrasköll og brandara...

Lítið var þarna staldrað við heldur haldið til baka sömu leið með ásetningi um að taka norðurhlíðar Reykjafells til baka og sneiða framhjá skurðunum í Skammadal austan megin.

Snjóbrekkurnar voru auðvitað allt of girnilegar til annars en að skella sér enn eina ferðina niður á afturendanum og eru sumir í hópnum búnir að renna sér oftar síðustu mánuði en samanlagt frá því þeir voru kannski sex ára eða svo...

Ásta, Herdís Dröfn og Linda á leiðinni niður brekkurnar en Linda var gestur á æfingunni og leist vonandi ágætlega á þessa brjáluðu útilegumenn sem kalla sig víst toppfara, en virðast hafa mest gaman af því að komast ekki á toppinn heldur að lenda í ævintýrum og þurfa að snúa við, helzt í bakföllum eða á náttúrulegum sleðanum, afturendanum...

Bara að komast út og gleyma sér í ótakmörkuðu súrefnisflæði og útsýni sem toppar alla bílglugga og önnur borgarsamfélagsfyrirbæri sem hlekkir okkur allt of mikið á sama blettinum ár eftir ár án þess að við tökum eftir því hve árin líða fljótt (þjálfari aðeins á aldursbömmer núna...).

Óvæntar aðstæður og uppákomur sem enda vel eru það besta við útiveru andstætt fyrirsjánleika merktra göngustíga og slóða þar sem eingöngu er gengið í spor annarra... eins og það eru alveg ótrúlega eðlislægt (ósjálfrátt) okkur öllum að leita eftir slóð, förum, sporum og ganga þá þar frekar en að marka sinn eigin stíg. Vetrarfæri er að því leyti skemmtilegra en sumarfærið... maður sér engan slóða, verður að sporar sjálfur leiðina og endar þá einhvers staðar neðst í brekkunni í einhverjum ókunnum dal.

Áfram var haldið í vestur með þessari norðanhlíð Reykjafells með dalinn á hægri hönd eftir slóða sem var að koma í ljós undan snjósköflunum og reyndist vera bílslóði þegar þjálfari hafði haldið að þetta væri reiðstígur, kannski hvoru tveggja þar sem hestamenn fara talsvert um þetta svæði.

Nýustofnaða skemmtinefndin stórglæsilega og langskemmtilegasta; Þorleifur, Þorbjörg og Grétar Jón.

Þau köstuðu sér fyrst allra niður snjóbrekkurnar með nánast snjóhengjurnar fyrir sjónmáli og vissu sem var að þannig skemmtir maður sér á fjöllum... með því að láta sig hafa það sama hvað og ALLTAF með bros á vör.

Þau eru víst að kokka saman gott laugardagskvöld þann 15. mars með kokteilpartýi, myndasýningu þjálfara, Lækjarbrekku og 101 Reykjavík... takið kvöldið frá toppfarar... nánar síðar í pósti...

 

Páll og Þuríður hér með hamra Reykjafells fyrir ofan.

Færið var aðeins hált á þessum kafla en annars voru sumir orðnir blautir í fæturna þegar þarna var liðið á æfinguna enda var anzi mikið að teygjast á henni eftir allt saman.

Veðurblíða þarna í Skammadal myndaður af hlíðum Helgafells, Æsustaðafjalls og Reykjafells en til suð-suðvesturs glitti í Mosfellsbæ og Reykjavíkurborg sem farin voru að glitra í byrjandi ljósaskiptum við sólsetur rétt um sjöleytið.

Snæfellsjökull var ræddur þetta kvöld enda um helmingur viðstaddra á leið á hann næsta laugardag og var afráðið á bílastæðinu í lok æfingar að skála á toppnum.

Íris ósk bauðst til að koma með forláta koníak og Bára kemur með glös á liðið...

Gengið vestur að mynni Skammadals við rætur Helgafells þar sem hin sjarmerandi sumarhúsabyggð rís og prýðir dalinn að sumri til.

Fallegur heimur með keim af fyrri tíð þegar nægjusemi var hvers manns dyggð og nostur við smáatriði í eigin handverki en ekki annarra enn við lýði.

Síðasta verkefni kvöldsins var að komst þurr yfir lækjarsprænuna sem saklaus er að sumri en margfaldast auðvitað við leysingar eins og þennan dag. Sumir létu sig bara hafa það upp í klof með einhverjum ofurmennisstökkum (Örn og Grétar Jón) en aðrir vönduðu sig og fengu aðstoð félaga sinna.

Það versta sem gerðist var að menn gegnbleyttu sig sem var svo sem í lagi af því við vorum komið á leiðarenda en það er ágætt að nota svona tækifæri til þess að æfa sig í að komast þurr yfir vað.

Úr æfingunni fengum við frábæra 7 km rösklega göngu á 1:45 klst. upp á Æsustaðafjall (220 m) og  Reykjafell (273 m) með viðkomu í snjóbrekkum með tilheyrandi renneríi og svo göslaragangi yfir lækinn í Skammadal. Í akstrinum á leið heim í rökkri og beljandi slagviðrivarð göngutúrinn hálf óraunverulegur í því samanhengi... í svona veðri leynast greinilega fínustu göngutúrar hafi maður styrk, aga og vit á að koma sér af stað.

 

 
37. æfing var fimmtudaginn 28. febrúar eftir vikuhlé þjálfara og mættu 11 manns í frábæru veðri á Esjuna á kafi í snjó.

Veðrið var hið ágætasta eða hálfskýjað, þokuslæðingur í efri hlíðum sem vék öðru hvoru, gola og frost eða S3 og -3°C við bílana í upphafi og -5°C í lok æfingar en á að giska -7°C uppi á Þverfellshorni.

Roar og Halldóra Ásgeirs hér í fannferginu strax í upphafi æfingar.

Sólin skein á vesturhimni og var sólsetur þetta kvöld kl. 18:34 svo ekki var orðið myrkvað fyrr en síðari hluta langrar æfingar.

Talsverð umferð er á Esjunni allt árið og voru spor langleiðina að áfanga fjögur og eins áleiðis brattari leiðina um Einarsmýri, en enginn virtist hafa gengið upp í hlíðina alla leið né upp að steini í nýjasta snjónum.

Ingi hafði komið með þá hugmynd á síðustu æfingu að röskari hluti hópsins færi alla leið upp á Þverfellshorn þetta kvöld og tóku þjálfarar hann á orðinu. Við upphafi æfingar vorum við þó heldur vonlítil um að til tækist þar sem þungt var yfir efri hlíðum og ennþá aðeins óróleiki í veðrinu frá því fyrr um daginn. Örn skyldi ráða ferðinni og það myndi ráðist á staðnum hversu langt yrði gengið. Bára vissi að það þýddi bara eitt... það yrði farið alla leið möglunarlaust...

Fljótlega skildu því hóparnir tveir sem stefndu mishátt, átta manns á leið á Þverfellshorn og þrjár á leið upp að steini.

Pál Ólafs hittum við á miðri uppleið en hann var tímabundinn og skellti sér fyrr upp þetta kvöld og náði nokkuð langt að steini áður en hann sneri við í flýtinum sem hann var í þegar við mættum honum, sveittur en fullur orku af þessari mögnuðu útiveru sem fjallganga er í snjó og fallegu veðri.

Eins hittum við þá Óla og Villa á leið upp að áfanga fjögur en þeir tóku ekki áskorun okkar stelpnanna um að koma með að steini... við sleppum þeim samt ekki fyrr en þeir koma með einn daginn... Þeir halda enn út að ganga Esjuna reglulega eða 1,7 x á viku skv. tölfræðinni þeirra. Geri aðrir betur.

Þorbjörg og Halldóra Á. hér að ganga upp að Mógilsárvaðinu með klettana í baksýn og þokuslæðinginn umvefjandi í mismiklu skyggni eftir augnablikum.

Eina stundina var skyggni gott alla leið en svo skyggði vel á og maður fór að efast um öryggi Þverfellshornsfaranna á undan okkur.

Þungt snjófæri var alla leið og svellbungur á mörgum stöðum undir sköflunum, stundum varasamt og óheppilegt, en mjúk lendingin ef maður rann af stað. Almennt voru menn ekki með annað á fótunum en skóna, ekki gorma eða gadda þar sem skaflarnir litu það tryggir út.

Sjá hér ofurmennin átta að hlykkjast upp grjótbrekkuna hægra megin fyrir miðju eins og nokkrir steinar í röð...

... og svo nærmynd hér í næsta ramma fyrir neðan...

Topplið á ferð...

Frá áfanga fjögur leit þetta vel út og því höskuðu þau sér áfram til að ná sem mestri dagsbirtu í klettunum.

Kaflinn frá steini og upp hornið er drjúgari en virðist enda reyndist hann 50 mínútna viðbót frá því þau lögðu af stað frá steininum, hækkun til viðbótar  170 metra tæpa og viðbótar 1,1 km miðað við að steininn.

Þverfellshornfarar: Alexander, Guðjón Pétur, Guðmundur Ólafur, Helga Björns., Ingi, Roar, Stefán Heimir og Örn eða sjö karlmenn og ein kona.

Örn leiddi hópinn upp klettana vestsuðvestan með í snjósköflum og smá hálku, þokuslæðingi, golu og hörkufrosti (ca -7°C) með eina ísexi með í för (sem Ingi tók með) og höfuðljós á flestum ennum... en fyrst og fremst var með í förvegna uppsöfnuð reynsla síðustu vikur og mánuði í bæði skrokk og huga af því að ganga reglulega í allan vetur við allar aðstæður á Esjunni og nágrenni...

Farið var í áföngum upp þannig að stundum bað Örn menn að bíða meðan aðstæður voru kannaðar ofar. Færið var ágætt, svell aðeins og þungir skaflar, talsverður bratti en vel fært og skyndilega voru þau komin alla leið. Sumir varla á því að takast á við þetta, tveir að fara í fyrsta skipti upp á Þverfellshorn og allir að fara þarna upp í fyrsta skipti við vetraraðstæður.

 

Hreinasta afrek hjá viðstöddum og voru menn enda himinlifandi í lok göngunnar. Auðvitað var skrifað í dagbókina uppi og útsýnisins notið í ljósaskiptunum.

Bára, Halldóra Á. og Þorbjörg höfðu gengið í rólegheitunum upp að steini á meðan á þessu stóð og fóru að svipast um eftir félögum sínum þegar þær komu að steininum. Efst í klettunum sáum við ljósin þeirra fikra sig rólega niður beltið í rökkrinu og fljótlega skiluðu þau sér "sveitt og snjóug, hróðug og brostu feitt"... vísa að brjótast fram en hef ekki tíma...

Ingi og Helga hér á mynd, frosin og alsæl að skila sér niður að steini. Ingi var sá eini með ísexi en hún kemur sér mjög vel í löngri sem þessu að vetri til þegar stafir þvælast fyrir.

Svona toppfarar eru ósigrandi og mega vera ánægðir með uppskeru eins og þessa eftir reglulega ástundun í vetur.

Það skilar sér ótvírætt að mæta sama hvað. 

Inneignin í reynslubankann stækkar fljótt og úttekt eins og þessi er alls erfiðisins virði, hún léttir róðurinn og víkkar út landvinninga fjallgöngumannsins með sífellt stærri áskorunum.

Niðurleiðin gekk vel, farið var hratt niður snjóbrekkurnar með svellið kalt undir í mýrinni en bara spjallað í hita og svita í loftköstunum þegar við duttum reglulega eða endasentumst niður brekkurnar einhvern veginn...

Frá vinstri:

Roar, Alexander, Örn, Guðjón Pétur, Ingi, Helga Björns., Halldóra Á., Guðmundur Ólafur, Þorbjörg, Stefán Heimir og Bára tekur mynd.

Fannfergið sést vel og svo borgarljósin efst í baksýn. Hreinustu töfrar.

Æfingin varð 2:59 - 3:07 klst. upp 770 m (597m) með hækkun upp á 760 m  (587m) á 7,5 km (6,4km).

Frábær æfing í alla staði eins og síðustu þriðjudaga og framundan annað eins með hækkandi sól og ljúfri vorkomunni smám saman þegar líður út mars... 

 

36. æfing var þriðjudaginn 19. febrúar á Helgafell í Mosfellsbæ og mættu níu manns í veðraskilum sem urðu þennan dag.

Kærkomnu hlýindin og rigningin véku fyrir skyndilegri snjókomu með tilheyrandi kulda er leið á daginn, svo aftur var orðið hvítt yfir öllu síðari hluta dags.

Þung hláka var yfir borg og bý við upphaf æfingar svo ekkert sást í Helgafellið, þetta lága fell við Þingvallaveginn og leist þeim sem voru mættir ekkert á blikuna.

Þegar gangan hófst svo um hálf sex leytið var orðið bjart og gott, fínasta gönguveður og hélst það út æfinguna með léttari himninhvolfi, nánast fullu tungli og stjörnum í lokin.

Gengið var vestan megin upp fellið frá Ásum með frábæru útsýni yfir Mosfellsbæ og Reykjavík til suðurs og svo Esjuna til norðurs.

Heldur var þetta nú bratt þarna í upphafi því við gerðum náttúrulega eins mikið úr þessari saklausu göngu og hægt var með því að klöngrast upp hlíðina, en eftir það var þetta fínasti göngutúr eftir hnúkum Helgafells með dásamlegu útsýni í allar áttir.

Blautt var Helgafellið sem endranær en við sluppum þó furðuvel enda gættum við þess að ganga á hnúkunum sem mest utarlega í fellinu og sjálfsagt hjálpaði kuldinn eitthvað til.

Gengið var norðan með og hæsti tindur þar fljótlega eða Hátindur sem mældist 224 m en er 217 m opinberlega.

Gengið svo austur að Stekkjargili sem liggur niður að Suðurá en nafn er til af lækjarsprænunni sem rennur þarna niður... finn það síðar.

Þetta blómlega gil Helgafellsins var nú á kafi í snjó en gaman að skoða það engu að síður.

Austan megin Helgafellsins blasti Mosfellssveitin sjálf neðan úr hlíðunum og tunglið braust smám saman gegnum skýin og var nánast alveg fullt.

Fyrr á æfingunni - sjá mynd - var sólsetrið í vestri yfir borginni í mögnuðum litum sem hér sjást að einhverju leyti.

Austan megin var Skammidalur skoðaður og fellin í Mosó allt um kring sem eru á dagskrá næstu vikurnar þegar vetur víkur smám saman fyrir vorkomunni.

Léttar göngur en skemmtilegar og gefandi, kortleggjandi útivera og líkamsrækt í leiðinni... hvað er betra en það?

 

Mættir frá vinstri:

Örn, Helga Bj., Helga Sig., Heiðrún og Ingi.
Soffía Rósa, Þorbjörg, Guðmundur og Bára tekur mynd.

Mikið var spjallað og gantast á þessari æfingu, óborganlegar sögur sagðar af Inga sem voru hreint út sagt lygilegri en allur skáldskapur og verða bara að komast á blað.

Þetta er eitt það skemmtilegasta við það að stunda svona útiveru í hópi, hvort sem það eru fjallgöngur, göngutúrar, hlaupatúrar, veiði eða hvað annað... sögur eru sagðar og hlegið dátt í tímaleysi sem varla gefst nú orðið. Amstrið að baki og líkami og sál eru endurnærð eftir svona kvöldstund.

Rökkrið leið yfir hópinn á bakaleiðinni suður með Helgafellinu og ætluðum við nú að kíkja á byggingaframkvæmdirnar sunnan með en fórum of langt til vesturs í blaðrinu og létum nægja að sjá borgina í allri sinni dýrð í myrkrinu.

Þrjóskuðumst við að nota ljósin og lukum æfingunni í myrkri en ágætis birtu af tunglsljósi, snjó og borgarljósum.

4,7 km að baki á 2:10 - 2:15 klst (blöðruðum svo mikið í löngum pásum og rólegu rölti) og 224 m (217) m hæð með 156 m hækkun.

Frábær æfing sem rættist heldur betur úr veðurfarslega séð eins og oft áður og stemmningin með eindæmum skemmtileg.

 

35. æfing var Úlfarsfell þriðjudaginn 12. febrúar og mættu 21 manns hvorki meira né minna, þar af tveir gestir og hún Kristín, 12 ára fjallakona með meiru sem gengið hefur með okkur reglulega frá upphafi.

Gengið var um Úlfarsfellið þvert og endilangt og komið við á öllum hnúkum og útsýnisstöðum.

Frábær kvöldganga í dagsbirtu og kvöldsól, ljósaskiptum og svo myrkri með ljósum í lokin og óborganlegu útsýni Úlfarsfells í 360°.

Veðrið var frábært, logn og blíða og vor í lofti nánast eftir allar þessar vetrarhörkur... eða 0 vindstig, +1°C og hálfskýjað.

Sólsetur var í upphafi æfingar og dásamlegt að vera úti á þessum tíma, ennþá dagsbirta og mikill munur á birtunni frá því um áramót.

Gengið var gegnum skóginn og upp með vesturhlíðinni að Hábungu og var færið ágætt, snjóþungt í upphafi en svo léttara með hálkubungum á stöku stað.

Úlfarsfell er ekki hátt en umhverfi þess og útsýni óskaplega fallegt og vel þess virði að ganga reglulega á það eins og Esjuna.

Mættir voru nokkrir Esjuljósagöngufarar frá því um helgina og rifjuðu menn upp góðar stundir það kvöld sem heppnaðist með ólíkindum og undirstrikaði vel hve mikillar reynslu þessi hópur hefur aflað sér síðustu mánuði með reglulegum göngum allt árið við allar aðstæður veðurs, færis og birtuskilyrða.

Helga Sig, Guðrún Ágústa og Ásta ganga hér vesturhlíðina með borgina í baksýn.

Jón Tryggvi græjar sig í forgrunni.

Þarna gengum við í myrkri 18. des. á sérstakri jólaæfingu þar sem krakkarnir sex sem mættu þá skríktust niður hlíðarnar alls óhrædd við myrkrið.

Mikill munur var að ganga þarna núna í dagsbirtunni en það verður sjálfsagt aftur gaman að upplifa myrkuræfingarnar næsta vetur. Þessa dagana erum við allavega dauðfegin að fá hækkandi sól og útsýni eins langt og augað eygir...

Hópurinn þéttur og beðið eftir þeim sem komu aðeins of seint á æfinguna.

Þar á meðal var Kristín Káradóttir, 12 ára sem á orðið nokkrar fjallgöngur með okkur í bakpokanum fyrir utan þau fjöll sem hún hefur gengið með foreldrum sínum.

Hún er sannarlega að safna fjöllum...

Höfuðborgin hér í baksýn og smám saman létti til á himni og stjörnurnar kíktu við þegar leið á kvöldið.

Þorleifur, Jón Ingi, Kristín, Heiða, Jón Tryggvi og Helga Sig.

Gengið frá Hábungu að Arnarnípu sem gefur gott útsýni til norðurs yfir Esjuna, Móskarðahnúka og Skálafell.

Lægri fjöll Mosfellsbæjar þar í forgrunni sem við höfum öll heimsótt nema Mosfell en það er á dagskrá eftir nokkrar vikur.

Þeir sem mættu þetta kvöld með Esjuna í bakgrunni:

Efri frá vinstri: Jón Tryggvi, Halldóra Á., Roar, Þorleifur, Páll, Þorbjörg, Örn, Guðjón, Helga Sig, Alexander, Guðrún, Ásta, Heiða.

Neðri frá vinstri: Jón Ingi, Þuríður, Íris Ósk, Helga Bj., Ingi, Guðmundur og Kristín.

 

Frá Arnarnípu var gengið í suðaustur að Stóra og Litla Hnúk og voru ljósaskiptin hafin þarna.

Af Stóra hnúk var útsýni til austurs og glitruðu ljós borga og byggða í kring og var fallegt að sjá ljósin í Bláfjöllum og Skálafelli glitra í snjóhvítunni sem lá yfir fjallagarðinum til norðausturs og suðausturs.

Af Stóra hnúk var gengið niður á Litla hnúk og þaðan með hlíðinni yfir á Vesturhnúk í bakaleiðinni.

Þaðan lá borgin fyrir fótum og var einstakt að ganga þarna um í algeru logni því yfirleitt er alltaf talsverður vindur yfir topp Úlfarsfells.

 

Ljósverurnar þetta kvöld...

Sólarlagið birti aðeins upp himininn ennþá...

Borgarljósin tóku smám saman við...

Ljós göngumanna eins og iðandi jólakúlur...

Upplýst jörðin af höfuðljósunum harmoneraði vel þetta allt saman.

Gengið vestur af Litla hnúk með Mosfellsbæ í baksýn þarna milli hnúkanna.

Gengið í myrkri síðasta kaflann og fréttu þjálfarar síðar að hlaupafélagi á leið heim úr vinnu í norðausturhluta Grafarvogs sá ljósakeðjuna liðast niður vesturhlíðarnar...

Gangan skilaði af sér 5,2 km á 2:04 til 2:10 klst upp í 295 m hæð með um 233 m hækkun miðað við 60 m upphafshæð skv GPS.

Frábær kvöldstund í alla staði og ein af þessum vítamínsprautum í vorlíki sem fylgja hækkandi sól á himni þó ennþá sé vetur... gerist ekki hollara fyrir sál og líkama!

 

34. æfing var þriðjudaginn 5. febrúar á Esjuna og mættu 15 manns með Erni, þjálfara í ágætis veðri eða hálfskýjuðu, snjókomu, V8 og 0°C.

Mættir voru:

Efri frá vinstri: Guðjón Pétur, Soffía Rósa, Páll, Stefán Heimir, Helga Sig., Roar, Halldóra Á., Jón Ingi.

Neðri frá vinstri: Ingi, Þuríður, Helga Bj., Íris Ósk, Þorbjörg og Örn bak við myndavélina.

Þorleifur kom síðar og náði hópnum við áfanga fjögur og Bára varð heima í þetta skiptið.

 

Páll var að mæta á sína fyrstu æfingu og Stefán Heimir var að skila sér til baka eftir hlé í vetur en báðir tóku æfinguna með sóma og eru hjartanlega velkomnir í hópinn.

Sólsetur var kl. 17:23 og því bjart fyrri hluta æfingarinnar og ekki notast við ljósin almennt fyrr en frá Mógilsá og að steini.

Veðrið var sömuleiðis betra en áhorfðist miðað fyrr um daginn eins og oft áður og þjálfarar búnir að læra af reynslunni að aflýsa ekki æfingu fyrr en á staðnum, meta aðstæður í hvert sinn og stytta þá æfinguna ef svo ber undir.

Þar sem Örn var eini þjálfarinn á æfingunni voru fyrirmælin skýr og einföld að karlmannasið: Hinir hraðari skyldu ganga hægar en áður og þeir hægari ganga hraðar... ekkert mál...

Að sögn Arnar hlýddu menn þessu samviskusamlega og var áð reglulega til að þétta hópinn.

Allir héldu áfram að steini og enginn sneri við á áfanga fjögur.

Snjór yfir öllu og snjókoma.

Komið var upp að steini eftir 1:22 klst göngu fyrstu menn en talsvert teygðist úr hópnum á kaflanum þangað og þeir síðustu skiluðu sér nokkrum mínútum síðar.

Lagt var af stað niður aftur 11 mín. síðar og tók niðurleiðin um 45 mín. enda alltaf farið fremur greitt þann kafla.

Mynd: Við steininn í smá éljagangi og vindi en annars flott gönguveður þetta kvöld.

Mikið spjallað og var góður andi á æfingunni.

Þó nokkuð margir væntanlegir alpa farar voru á æfingunni eða 8 manns; Jón Ingi, Helga Bj., Þorbjörg, Íris Ósk, Þuríður, Guðjón Pétur, Ingi og Örn.

Æfingin skilaði hópnum niður eftir 6,6 km göngu á 2:17-2:24 klst. upp 581 m í 597 m.

Flott og fjölmenn æfing í síðasta skipti á Esjuna í vetur.

Nú bíða okkar önnur nágrannafjöll höfuðborgarsvæðisins, kannski ekki eins há og Esjan en gullfallegar gönguleiðir, ný sjónarhorn og spennandi slóðir...

Esjujósagangan er á laugardaginn... nokkrir toppfarar ætla með þjálfurum upp þetta kvöld og vera til taks fyrir samborgarana sem áhuga hafa á að prófa vetrargöngu í myrkri. Njótum þess að miðla af reynslu okkar til þeirra sem ekki hafa kynnst Esjunni í vetrarbúningi.

 

Æfing nr. 33 var á Esjunni þriðjudaginn 29. janúar og mættu samtals 11 manns en Soffía kom of seint á æfinguna, leitaði hópinn uppi og mætti honum á niðurleiðinni.

Veðrið var með ágætum eða hálfskýjað, lág ský á slæðingi yfir borg og fjöllum en stjörnugluggar öðru hvoru, gola og frost eða V6 og -1°C en líklegast kaldara við steininn.

Nokkur bjart var í upphafi æfingar og dásamlegt að komast út í þessu veðri með snjóinn yfir öllu eins og síðustu vikur.

Sem fyrr mættum við Stefáni Erni og Jóa hlaupurum á fullri ferð niður í þessum mjúka og ferska snjó.

Ekki ónýtt að hraðspóla svona um fjöll og firndindi á fáförnum stað í skammdeginu...

Þoka lá yfir Þverfellshorninu og á hluta af leiðinni kom vindslæðingur en annars lék golan við göngumenn og uppi við áfanga fjögur var bara lygnt og ekkert annað á dagskrá en að halda áfram upp að steini.

Jón Ingi mætti á æfinguna og var vel fagnað af göngufélögum sem ekki hafa séð hann síðan í nóvember. Hans og Hrannar hefur verið sárt saknað.

Þorbjörg hér og Jón Ingi á brúnni.

Ofar eru Örn, Helga, Guðjón og Ingi eða Hjörleifur?

Ljósaskiptin einstaklega falleg á þessum tíma.

Borgarljósin og fjöllin í Mosfellsbænum hér framundan úr neðri hlíðum.

Komin upp fyrsta hjallann var hópurinn þéttur í rólegheitunum.

Ljósbjarma má sjá ofan við hlíðina af síðustu geislum sólsetursins sem var kl. 17:03. Bleikur bjarmi enn á himni.

Þessi mynd er svo tekin með flassi.

Guðjón, Ingi, Örn, Hjörleifur, Helga BJ., Íris Ósk, Þorbjörg, Þorleifur, Jón Ingi.

Hittum á Villa og Óla við áfanga fjögur en þeir voru mun fljótari þangað en fyrir viku síðan, enda æfa þeir stíft núna þrisvar í viku Esjugöngu...

Sporin okkar eftir hlíðinni upp að steini.

Engin spor voru þar fyrir enda færri sem fara alla leið að steini við þessar aðstæður, heldur láta áfanga fjögur nægja enda munar talsvert um þessa leið til viðbótar vegna veðurs, hitastigs og færðar.

"Iss, þetta eru nú engir skaflar eftir það sem við gösluðumst yfir á Baulu"... sögðu Baulufarar og ypptu öxlum.

Baula bauð sem sé upp á enn eina nýjungina í vetrarferðunum... endalausar, dúnmjúkar og djúpar snjóbreiður sem þurfti að klofvegast yfir að fjallsrótum.

.

Íris Ósk hér í hlíðinni að fá sér að drekka.

Hún er tindahöfðingi fjallgönguklúbbsins, sú eina sem sigrað hefur alla tindana og mætt auk þess samviskusamlega á mjög margar æfingar frá upphafi.

  

Lágskýjað var þetta kvöld og skýin yfir borginni urðu appelsínugul undan borgarljósunum.

 

Hópurinn gekk allur upp að steini:
Þorleifur, Hjörleifur, Guðjón, Örn, Jón Ingi og Ingi.
Íris Ósk, Þorbjörg og Helga.
Soffía mætti okkur á niðurleiðinni og Bára bak við myndavélina.

Niðurleiðin var í boði Hjörleifs sem kynnti fyrir okkur leiðina sem félagi hans sýndi þeim fyrr í vetur: Gengið vestur eftir Langahrygg og þaðan niður brattar hlíðarnar að slóðanum neðan við áfanga þrjú.

Skemmtileg tilbreyting, gott að losna við mýrina og mjög fallegur útsýnisstaður á leiðinni, en brattinn heldur varasamur í sumri færð sjálfsagt en þó gaman að prófa áfram með það.

Þetta kvöld þó alger snilld, við bara renndum okkur eða skíðuðum á skónum niður snjóbrekkurnar... jeminn en gaman.

Borgarljósin og litir þeirra í skýjunum fyrir ofan borgina.

Ljósgeislar höfuðljósanna á göngumönnum í forgrunni.

Færðin var fín en þó hálka á stöku stað og leyndar svellbungur undir snjósköflunum.

Frábær æfing sem endranær og hópurinn sterkur þrátt fyrir að helmingur viðstaddra hafði gengið sig inn að beini á Baulu fyrir þremur dögum og sumir ekki mætt lengi...dúndurlið.

Æfingin skilaði 6,5 km göngu á 2:18 til 2:24 klst. upp í 597 m hæð með 581 m hækkun skv gps.

Næstsíðasta Esjugangan... eftir Esjuljósagönguna 9. febrúar gírum við okkur aðeins niður og förum á ýmis fjöll í nágrenni Reykjavíkur sem eru lægri en Esjan en bjóða upp á góða göngutúra og útiveru engu að síður í nýju umhverfi.

Þá gefst gott tækifæri fyrir óvana eða nýja að koma inn til að æfa sig fyrir vorið... engin afsökun tekin gild...

Tindarnir þyngjast hins vegar hér með svo þeir sem ætla sér stóra hluti halda sér vel við fyrir Hvannadalshnúk, Fimmvörðuháls og Laugaveginn í sumar...

 

32. æfing var þriðjudaginn 22. janúar og mættu 11 manns í fínu veðri og góðu færi eða skýjuðu að mestu, golu og éli í mýflugumynd eða S4 og 2°C.

Veðrið og færðin var mun betra en áhorfðist um daginn og í ljósi veðurspár og reyndist æfingin fínasta útivera í friðsæld Esjunnar enn einu sinni.

Mættir voru: Alda, Þorleifur, Íris Ósk, Roar, Helga Sig., Örn, Soffía, Guðjón, Ingi, Hilma sem var ap mæta í sína fyrstu göngu og svo Bára.

 

Sólsetur var 16:40 þetta kvöld og því enn nokkuð bjart við upphafi æfingar og mikill munur nú í hverri viku sem líður.

Þessi mynd var tekin um kl. 17:42 í upphafi göngunnar og má sjá hvernig snjórinn hefur náð að leysa talsvert frá fyrri æfingu, var blautur og laus í sér.

Lítil hálka var alla leið upp að steini og færið betra en gruna mátti í ljósi hlákunnar sólarhringinn á undan.

Flestir voru með gorma eða neglda brodda undir skóm, en Ingi var með skrúfur í skónum sínum og Guðjón mætti með skrúfaða sóla sem seldir eru erlendis fyrir veiðimenn og reyndist þessi útbúnaður mjög vel hjá þeim á göngunni í gær. Skrúfurnar eru klofnar í tvennt og mynda hvöss horn sem gefa gott grip og virtust hvorki losna né mást niður svo nú er forvitnilegt að sjá hvort hér sé ekki kominn besti búnaðurinn fyrir vetraræfingarnar. Gormarnir eiga til að færast til á skónum og naglarnir losna auðveldlega af hefðbundnu mannbroddunum við reglulega notkun utan vega svo nú fer reynslan að hallast að því að negling eða skrúfur undir skó sé besta lausnin fyrir þá sem stunda fjallgöngur allan veturinn.

Gengið var í tveimur hópum upp að áfanga fjögur en þar skildu leiðir, tvær sneru við og hinir héldu áfram upp að steini.

Á leiðinni að áfanga fjögur hittum við á þá Villa og Óla sem stefndu ótrauðir upp að vaði og eru að ganga reglulega á Esjuna í vetur.

Reyndist þar vera á ferð gamall ferðafélagi Báru á Laugaveginum fyrir nokkrum árum og var gaman að hitta þá stráka svona einbeitta og með spennandi markmið fyrir árið 2008. Vonandi sjáum við þá oftar í vetur...

Komið var upp að steini eftir 1:18 klst göngu fyrri hópur og 1:28 klst. seinni hópur enda ekkert að gera nema spjalla í góðu tómi í góðu veðri. Væg golan réð ríkjum uppi við stein, aldrei þessu vant í vetur þar sem nánast alltaf hefur verið logn og stöldruðum við ekki lengri þar uppi eftir að síðustu menn skiluðu sér.

Farin var brattari leiðin niður um Einarsmýri og nú skyldi ekki farið lengri krók um hrygginn sem tókst svona næstum í blaðrinu á niðurleiðinni.

Færið áfram gott og ágætis grip, jafnvel fyrir þá sem ekki voru með brodda, en þó stöku svellbungur.

Niðri var spjallað í lok æfingar við skiltið og bornar saman bækur um gripútbúnaðinn á skónum. Nokkrir viðstaddir ætla á Baulu á laugardag sem er gott fjall svona í upphafi ársins.

Æfingunni lauk eftir 2:07 -2:14 klst upp 597 m eða 581 m hækkun skv gps. Niðurleiðin var anzi hröð enda gott að fóta sig í minni snjó en síðast og nánast engri hálku.

ATH. Þjálfarar hafa tekið þá ákvörðun af fenginni reynslu í vetur og m. a. þetta kvöld að æfing verður hér með aldrei afboðuð fyrr en á staðnum, þar sem oftar en ekki rætist úr veðri og best að meta aðstæður á staðnum eftir veðri og færð í hvert sinn.

 

31. æfing var þriðjudaginn 15. janúar með göngu á Esjunni upp að steini og mættu 15 manns.

Veðrið var frábært eða lygnt, 0°C, A4 og skýjað með éljum stutta stund á leiðinni en aðallega logn og friðsælt á fjalli á kafi í snjó...

Snjóskaflar voru á leiðinni og þá sérstaklega efsta hlutann í hlíðinni upp að steini og á niðurleið um Einarsmýri.

Við skemmtum okkur konunglega eins og krakkar við að kúveltast í snjónum niður og enduðu sum upp að herðum í sköflunum alveg óvænt eins og Grétar Jón hér á mynd, en hann steig niður af barðinu og endaði svona við mikla kátínu félaganna.

Í fyrsta skipti í átta vikur mættum við í dagsbirtu á æfingu en sólsetur var kl. 16:16 þetta kvöld eins og á æfingunni 20. nóvember 2007.

Þarna lék og hlutverk að nýfallinn snjór var yfir öllu og var dásamlegt að græja sig við Esjurætur í þessu umhverfi.

Hópurinn dreifðist talsvert í byrjun þar sem menn voru að týnast inn á æfinguna upp úr klukkan hálf, enda færið þungt í bænum eins og á Esjunni sjálfri og nokkrir seinir fyrir.

Þetta var mesti snjófarg á leið okkar á æfingu frá upphafi klúbbsins og má búast við þessu af og til fram í mars ef að líkum lætur og svo leysingar í bland fram í apríl með tilheyrandi bleytu og hálku.

Gengið var í spor ÍR-skokkaranna Stefáns Arnar og Jóhanns sem fóru lítillega á undan okkur á hlaupaskóum, en þá hittum við nánast hvern þriðjudag í vetur á fullri fart á negldum hlaupaskóm.

Fyrir áhugasama þá mun þjálfari hafa samband við þann sem neglir skó ÍR-inganna en slík negling gerir mannbroddana óþarfa sem er kostur, en um leið er það ókostur að þurfa að halda heilu góðu pari af hlaupaskóm eða gönguskóm negldum fyrir kannski örfáa daga ár ári, því ekki er æskilegt að nota úr sér gengna skó í neglingu.

Akurnesingarnir mættu með haldgóða skrúfu á æfinguna og ætla að prófa að skrúfa slíkt í skóna sína, svo gaman verður að sjá hvernig það virkar.

Reynslan hefur hingað til kennt okkur að þessir hefðbundnu negldu mannbroddar duga stutt á fjallgöngunum þar sem naglarnir vilja detta úr, þola sjálfsagt ekki grófa undirlagið. Gormarnir eru því að endast betur, en þeir vilja færast til á skónum, sérstaklega þegar mikið er gengið utan í hlíð og á ójöfnu undirlagi. Við höldum áfram að prófa okkur áfram með þetta og skiptumst á reynslu ef svo má kalla.

Fjallamennskan sem slík virðist hingað til ekki hafa horft til milli-búnaðar eins og þessara mannbrodda, heldur stílað inn á grófsólaða gönguskó og svo bara jöklabroddana sjálfa, en þarna er of langt bil á milli. Þessir mannbroddar sem við höfum verið að prófa okkur áfram með á æfingum hafa skipt sköpum í hálku og verið nauðsynlegir við sumar aðstæður, þegar um of hefði verið að ganga á jöklabroddum, sérstaklega þar sem þeir eru ekki liðlegir til langs tíma.

Færið þetta kvöld var þungt af snjó og óðum við skaflana fljótlega á leiðinni og þeir þyngdust með meiri hæð en sums staðar var stígurinn þó sjáanlegur þar sem snjó hafði ekki tekist að safnast fyrir, fyrir vindblæstri.

Við áfanga fjögur á vaðinu yfir Mógilsá sneru tvö við en hinir héldu áfram upp grjótbrekkuna sem var vel fær að sjá.

Þegar komið var upp í hlíðina tóku við miklir skaflar í hverjum saklausum gilskorningi og náðu þeir sumir upp að mjöðmum, eins og hér sést þar sem Helga S. fetar sig eftir sporum félaganna.

Éljagangur var á þessum hluta göngunnar, en stóð stutt yfir og var veðurblíðan aðallega við völd .

Við steininn var spjallað um lausn á afboðaðri uppskeruhátíð, væntanlega gönguferð erlendis umhverfis Mont Blanc og gönguferðirnar í sumar, en viðstaddir voru flestir ákveðnir í að taka þátt í þessum göngum, nokkrir skráðu sig strax alveg ákveðnir og mikill hugur var í mönnum.

Farin var brattari leiðin niður um Einarsmýri sem lá á kafi í snjó og minnti stundum á sig með því að einhver datt á svelli undir kannski 50 cm snjóskafl... en margir féllu við nokkrum sinnum á þessum kafla og lentu svona líka dúnmjúkt í snjónum eins og best verður á kosið.

Þorbjörg býr sig hér undir að renna niður misfellu og Gylfi Þór smellir myndum af félögunu sem sumir hverjir stukku fram af þarna á kaf í snjóinn...

Við létum eins og krakkar í gamla daga þegar svona kyrrlátt og hlýtt kvöld með nýföllnum snjó á kafi um allt var dýrindis leikvangur fyrir ungar sálir... 

Þetta var svo gaman að þjálfari gleymdi sér og tók ekki hópmynd af göngumönnum, þykir það mikið miður og syrgir það enn.

Slík mynd hefði verið snilld á kafi í einni snjóbrekkunni... en við verðum bara að sjá hana fyrir okkur og vona að svona færi komi aftur síðar.

Mættir voru annars auk þjálfara: Alexander, Grétar Jón, Guðjón, Gylfi Þór, Halldóra Á., Halldóra Þ., Ingi, Ketill, Helga S., Roar, Soffía, Þorbjörg og Þorleifur...

...og fórum við 6,2 km upp að steini í 597 m hæð á 2:40 - 2:47 klst.

Bara alger snilld...

 

30. æfing fjallgönguklúbbsins og jafnframt fyrsta æfing ársins 2008 var 8. janúar á Esjunni og mættu hvorki meira né minna en 18 manns með þjálfurum, þar af fimm nýir meðlimir, þau Guðjón, Ingi, Helga, Grímhildur og Eiríkur.

Veðrið var gott, skýjað, lygnt og hiti yfir frostmarki eða A3 og +3°C.

Stöku snjókorn eða slyddudropar svifu í loftinu og  snjóföl var yfir öllu frá bílastæði með sköflum á stöku stað ofar.

Færið var ágætt, lítið mál fyrir þá sem voru á mannbroddum, en tiltölulega hált í byrjun á svellbungum hér og þar fyrir þá sem voru ekkert negldir og eins aftur á niðurleið í mesta brattanum.

Fór enda svo að ein sneri fljótlega við í hálkunni þar sem hún var á vel notuðum gönguskóm sem voru orðnir sleipir og því ekkert grip í þeim. Hún ætlar að mæta ótrauð eftir viku með mannbrodda og höfuðljós og eins skal ítrekað að stafir koma sér vel í sleipri færð eins og þetta kvöld.

Gengið var fremur rösklega upp og höfðu nánast allir þrek til þess þrátt fyrir að nýir meðlimir væru með í för, en hópnum var þjappað saman öðru hvoru.

Hér á mynd var staldrað við á áfanga þrjú og var góð stemmning í hópnum. Það er alltaf kraftur í upphafi nýs árs og ásetningur um áfanga og afrek á komandi ári... Best auðvitað að byrja strax að leggja inn fyrir því og gefa tóninn fyrir árið...

Farið yfir brú Mógilsárinnar við áfanga þrjú. Lítil hálka og lungamjúkur snjór á slóðanum.

Endurskinsmerkingar eru á steinum á þessari leið sem kemur sér vel fyrir þann sem ekki kann leiðina utan að þegar skyggni er lítið í þoku eða úrkomu og ekki sést til borgarljósanna eins og fyrstu æfingarnar voru í vetur.

Til viðmiðunar er svo hér næsta mynd flasslaus af mannskapnum á leið yfir brúnna... raunveruleg sýn í rökkrinu þetta kvöld... dulúðugt og töfrandi... og ekkert nema ævintýri...

Eins og oft áður var vel hægt að komast af án ljóss þrátt fyrir að skýjað væri, þar sem snjórinn birtir upp umhverfið og ljós félaganna lýsa nægilega vel í kringum mann, enda grípa nokkrir fastagestir alltaf tækifærið og ganga í rökkrinu með ekkert ljós þegar svo ber undir.

Þannig skynjar maður umhverfið betur og gildir hér sama lögmál og með borgarljósin... það er meira myrkur í borginni innan um öll ljósin, heldur en úti í óbyggðum þar sem náttúruleg birta vetrarins ríkir; tunglsljós, stjörnuljós og svo snjórinn... hann er birtugjafi vetrarins að ákveðnu leyti. Borgarsamfélagið eykur í raun á myrkrið í eðli sínu með því að takmarka sýnina við það umhverfi sem ljósin lýsa á og því eru stundir sem þessar töfrandi og um leið styrkjandi.

Klettahamrarnir í rökkrinu og kuldanum verða enn voldugri þarna yfir höfði manns í Esjuhlíðum og er bara stórfengleg sýn fyrir hvern þann sem nær að staldra við að vetri til...

Við vaðið á áfanga fjögur sneru þrjú við en 14 manns héldu ótrauðir áfram upp að steini og voru komin þangað eftir 1:15 klst. fyrstu menn og 1:14 klst. þeir síðustu. 

Í annað sinn í vetur voru menn að ganga upp Esjuna í fyrsta skipti og það við þessar vetraraðstæður sem hlýtur að teljast afrek í sjálfu sér, til hamingju með það!

Hitinn fór í -2,1°C skv. digital-mæli Roars (ekki HOBO-mælinum) við steininn í tæplega 600 metra hæð sem þýðir 4 - 5 gráðu lækkun á hita frá bílastæðinu.

Tiltölulega lygnt var við steininn eins og vanalega í vetur og léttur stríðnisandi í mönnum, mikill munur að geta spjallað í rólegheitunum og vera laus við hávaðarokið.
Steinfarar frá vinstri:
Eiríkur, Roar, Halldóra Á., Stefán, Helga S., Ingi, Helga Bj., Soffía, Guðjón, Örn, Alexander, Grétar Jón, Gylfi Þór og Bára bak við myndavél.

Minna var um svell ofar í Esjuhlíðunum þar sem jarðvegur er þurrari, en þá vill vaxandi frost hæðarinnar oft svella slóðina til eins og við sannreyndum þann 18. desember s. l., en svo var sem betur fer ekki í þetta skiptið.

Þar sem færið var þetta gott var afráðið að fara í fyrsta skipti í vetur styttri og brattari leiðina niður þó ekki væri slóða fyrir að fara fyrsta kaflann, enda ekki hægt að villast fyrir kunnuga með ljós á höfði og borgarljósin fyrir framan sig...

Undanfararnir reyndu það þó eitthvað, Örn vildi víst krydda svolítið fyrstu æfingu ársins að eigin sögn og Bára var eitthvað á því að ganga til Akraness til að spara Akurnesingunum aksturinn heim, en þegar það þýddi gistingu á Akranesi fyrir alla hina sem væru þá bíllausir og kæmust ekki í bæinn og ekki væru þá heimamenn með bíl til að skutla okkur... þá hljómaði sú hugmynd ekki lengur nógu vel...

Svo við þvældumst eitthvað of langt vestur eftir Langahryggnum í hæfilegu og hollu kæruleysi, en áttuðum okkur svo og fórum niður að slóðanum við áfanga þrjú (kannski svipuð leið og Hjörleifur og félagar fóru þann 18. des? - sjá síðar).

Maður víkkar út sjóndeildarhringinn við að halda sig ekki alltaf á slóða eða vera á þekktri leið svo lengi sem skynsemin er í för, því með því að þurfa að hugsa og vafra til baka á rétta leið, temur maður sér að lesa í umhverfið og rata eftir minni... kynnast því að þurfa að rata, sjá umhverfið frá öðrum sjónarhóli og komast að því að það styrkir sjálfstraustið að fara út fyrir merkta leið en komast heill heim... ítreka, svo lengi sem skynsemin er með í för...

Niðurgangan var mjög rösk og lauk æfingunni á 2:14 til 2:18 klst á 6,4 km leið upp 590 m í 597 m hæð skv GPS. Sæll og glaður var hópurinn sem þetta afrekaði áttunda dag ársins 2008!

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Gallerí Heilsa ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)galleriheilsa.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir - sími +354-867-4000 - netfang: bara(hjá)toppfarar.is